Hvers vegna gagnrýnum við breytingar á skólastarfi?

skolastofanÞegar gerðar eru umfangsmiklar breytingar á starfi grunnskólans, eins og nú þegar verið er að innleiða nýja aðalnámskrá og stefnu um skóla án aðgreiningar, hefur það mikil áhrif á starf kennara og ekki er sjálfgefið að allir séu sáttir. Þeir sem telja skólastarfið vera í góðum farvegi sjá e.t.v. ekki þörfina fyrir breytingar, aðrir tortryggja boð sem koma að ofan og finnst jafnvel að með þeim sé gert lítið úr starfi þeirra. Þessar tilfinningar þarf að taka alvarlega.

Í opnu bréfi frá kennara í Reykjavík til borgarstjóra og menntamálaráðherra, sem birtist í Fréttablaðinu nýlega, er lýst áhyggjum  af því hvert verið sé að stefna með grunnskólana í borginni. Kennarinn telur þær aðstæður sem kennarar og nemendur búi við í skóla án aðgreiningar geri þeim ógerlegt að vinna í samræmi við uppsett markmið, þar tapi allir; kennarar, nemendur með sérþarfir en ekki síst  „normal“ nemendur því þegar nemendur með sérþarfir séu í sama bekk og „normal“ nemendur sé gengið á rétt þeirra síðarnefndu um að fá kennslu við hæfi. Á heimasíðu Fréttablaðsins má sjá að nokkur fjöldi hefur sett „like“ við greinina, vafalaust eru einhverjir þeirra kennarar með sömu reynslu og upplifanir og höfundur bréfsins. Spurningin er hvort þetta ástand sé óhjákvæmilegt.

Það er víðar en í Reykjavík sem stefnan hefur verið sett á skóla án aðgreiningar enda byggir hugmyndafræðin m.a. á kröfum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO um breytt viðmið fyrir fatlaða.  Á grunni þeirra er stefnt að breytingum í skólaumhverfi fatlaðra nemenda svo þeir geti þroskast í samfélagi við aðra. Ábyrgðin er talin liggja hjá skólanum og sérfræðingum hans ((Armstrong og Spandagou (2010); Thomas og Loxley (2001) í Skóli án aðgreiningar og sérstakur stuðningur við nemendur með fatlanir, 2012))

Lög og námsskrár í vestrænum ríkjum byggja almennt á kröfum WHO og alþjóðlegum sáttmálum sem hefur m.a. í för með sér að á næstu þremur árum munu 10.000 nemendur í Danmörku  flytjast úr sérskólum og sérdeildum yfir í almenna grunnskólann. Eins og við er að búast eru skoðanir danskra kennara skiptar og í könnun sem þarlend kennarasamtök létu gera kemur fram að þrír af hverjum fjórum kennurum álítur sig ekki hafa nægilega þekkingu og færni til að takast á við þessar breytingar. Camilla Brørup Dyssegaard frá Dansk Clearinghouse segir að mikil hætta sé á alvarlegum mistökum ef kennararnir séu ekki nægilega undirbúnir og að það sem skeri úr um hvort skóli án aðgreiningar nái tilgangi sínum sé fagmennska þeirra. Ef kennarinn búi ekki yfir nauðsynlegri þekkingu verði nemendur með sérþarfir útilokaðir í  bekkjum sínum og  finnist þeir jafnvel vera brennimerktir.

Susan Tetler prófessor í sérkennslufræðum í Árósarháskóla  tekur undir orð  Dyssegaard en Tetler er einn af virtust sérfræðingum Danmerkur í skóla án aðgreiningar og vinnur að því fyrir hönd danska ríkisins að greina hvaða þekkingu kennarar þurfi að tileinka sér til að takast á við breytta samsetningu bekkja. Ef við ætlum að taka þetta alvarlega, segir Tetler, verðum við að hjálpa kennurum til að skipta um föt og hefja endurmenntun þeirra úti í skólunum. Verði það ekki gert óttast hún að margir nemendur muni falla milli þils og veggjar. Nánar hér

Af umfjöllun Dana má draga þá ályktun að vandinn felist ekki í nemendum með sérþarfir eða samveru þeirra við „normal“ nemendur heldur miklu fremur í  því að sérfræðingar skólanna þ.e. kennararnir hafi skiljanlega ekki alltaf nægilega þekkingu til að starfa í nýju og breyttu starfsumhverfi og við því þurfi að bregðast.

