Að breyta skólastarfi

Því er oft haldið fram að samfélagið hafi breyst mikið á undanförnum áratugum. Ef ég gef mér að þetta sé rétt fullyrðing án þess að þurfa að rökstyðja það neitt nánar þá gæti ég leyft mér að draga þá ályktun að skólar, sem ein af stofnunum samfélagsins og þar með kennarastarfið, hljóti einnig að hafa breyst mikið.

Ég heyrði einu sinni sögu af því, að fyrir u.þ.b. 100 árum var ákveðið að frysta lækni og kennara lifandi til að gera tilraun með að halda fólki lifandi í frosti í 100 ár og vekja það svo aftur til lífsins. Þegar mennirnir sem sagan fjallar um, voru vaktir um aldamótin 2000, mætti læknirinn á næsta spítala til að fara að sinna sinni vinnu. Hann fann strax að allt var mjög breytt og hann vissi ekki sitt rjúkandi ráð enda eina var tækið sem honum fannst hann kannast við hlustunarpípan. Kennarinn hins vegar, gekk inn í næsta skóla með krítarpakka í vasanum, stillti sér upp fyrir framan töfluna horfði ákveðnum augum framan í nemendur, bauð góðan daginn og byrjaði að kenna eins og tíminn hefði staðið í stað.

Ein leið til að túlka þennan brandara er að líta á hann sem ádeilu á það hversu staðnaðir skólar eru enda hafi starfshættir þeirra lítið breyst í áranna rás. Og umfjöllunarefn í kafla sem ég las einu sinni  í bókinni The new meaning of educational Change eftir Michael Fullan rennir stoðum undir það að í skólum hafi ekki mikið breyst. Í kaflanum er sagt frá nokkrum rannsóknum, sú elsta er 25 ára (þegar bókin kom út), og sú yngsta frá árinu 2001. Allar þessar rannsóknir gefa vísbendingar um að fátt hafi breyst í starfsumhverfi og starfsháttum kennara á þessu tímabili. Þau 25 ár sem rannsóknirnar ná til hafa kennarar kvartað undan miklu vinnuálagi, auknum kröfum frá samfélaginu og þeir hafa unnið störf sín hver í sínu horni að mestu leyti . Í kaflanum segir Fullan einnig frá rannsóknum þar sem fram koma vísbendingar um að þegar kennarar fá tækifæri til að vinna saman, hafa áhrif á eigið starf og geta þannig mótað starfið og stutt hverjir aðra sé starfsgleði þeirra meiri. Kennarar sem þannig vinna virðist hafa uppbyggilegra, viðhorf bæði til starfsins og nemenda. Fullan tekur dæmi frá einum skóla þar sem fram kemur að viðhorf kennara, í enskudeildinni annarsvegar og í félagsfræðideildinni hins vegar, eru gjörólík. Kennararnir í enskudeildinni eru áhugasamir, hafa metnað fyrir hönd nemenda, vinna saman við að leysa þau vandamál sem upp koma og skipuleggja starf sitt saman. Í félagsfræðideildinni ber hins vegar hver kennari ábyrgð á sínu, þar eru kennararnir bitrir og vonlausir fyrir hönd nemenda sinna og tala hvorki vel um nemendur, né starfið í skólanum. Fullan er sýnist mér að rökstyðja mikilvægi sterkra lærdómssamfélaga kennara í skólum. Lærdómsamfélaga þar sem kennarar eru hafðir með í ráðum, læra hver af öðrum og vinna ötullega að því að bæta starfið í sínum skóla með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Þannig er mögulegt að fagmennska þeirra eflist og styrkur þeirra til að takast á við vinnu sína vaxi.Fullan heldur því fram að breytingar í skólastarfi standi og falli með því hvað kennarar hugsa.

En hvað eru kennarar að hugsa? Er hugsanlegt að sumir kennarar líti á það sem hlutverk sitt að sjá til þess að skólinn sé traustur klettur í síbreytilegu samfélagi? Gæti það verið ástæða þess að þeim finnst mikilvægt að standa gegn breytingum sem þeir telja einungis vera tilkomnar vegna krafna frá samfélagi sem er á einhverri óskilgeindri leið, hugsanlega til glötunar? Hvað kemur þessi brandari hér að framan því við hvað kennarar eru að hugsa? Jú, það er nefnilega líka hægt að horfa á brandarann frá þeim sjónarhól að í honum sé verið að dást að því að skólinn standi óhagganlegur eins og klettur. Hann sé einhverskonar vin, ótruflaður af sviptivindum breytinga sem orðið hafa í veröldinni. Þar ríki festa og gömlum og góðum hefðum sé haldið á lofti. Ekki þykir mér ólíklegt að þannig hugsi einhverjir kennarar og líklega takast þessar ólíku túlkanir á brandaranum, oft á í breytinga- og þróunarstarfi sem unnið er að í menntakerfinu. Mér finnst líklegt að togstreitan á milli þeirra sem vilja þróun og hinna sem vilja vernda hefðina geri það að verkum að við ( kennarar/skólafólk) hjökkum oft í sama farinu, spólum okkur niður og sitjum svo bara pikkföst með drulluna í augunum. Drullan byrgir okkur síðan sýn, svo við komum ekki auga á lausnir sem gætu hugsanlega hjálpað okkur upp úr hjólförunum. Við skiljum ekki það sem drífur þá sem eru ósammála okkur áfram og vitum kannski ekki heldur hvað það er í grunnin sem við erum að takast á um. Hvar rætur ágreiningsins liggja.

