Hvers vegna kennum við eins og við kennum?

hugmnemumnamNýlega kom út bókin STARFSHÆTTIR Í GRUNNSKÓLUM VIÐ UPPHAF 21. ALDAR í  ritstjórn Gerðar G. Óskarsdóttur. Bókin fjallar um yfirgripsmikla rannsókn á starfsháttum í grunnskólum og var samstarfsverkefni fjölda aðila á Menntavísindasviði Háskóla Íslands á árunum 2008 – 2013.  Eins og fram kemur á bls. 13 í bókinni var markmið rannsóknarinnar að gefa yfirsýn yfir núverandi starfshætti í íslenskum grunnskólum með áherslu á þróun í átt til náms við hæfi hvers og eins – eða einstaklingsmiðaðs náms.

Meðal þess sem rannsakað var eru kennsluhættir og kennsluaðferðir í skólum. Höfundar þess kafla eru Ingvar Sigurgeirsson, Amalía Björnsdóttir, Gunnhildur Óskarsdóttir og Kristín Jónsdóttir.

Sem dæmi um ólíka kennsluhætti má nefna samvinnunám (e. Co-oparatvee learning) þar sem nám er í meginatriðum skipulagt sem samstarfsverkefni nemenda og  hlítarnám (e. Mastery learning) þar sem nám er skipulagt í skilgreindum áföngum . […] Kennsluháttum má einnig skipta eftir því hvort aðallega er byggt á bekkjarkennslu eða teymiskennslu. Með bekkjarkennslu er einkum vísað til kennsluhátta þar sem kennarar vinna mest einir, hver með sinn bekki eða námshóp, eða við kennslu tiltekinna greina. Teymiskennsla vísar til þess þegar tveir eða fleiri kennarar eru samábyrgir fyrir árangri eða aldursblönduðum hópi, undirbúa sig saman og kenna að einhverju marki saman (bls. 113).

Eins og segir í kaflanum hafa kennsluaðferðir verið flokkaðar með ýmsu móti. Sem dæmi um flokka má nefna beinar og óbeinar aðferðir. Í beinni kennslu er kennarinn í aðalhlutverki en óbein kennsla byggir aftur á móti á aðferðum þar sem nemendur eru í virkara hlutverki. [..] Hliðstæð flokkun á kennsluaðferðum eru kennaramiðaðar og nemendamiðaðar aðferðir (bls. 113).

Kaflinn er afar áhugaverður en of viðamikill til að hægt sé að gera tæmandi grein fyrir  innihaldi hans í þessum pistli, en því meiri ástæða til að hvetja kennara til að kynna sér hann því það ætti að vera hverjum kennara mikilvægt að skilja af hverju hann kennir eins og hann gerir og geta rökstutt það  þ.á.m. fyrir samstarfsfólki og foreldrum.

Meðal helstu niðurstaðna er að algengustu kennsluaðferðirnar voru bein kennsla með eða án samræðna við nemendur og kennsla þar sem stuðst er við vinnubækur. Auk þess er mun meiri áhersla á kennarastýrt nám en það sem nefnt er nemendamiðað nám.  Niðurstöður í heild sinni benda ekki til þess að langt hafi miðað í átt að einstaklingsmiðuðu námi (bls.153). Þó margir kennarar sýni áhuga á að þróa aðferðir í þá átt (bls.155).  Rannsakendur benda á að umtalsverður munur sé á kennsluháttum eftir aldursstigum og skólum þar sem kennarar yngstu nemendanna og kennarar í teymiskennsluskólum beita oftar hópvinnu, tilraunum, verklegum æfingum, leikrænni tjáningu, útikennslu, þemavinnu og sjálfstæðum verkefnum. Í þessum skólum var um meiri fjölbreytni að ræða og þar voru oftar notaðar kennsluaðferðir sem reyndu  á sjálfstæð vinnubrögð (bls. 150 – 151).

Það er fjölmargt sem vekur upp spurningar varðandi  þessar niðurstöður, ekki síst það hvers vegna vinnubækur og eyðufyllingarvinna virðast nú sem fyrr skipa jafn stóran sess og raunin er, en eins og fram kom hér á undan virðist notkun vinnubóka vera ein algengasta kennsluaðferðin í íslenskum grunnskólum. Sú spurning knýr á hvers vegna kennarar kjósa að nota þessa aðferð þar sem ekkert bendir til að nemendur læri meira með henni en öðum aðferðum. Vinnubókarvinna, jafnvel þótt nemendur fái að fara á mismunandi hraða í gegnum þær,  er heldur ekki samræmi við áherslur aðalnámskrár þar sem segir að nám í grunnskóla taki mið af þroska, persónugerð, hæfileikum, getu og áhugasviði hvers og eins (aðalnámskrá grunnskóla 2011, 7.1)

Líklega eru fáir kennarar sem kjósa stöðnun þess vegna er svo mikilvægt að greina hverjar hindranirnar eru. Er hugsanlegt að kennarar telji sig ekki hafa næga þekkingu, tíma eða sjálfstrausti til að þróa kennsluaðferðir sínar, búa þeir e.t.v. við of mikla miðstýringu eða eru kröfur stjórnvalda jafnvel óraunhæfar?

Það er mikilvægt að leita svara við þessum og fleiri spurningum og finna viðeigandi úrræði. Rannsóknin um starfshætti í skólum bendir ótvírætt til þess að þar sem teymiskennsla er stunduð þar er þróun kennsluaðferða meiri en annarsstaðar (bls. 150-151). Það ætti að vera kennurum hvatning. Miðað við niðurstöður um að mikið ósamræmi sé milli stefnumörkunar stjórnvalda og þess sem gerist inni í skólunum (bls. 154),  er varla hægt að draga þá ályktun að það sé óhófleg miðstýring sem hamli starfsþróun kennara.

Á nýafstaðinni leiðtogaráðstefnu uLead um skólamál lögðu allir aðalfyrirlesararnir (Hargreaves, Sherly, Sahlberg, Braekspear og Ng)  ríka áherslu á teymisvinnu kennara og að þeim væri treyst fyrir leiðtogahlutverkinu.  Athyglin á að þeirra mati að beinist að nemandanum og námi hans. Þannig eru gæði kennslustundarinnar metin eftir því hversu mikið  nemandinn lærir fremur en því hvernig kennslan fer fram þ.e. nemendamiðað nám. Það er krefjandi verkefni að finna hvað það er sem veldur því að vinnubókin stýrir eins mikið og raunin er og hvernig hægt er að styðja við þróun kennsluhátta.

NKC

Heimild: Gerður G. Óskarsdóttir. (2014). Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

One response to “Hvers vegna kennum við eins og við kennum?

  1. Bakvísun: Hvernig geta leiðtogar hreyft við því sem gert er í skólum? | Krítin·

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s