Skólatöskuauglýsingar eru farnar að birtst í blöðunum þær minna mann á að eftir verslunarmannahelgi fer hugur kennara og nemenda að reika til skólastofunnar.
Um miðjan ágúst fara kennarar á fullt að undirbúa komu nemenda í skólann. Því sem var pakkað niður að vori svo hægt sé að þrífa kennslustofur er aftur komið fyrir í skápa og hillur í kennslustofunni. Útvega þarf nauðsynleg gögn og kynna sér nemendur sína. Kennsluáætlanir vetrarins eru samdar og fyrstu vikurnar í það minnsta skipulagðar.
Sumir kennarar fara á námskeið snemma í ágúst til að verða betur í stakk búnir til að takast á við starf sitt. Þannig að sumarfríum er að ljúka. Það sama á við um Krítina sem kemur rólega úr sumarfríi með því að birta ágæta rússneska sögu sem við fengum að láni hjá Árna Bergmann.
Vanja litli er í skólanum og kennslukonan er að kenna margföldunartöfluna og vill að hann svari því hvað fjórir sinnum fimm er mikið. En Vanja er annars hugar, pabbi er á fyllirí, mamma veik, kýrin fótbrotin, litla systir týnd. Og kennslukonan æpir á hann enn og aftur: Hvað er fjórum sinnum fimm og loks heyrir hann. Og svarar:
„Bara að ég hefði þínar áhyggjur, María Ívanovna“.…
Ég hugsa að það sé gagnlegt fyrir kennara að hafa þessa sögu í huga þegar nemendur eru kannski ekki alveg eins og kennarinn vill hafa þá, ástæður fyrir því geta verið ansi margar. Munum að nemendur hafa ýmislegt með sér inn í skólastofuna sem ekki sést.
EK