Í öllum bekkjum er einn nemandi erfiðastur og staðreyndin er sú að ef hann fer þá tekur annar við hlutverki hans. Þetta er nemandinn sem reynir mest á þolrif kennarans en jafnframt sá sem þarf mest á umhyggju hans að halda.
Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að nemandi hegðar sér illa í skólastofunni en í bókinni Strategies for Closing The Learning Gap er bent á að oft megi rekja slæma hegðun til þess að viðkomandi nemandi hafi lítið sjálfstraust í náminu og óttast að gera mistök. Í huga hans á hann enga möguleika og hann gerir sér fljótlega ljóst að besta leiðin til að tapa ekki í þessari keppni sé sú að taka ekki þátt.
Í bókinni má finna ýmis ráð til kennara um hvernig megi stuðla að góðri hegðun nemenda m.a. níu lykla að jákvæðri agastjórnun:
- Gerðu ráð fyrir að nemendur hegði sér vel
- Vertu með markvissa kennslu um réttindi og ábyrgð, reglur og vinnuvenjur
- Gerðu greinarmun á hegðun barnsins og barninu sjálfu
- Talaðu þannig að það komi fram að við höfum val
- Legðu áherslu á það sem liggur að baki því sem sagt er frekar en á orðin sjálf
- Byggðu skipulega upp traust og góðar samræður
- Sýndu nemendum þá hegðun sem þú vilt sjá
- Fylgdu alltaf vel eftir því sem skiptir máli
- Leggðu áherslu á forvarnir frekar en inngrip
Einnig er lögð áhersla á það hvernig tungumál og orðaforði kennarans getur haft mikil áhrif í þá átt að hvetja nemendur og byggja upp sjálfstraust þeirra.
Talaðu um árangur
Notaðu þau tækifæri sem gefast til að segja nemendum að þú hafir trú á þeim. Hvatningar eins og; „ég veit þú getur þetta“ og „þegar þú ert búin(n) að gera þetta“ gefa nemandanum til kynna að þú hafir jákvæðar væntingar til hans og treystir því að hann leggi sig fram og nái árangri.
Talaðu um væntingar
Bannaðu nemendum að nota setninguna „ég get þetta ekki“ skiptið henni út fyrir: „ég get þetta en ég þarf smá hjálp“. Setjið setninguna upp á vegg og vísið til hennar þegar það á við.
Talaðu um möguleika
Stundum festast nemendur í ákveðnu fari. Þetta gerist þegar þeir hafa komið sér upp hugmyndum um sjálfa sig sem setja þeim mörk um eigin getu og hindra þá í að breytast og þróast. Þetta dregur líka úr hvatanum til að prófa nýjar leiðir, takast á við ögranir og taka áhættu. Til að nemendur komist upp úr þessu fari er mikilvægt að kennarinn noti rétt hugtök þegar hann ræðir við nemandann. Þessir nemendur hafa tilhneigingu til að nota stórar fullyrðingar eins og alltaf, aldrei, allir og enginn sem gefa til kynna að staðan sé endanleg og óumbreytanleg. Kennarinn þarf þá að umorða fullyrðinguna með orðunum stundum, sumir o.s.frv. til að draga úr vægi fullyrðingarinnar og minna á að það séu undantekningar og að vandamálin séu til að takast á við þau.
Og hér eru að lokum nokkarar mikilvægar spurningar til kennara:
- Hvort leggur þú meiri áherslu á það sem nemendur gera vel eða það sem þeir gera illa?
- Hvernig lætur þú nemendur vita að þér sé annt um þá, án þess að segja það berum orðum?
- Myndu allir nemendur þínir svara því játandi að þú bærir umhyggju fyrir þeim og að þú hefðir trú á þeim?
- Hvað gerir þú meðvitað á hverjum degi til að vekja löngun hjá nemendum þínum um að koma aftur í skólann á morgun?
Þegar við teljum einhvern nemanda vera erfiðan getum við ekki komist hjá því að líta í eiginn barm og spyrja þeirrar samviskuspurningar hvað geri það að verkum að okkur finnist hann erfiður og hverju við getum breytt í samskiptum okkar við hann. Meðan viðhorf okkar og framkoma gagnvart nemandanum haldast óbreytt, þá er ólíklegt að hegðun hans breytist.
NKC
Byggt á
Hughes, M. og Vass, A. (2013) (frumútgáfa 2001). Strategies for Closing the Learnig Gap. London: Bloomsbury.
Frábært.
…hengi þetta upp á kennarastofunni hjá mér… mjög gott…