Hlutverk umsjónarkennara eru mörg og misvel skilgreind. Verksviðið þeirra er fjölbreytt og ábyrgðin mikil, starfið er margþætt og kröfurnar miklar.
Kennarinn með bekkinn sinn er alls ekki eyland þó kennarar hafi töluvert sjálfræði. Margir gera kröfur til kennara og þeir þurfa að uppfylla sumar þeirra en aðrar þurfa þeir að vega og meta og ákveða hvort þeir koma til móts við þær eða ekki. Til að meta það hvenær er rétt að koma til móts við það sem farið er fram á eða ekki, þurfa kennara að styðjast við eigin fagvitund studda af innsæi þeirra og dómgreind.
Líkja má starfi umsjónarkennarans við það að þurfa að halda mörgum ólíkum boltum á lofti samtímis. Ef kennarinn fipast er mikið í húfi og því mikilvægt að hann geti sinnt starfi sínu af alúð og vandvirkni og hafi til þess þær bjargir sem nauðsynlegar eru.
Þrátt fyrir að utanaðkomandi bjargir séu mikilvægar er kennarinn sjálfur helsta atvinnutækið sem hann þarf að stóla á. Ef það er ekki í lagi duga engar aðrar bjargir. Í mörgum tilvikum reynir á persónuleika kennarans. Því er ekki óeðlilegt að velta fyrir sér hvað þurfi að einkenna persónu kennara? Geta fúllyndar gungur kennt, illgjarnir harðstjórar eða léttlyndir draumóramenn? Eða þurfa kennarar kannski einungis að þekkja vel það fag sem þeir kenna?
Að mínu mati er ekki nóg fyrir kennara að vera góðir í sinni námsgrein, þó vissulega sé það mikilvægt, ekki er heldur nóg að þeir geti haldið utan um stóra hópa af börnum þó visslega sé það líka mikilvægt, þeir þurfa einnig að geta haft samskipti við fullorðna einstaklinga, bæði foreldra sem gera til þeirra margskonar kröfur og sérfræðinga sem vinna með þeim að velferð og menntun nemenda.
Sjálfsþekking eflir kennara í því að takast á við þær kröfur sem gerðar eru til þeirra.Sjálfsmynd og sjálfsþekking kennarans skiptir gríðarlega miklu máli og hefur áhrif á hvernig hver kennari tekst á við starf sitt.Það hvaðan við sprettum og hvernig uppeldi við höfum hlotið getur haft áhrif á það hvaða hugmyndafræði við aðhyllumst, bæði varðandi nám og kennslu og einnig varðandi bekkjarstjórnun og samskipti.Kennarar þurfa því reglulega að líta í eigin barm og velta fyrir sér á hverju þeir byggja athafnir sínar og hvað ræður viðbrögðum þeirra, bæði meðvituðum og ómeðvituðum.
Það sama á við um skipulag kennslu það á ekki að vera háð tilviljunum heldur þarf kennari að geta lýst því fyrir sjálfum sér og öðrum hvað ræður þvi að hann vinnur með þeim hætti sem hann gerir. Meðvitund um eigin störf er nauðsynleg og kennarar verða að varast að vinna með ákveðnum hætti einungis vegna þess að þannig hafa hlutirnir alltaf verið framkvæmdir. Það er ávísun á stöðnun.
EK