Við erum sífellt að fjalla um einhverskonar markmið, menn setja sér markmið um að léttast, að greiða niður skuldir, að ná tilteknum einingafjölda í námi o.s.frv. Þeir sem setja sér markmið í lífinu eru líka almennt taldir líklegri til að ná árangri en þeir sem láta reka á reiðanum. Í aðalnámskrá, skólanámskrá og bekkjarnámskrám eru óteljandi markmið og því virðist sem starf kennara og nemenda snúist að meira og minna leyti um að vinna að einhverjum markmiðum, eða hvað?
Þegar ég lít til baka yfir feril minn sem grunnskólakennari finnst mér of oft að leiðirnar í kennslunni þ.e.a.s. námsgögnin, kennsluaðferðirnar, fyrirkomulagið o.s.frv. hafi yfirskyggt sjálft markmiðið kennslustundarinnar. Hvað áttu nemendur að læra í þessari kennslustund sem þeir ekki kunnu eða vissu áður? Auðvitað vissi ég innst inni að hvaða markmiðum var stefnt, en leiðirnar urðu samt aðal atriðið og nemendur fengu a.m.k. afar sjaldan að vita hver markmiðin voru.
Ekki fyrir svo löngu síðan var ég að ræða við kennara sem sagði mér í hreinskilni að hún hugleiddi það aldrei hver skilgreind markmið kennslustundanna væru enda þótt hún færi aldrei óundirbúin inn í skólastofuna. Þegar hún svaraði því hvort tiltekin kennslustund hafi gengið vel væri hún því ekki að miða við einhver markmið sem hún hefði sett fyrir kennslustundina. Mig grunar að þetta sé eitt af því sem einkennir menningu íslenskra grunnskóla. Við erum líklega ekki mjög meðvituð um markmið hverrar kennslustundar enda þótt hún sé að öllu öðru leyti vel undirbúin. Þetta finnst mér umhugsunarvert í ljósi þess sem m.a. kemur fram í rannsókn Warrington, Younger o.fl. (2006) þar sem segir að eitt af því sem hefur umtalsverð áhrif á árangur í námi og kennslu drengja og einnig stúlkna sé að nemendur viti að hvaða markmiðum þeir eigi að vinna í kennslustundinni, að þeir séu markvisst studdir til að ná þessum markmiðum og viti hvað sé til marks um að þeir hafi náð markmiðum sínum. Í lok kennslustundarinnar geti því hver einstakur nemandi svarað því hvort hann hafi náð markmiðum sínum og rökstutt svar sitt. Þetta er raunar svo sjálfsagt að það ætti ekki að þurfa að ræða það frekar. Erum við ekki öll eða a.m.k. flest því marki brennd að finnast miklu skemmtilegra að vinna þegar við sjáum raunverulegan tilgang með því sem við erum að gera, höfum tækifæri til að ná skilgreindum árangri og getum fagnað þegar það tekst?
Flestir kennarar gera sér ljóst að áhugi er ein megin forsenda náms og við vitum að það hefur lítinn tilgang að reyna að kenna áhugalausum nemendum. Að hafa það eitt að markmiði í kennslustund eftir kennslustund að fylla út síður í vinnubók er í hreinskilni sagt ekki alltaf nægilega spennandi til að vekja áhuga allra nemenda. Oft þegar ég hef spurt nemendur að því hvernig þeim gangi í tiltekinni námsgrein vísa þeir til blaðsíðutals, þeir eru komnir á bls. 68 og gengur því vel en honum gengur aftur á móti ekki eins vel, hann er bara kominn á bls. 53. Viðmið um árangur eru þannig blaðsíðufjöldi, þ.e. afköst frekar en að hafa náð að tileinka sér tiltekna þekkingu eða færni. Eins og allir vita þá eru ekki endilega tengsl á milli afkasta og færni eða þekkingar, það gæti jafnvel verið að nemandinn sé búinn að tileinka sé viðkomandi færni fyrir mögrum bls. síðan. En í hugum þessara nemenda virðast markmið námsins fyrst og fremst vera fólgin í afköstum. Svo þegar nemendur eiga sjálfir að setja sér markmið í námi kunna þeir enga aðra leið en þá að setja sér markmið um afköst.
Eitt af þeim aha ! augnablikum, sem breyttu hugmyndum mínum um kennslu, átti sér stað þegar ég sat í fyrsta skipti í kennslustund hjá kennara sem hóf kennsluna með því að útskýra makmið kennslustundarinnar fyrir nemendum sínum. „Í þessari kennslustund eigið þið að læra……. og þegar kennslustundinni lýkur þá eigið þið öll að geta sýnt fram á að þið hafið náð markmiðum ykkar með því að ………“ . Markmið kennarans með kennslustundinni voru kýr skýr og enginn nemandi var heldur í vafa um til hvers væri ætlast af honum og þeir vissu nákvæmlega hvenær þeir höfðu náð markmiðum stundarinnar.
Stundum væri nú gott að geta ýtt á REPLAY í starfsferlinum, ef það væri hægt myndi ég m.a. taka mér kennsluaðferðir þessa kennara til fyrirmyndar.
NKC
Heimild:
Warrington M., og M. Younger. 2006. Raising Boys’ Achievement in Primary Schools: Towards a holistic approach. Berkshire: Open University Press.
Flott ábending enda tek ég undir að ferlið hefur oft mun meiri fyrirferð í kennslu en lokaútkoman. Í yfirstandandi rannsókn á Byrjendalæsi hef ég þó orðið var við að þeir kennarar sem fylgja þessum vinnubrögðum eru meðvitaðir um að þeir eru að kenna eftir markmiðum og velja því námsefni í samræmi við þau en ekki öfugt. En það er einnig ástæða til að benda á að þótt flestir hugsi í lokamarkmiðum taka margir meðvitaða eða ómeðvitaða ákvörðun um að leggja meiri áherslu á ferlið, Góð samlíking er fjallganga þar sem sumir einblína á að komast á toppinn en aðrir vilja fara sér hægar og skoða náttúruna á leiðinni. Það er nefnilega ekkert satt og rétt í þessu máli fremur en mörgum öðrum en nemendur þurfa vissulega að vita hver tilgangur kennarans er og fá tækifæri til að setja sér sjálfir markmið hvort sem þau eru lokamarkmið eða ferlimarkmið.