Í kaflanum hjá Fullan er bent  á mikilvægi þess að byrja þróunar- og breytingastarf á þeim stað þar sem kennararnir eru staddir. Þeir sem vilja þróa og breyta skólum   verða skv. því að glöggva sig á viðhorfum, starfsháttum og væntingum þeirra sem eiga að sjá til þess að þróun eða breytingar verði. Af því dreg ég þá ályktun að mikilvægt sé að ætla fólki að taka lítil skref í einu og gefa því tíma til að móta þær hugmyndir sem vinna skal með svo það nái að þróa þær á sínum forsendum og gera þær þannig að sínum. Hugsanlega liggur lausnin á því að komast upp úr hjólförunum í því að strjúka drulluna úr eyrunum, hlusta, ræða saman og prófa að standa á sjónarhól þeirra sem eru ósammála manni og skoða útsýnið þaðan líka. Maður gæti komið auga á eitthvað nýtt. En samvinna er þó ekki nein töfralausn sem alltaf skilar árangri til framþróunar. Fullan bendir á að þó samstarf og samvinna kennara styrki þá oft á tíðum í starfi og efli fagmennsku þeirra þá geti samstarf og samvinna sem hefur það að markmiði, meðvitað eða ómeðvitað, að standa í vegi fyrir breytingum verið mjög öflugt afl sem erfitt er að beina í aðra átt. Þá vakna hjá mér ýmsar spurningar. Hvers er að ákveða að beina kennurum í aðra átt en þeir telja best að fara? Hver er þess umkominn að ákveða í hvaða átt kennurum er hollast að stefna? Er hægt að vinna saman að því að móta stefnuna og leiðina að henni? Er það kannski bara rómantísk útópía? Ekki nógu skilvirk leið og mun fljótvirkara að fáir útvaldir móti stefnuna sem fjöldinn vinnur svo eftir? Er hægt að treysta fólkinu á “gólfinu” til að taka gáfulegar ákvarðanir? Eða verða gáfumennin að hugsa fyrir það?

Akio Morita stofnandi og fyrrverandi forstjóri Sony telur að fyrirtæki/stofnun þar sem aðeins stjórnendum er ætlað að hugsa þróist ekki áfram. Allir verða að leggja sitt af mörkum að hans mati og það dugar ekki að þeir lægra settu vinni bara störf sín með höndunum einum saman. Hjá Sony var þess krafist að allir starfsmenn legðu vitsmuni sína líka í starfið (Florida: 53, 2002). Fyrir mér er það alveg augljóst að ef það er þörf fyrir hugsandi starfsmenn hjá Sony er ekki minni þörf fyrir þá í skólum. Skólar þurfa, ekki síður en stórfyrirtæki eins og Sony, að vera skapandi vinnustaður. Þar þurfa allir leggja sitt af mörkum sem hugsandi verur sem treyst er til ábyrgðar og sjálfstæðis. Það eykur hugsanlega að mínu mati líkur á því að kennarar þori að taka skrefið í átt að breytingum. Mér hættir til að líta þannig á að þeir sem ekki sjá þörf á því að skólinn breytist í takt við samfélagið séu dragbítar. Er ég þá með því að segja að minn skilningur á veröldinni sé hinn “rétti” skilningur? Skynsemi mín segir mér að það sé rangt, jafnvel heimskulegt að gera það. Enda veit ég að minn skilningur hefur orðið til vegna þeirra áhrifa sem ég hef orðið fyrir á lífsleiðinni. Mín lífsleið er einstök og skynjuð og túlkuð af sjálfri mér í samfélagi við aðra miðað við þá reynslu sem ég hef lifað. Þeir sem ætla að vinna með fólki að breytingum þurfa að mæta því þar sem það er statt og gera því kleift að hugsa málin útfrá sinni reynslu.

EK

Heimildir

Florida, Richard.(2002). The rise of the creative class- and how it´s transforming work, leisure, community, & everyday life. Basic books: New York.

Fullan, M. (2001).The new meaning of educational Change. Kafli 7. New York:Teachers college press.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s