Góðir leiðtogar eyða ekki tíma í að reyna að breyta fólki, þeir nota tímann til skapa aðstæður sem gera það að verkum að fólk langar til að breytast. Breytingar eiga sér stað þar sem tekst að skapa menningu þar sem allir vilja læra.
Í pistlinum er því haldið fram að í skólum þar sem nemendur eru þeir einu innan veggja skóla sem læra þá blasi við ákveðinn vandi. Að þróa starfshætti sem eru ólíkir þeim sem kennarar skólans þekktu þegar þeir voru nemendur kallar á að búin verði til öflug starfsþróunartækifæri fyrir kennarana. Þetta þurfa að vera námstækifæri sem hafa mun meiri áhrif en það að lesa um og ræða nýjustu hugmyndir í fræðaheiminum.
Forystumenn í skólum þurfa að þekkja hvað það er sem kennaranir vilja læra og einnig vita á hverju þeir þurfa að halda og ná að vekja forvitni kennaranna á því. Það þarf stöðugt að halda kennurunum utan þægindarammans með því að spyrja þá réttu spurninganna og hlusta á svör þeirra. Hvernig, hvers vegna og hvað eru spurningar sem víkka hugann og draga úr hættunni á að kennarar festist í viðjum vanans. Faglegir leiðtogar í skólum þurfa að tryggja að kennarar hafi tíma til að læra nýja hluti og skapa þeim lærdómstækifæri í vinnunni. Kennarar þurfa tækifæri til að æfa það sem þeir læra. Kennarar læra best með því að hugsa, rannsaka, prófa að gera og ígrunda í samvinnu við aðra kennara, að rýna í vinnu nemenda og með því að deila því sem þeir uppgötva.
Students take risks when teachers take risks. Teachers take risks when school leaders take risks.” – Brad Currie
Leiðtogar í skólum þurfa að vera góð fyrirmynd kennaranna og þora að taka áhættu. Þeir þurfa að hafa hugrekki og sýna þannig kennurunum sínum að þeim sé alvara með þeirri trú sinni að mikilvægt sé að þenja mörkin og ýta undir nýsköpun og vinna stöðugt að umbótum. Þegar tekst að skapa þannig andrúmsloft er mögulegt að til verði menning í skólum sem ýtir undir að kennararnir festist ekki í viðjum vanans heldur fari sjálfir að víkka þann ramma sem þeir vinna innan.
Höfundur pistilsins segir að það að vera viðstaddur þegar kennari er að taka sín fyrstu skref í átt að breytingum sé frábær leið til að styðja og aðstoða kennara. Að tryggja að vel takist til í fyrstu tilraun ýtir undir að að kennarar þori að taka fleiri áhættur. Mistök verða en mikilvægt er að líta á þau sem mikilvæg lærdómstækifæri.
Ef markmið leiðtoga í skóla er að skapa andrúmsloft þar sem kennarar kenna með ólíkum hætti frá ári til árs er mikilvægt að hrósa markvisst. Ekki er nóg að segja „vel gert“ eða viðlíka heldur þarf að tiltaka hvað það er sem hrósað er fyrir og tryggja að hrósið gleymist ekki strax. Dæmi : „ Það vakti athygli mín hversu vel þér tókst að gefa endurgjöf og vera með leiðsagnarmat um leið“ . Hrós sem þetta lifir með kennaranum og hann getur nýtt sér það til áframhaldandi þróunar. Mikilvægast er að hrósið sé einlægt og sett fram á réttum tíma.
Áhrifamiklum leiðtogum tekst að hrífa fólk með sér og ýta undir að fólk vilji gera sitt besta. Frekar en að stefna á breytingar, hugsa góðir leiðtogar meira um umbætur, vöxt, ígrundun, sameiginlegt eignarhald og að miðla sín á milli. Það leiðir til þess að nýjar hugmyndir eru framkvæmdar og áskorunum um umbætur eru tekið fagnandi og það tekst að framkvæma þær um leið og allir hlutaðeigandi vaxa sem fagmenn.
Hafa mætti þessar hugleiðingar í huga um leið og við veltum fyrir okkur spurningunni hvers vegna við kennum eins og við kennum. Mögulega er ein ástæða þess vaninn og ef enginn ögrar okkur til að stíga út fyrir þægindarammann þá höldum við áfram að kenna eins og við höfum alltaf gert.
EK
Einmitt grein sem mig vantaði að lesa í dag 🙂 Takk fyrir áhugaverða pistla og gleðilega páska
kv. Ásta Björnsdóttir, leikskólanum Björtuhlíð
gott að heyra og gleðilega páska sömuleiðis
Bakvísun: Sveiflan frá einstaklingshyggjunni | Krítin·