Nemendur á fljótandi skólaskilum í Borgarnesi

skolaskilÞað er mín sýn á skólastarf að stjórnendur, kennarar og starfsfólk skóla eigi að leitast við í öllum sínum störfum að koma til móts við alla nemendur með tilliti til atgervis þeirra til líkama, sálar, félagslegrar stöðu eða tilfinningalegs ásigkomulags með það að markmiði að veita þeim góða, alhliða menntun. Leiðirnar að slíku markmiði eru fjölbreytilegir og sveigjanlegir kennsluhættir og að sveigjanleiki innan kerfisins sé nýttur þannig að allir fái notið sín á sínum forsendum. Ég hef verið hugsi um stöðu bráðgerra nemenda í eldri bekkjum grunnskólanna og hvernig grunnskólar hafa leitast við að koma til móts við námslega stöðu þeirra með því að bjóða þeim að vera á fljótandi skólaskilum.

Það að vera í grunnskólanámi og stunda jafnframt nám í framhaldsskóla án þess að vera útskrifaður formlega úr grunnskólanum, að vera á tveimur skólastigum og í tveimur skólum á sama tíma kýs ég að kalla fljótandi skólaskil. Þetta virðist vera séríslenskt fyrirbrigði sem er ekki byggt á erlendri fyrirmynd. Hugmyndir manna um og framkvæmd á fljótandi skólaskilum koma fram í lok síðustu aldar eða um svipað leyti og umræðan um einstaklingsmiðað nám ryður sér til rúms í íslenskri skólamálaumræðu. Fljótandi skólaskil er viðleitni til að koma til móts við ólíkar þarfir og ólíka færni einstaklinga.

Frá aldamótum hafa stjórnendur og kennarar við Grunnskólann í Borgarnesi verið að þróa leið til að koma betur til móts við bráðgera nemendur í elstu bekkjum skólans. Uppsprettan er þróunarverkefnið Fjölbreyttir og sveigjanlegir kennsluhættir. Hluti af því verkefni var að koma á valkerfi í eldri deild skólans, þar sem nemendur fengu m.a. tækifæri til að velja sér áfanga á framhaldsskólastigi, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í upphafi tóku nemendur einn eða tvo áfanga og þurftu ekki að vera búnir með grunnskólaefnið í viðkomandi grein, heldur unnu þeir framhaldsskólaáfangana samhliða. Reglugerðabreytingar höfðu áhrif á framkvæmd þessa námsframboðs og aðlögðum við okkur þeim og áfram héldum við. Á fyrstu sjö árunum voru 67 nemendur á fljótandi skólaskilum, eða tæplega 10 á ári. Haustið 2007 var stofnaður Menntaskóli í Borgarfirði og samhliða því var komið á samstarfi milli hans, grunnskólanna í Borgarbyggð og fræðsluyfirvalda. Var það samstarf formgert í þróunaverkefni sem fékk heitið Borgarfjarðabrúin. Með tilkomu MB var betur hægt að koma til móts við nemendur, þeir gátu sótt margar kennslustundir, boðleiðir á milli skólanna var styttri og auðveldara var að leysa og skýra þau mál sem upp komu. Á þeim sjö árum sem MB hefur starfað hafa 47 nemendur verið á fjótandi skólaskilum. Það sem gerst hefur er að færri nemendur hafa verð að fara þessa leið en þeir sem gera það taka fleiri áfanga og byrja fyrr. Við höfum dæmi um einn nemanda sem lauk stúdentspófi í ensku við lok níunda bekkjar og tvo nemendur sem höfðu lokið um 30 framhaldsskólaeiningum við lok tíunda bekkjar.

Þessi námsleið þróaðist í gegnum tíðana og við þurftum að bregðast við aðstæðum, s.s. kjarasamningum, tilskipunum ráðherra, breyttum lögum og reglugerðum. Fram að þessu höfum við í góðu samstarfi við hagsmun- og samstarfsaðila fundið leiðir til að leysa málin með hag nemenda að leiðarljósi. Ég er sannfærður um að þetta er leið sem hentar mörgum bráðgerum nemendum en því miður var tekið fyrir hana með bréfi frá Menntamálaráðuneytinu dagsettu 2. júlí 2009. Viðbrögð við þeirri ákvörðun ráðherra finnst mér svolítið lýsandi fyrir stöðu braðgera nemenda í skólakerfinu og bera vott um tómlæti. Engin mótmælti henni á opinberum vettvangi, ekki foreldrar, ekki skólafólk né nú- eða fyrrverandi nemendur.

Það er mín reynsla og að það sé töluverður sveigjanleiki innan grunnskólanna til að koma til móts við námslega stöðu nemenda á þeirra forsendum. Það fer reyndar eftir skólum og kennurum, en við upphaf grunnskólans og lok hans er sveigjanleikinn í raun lítill sem enginn. Nemendur hefja nám sitt í grunnskólanum almanaksárið sem þeir eru sex ára og eru svo í grunnskólanámi í tíu ár. Þarna finnst mér vanta meiri sveigjanleika, nemendur hefji ekki sjálfkrafa nám sitt í grunnskólanum almanaksárið sem þeir verði sex ára heldur hafi foreldrar, leikskólar og stoðkerfi leikskólanna töluvert um það að segja hvenær nemendum er það fyrir bestu að hefja grunnskólanám sitt. Það hefur lengi verið ákvæði í lögum að það megi útskrifa nemendur úr grunnskóla á styttri tíma en tíu árum. Í ráðherratíð Þorgerðar Katrínar var töluverð umræða um að stytta nám til stúdentsprófs, meðal annars var rætt um að stytta námstíma nemenda í grunnskólum. Það náðist ekki í gegn en grunnskólanemendur fengu rétt til að stunda nám í framhaldsskólum samhliða grunnskólanámi sínu. Þar var myndaður sveigjanleiki sem nýttist bráðgerum nemendum. Ég sakna þess að sveigjanleikinn hafi ekki verið aukinn enn meir og þeir nemendur sem það kjósa geti verið lengur í grunnskólanámi sínu. Í Grunnskólanum í Borgarnesi var gerð tilraun þar sem nemandi var ellefu ár í grunnskólanámi sínu og gafst það vel. Mér finnst að sveigjanleikinn eigi að vera í báðar áttir, til að stytta grunnskólanámið fyrir suma og lengja fyrir aðra. Upphaf og lok grunnskólanáms eigi að vera sveigjanleg. Slíkur sveigjanleiki kæmi ekki einungis bráðgerum nemendum til góða heldur öllum nemendum.

Ég skora á Júlíu Hrönn Guðmundsdóttir íslenskukennara við Laugalækjarskóla að  skrifa um sínar hugleiðingar.

Hilmar Már Arason, aðstoðarskólastjóri Grunnskólanum í Borgarnesi

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s