Líkt og hjá  öðrum starfsstéttum eru breytingar í starfi kennara óhjákvæmilegar, stóra spurningin er hvernig við tökumst á við þær. Þegar skólakerfið í Ontario var tekið til gagngerrar endurskoðunar fyrir nokkrum árum síðan sögðu  forsvarsmenn skólamála að það skipti ekki máli hversu miklir peningar yrðu settir í skólakerfið eða hversu einlæglega þeir óskuðu sér breytinganna þær myndu ekki ná fram að ganga nema því aðeins að það tækist að virkja kennaranna í baráttunni fyrir betri menntun. Það tókst og nú eru grunnskólarnir í Ontario með þeim bestu í heimi. Sjá nánar hér

Kennarar eru sérfræðingar í málefnum skólans og samfélagið treystir því að þeir séu gagnrýnir á breytingar í menntamálum. Sú gagnrýni þarf umfram allt að vera faglega ígrunduð og byggja á heildrænni sýn á það hvernig samfélag við viljum byggja en auðvitað eiga kennarar einnig að verja kjör sín.

Breytingar eins og þær sem íslenskt skólakerfi stendur frammi fyrir eru væntanlega ekki settar fram breytinganna vegna heldur til að þjóna ákveðnum markmiðum samfélagsins. Þeim markmiðum verður best náð með sameiginlegum skilningi stjórnsýslunnar, kennara, foreldra, stjórnenda kennaranáms og  kennarasamtaka. Vestur í Ontario gerðu menn sér grein fyrir mikilvægi þessarar samvinnu og ekki síst fyrir þátttöku kennara í breytingum skólans. Danir eru einnig að vakna til meðvitundar um að miklar breytingar í skólanum krefjist mikils undirbúnings. Ættum við ekki að reyna að læra af þeim og öðrum sem eru á sömu leið?

NKC

4 athugasemdir við “Hvers vegna gagnrýnum við breytingar á skólastarfi?

  1. Kærar þakkir fyrir þetta yfirvegaða innlegg um breytingar á skólastarfi. Það minnir mig á nýja niðustöðu frá Dansk Clearinghouse for Uddannelsesforskning við Árósaháskóla um þróun í átt til skóla án aðgreiningar. Ein meginniðurstaðan er að kennarar þurfi að tileinka sér þekkingu og færni til að líða vel með slíkar breytingar (sjá
    http://edu.au.dk/aktuelt/nyhed/artikel/vellykket-inklusion-forudsaetter-specialviden-hos-laererne-1/). Engin grunnmenntun býr kennara fyrir allar breyingar í skólum þeirra og því er eðilegt að um slíkt sé fjallað í endurmenntun. Endurmenntun í skólunum vegna breytingastarfs hefur gengið misjafnlega hér á landi undanfarna áratugi en það hefur gefið góða raun að veita kennurum langvarandi stuðning í starfi í bland við námskeið/smiðjur (sbr. starfsþróunarþátt Byrjendalæsis hjá Miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyri). Það sem virðist skipta meginmáli er jafningjastuðningur og leiðbeining í starfi frá þeim sem þekkja starfsskilyrði kennarans vel á meðan hann þarf á því að halda. Þetta er það sem Jerome Bruner og fleiri hafa kallað scaffolding (A scaffold is a temporary framework that is put up for support and access to meaning and taken away as needed when the child secures control of success with a task) og á jafnt við börn sem fullorðna þar sem hinn reyndari aðstoðar þann reynsluminni með því að sýna fyrst, aðstoða svo og draga sig svo smám saman í hlé . Það hefur verið notað í námi fullorðinna um aldir og kallað meistarakerfið.

  2. Frábær síða hjá ykkur og þið eigið mikið hrós skilið fyrir þetta framtak.
    Mín upplifun og þessari grein aðeins ótengt: Það hefur ekki tíðkast, a.m.k. á undanförnum árum, að kennarar hafi mikið um stefnumörk að segja. Fyrirmælin hafa komið að ofan og skilaboðin, sérstaklega á allra síðustu árum, á þá leið að ef þið framfylgið þessu ekki, fáið ykkur aðra vinnu. Kennarar hafa því lítið nöldrað, framfylgt fyrirmælum eða ekki.
    Mín upplifun: Íslenskir kennarar tala lítið saman og hafa litla stéttarvitund. Ef við tölum saman þá er það gjarnan um verkefni, hvað hentar hvaða aldri o.s.frv. Við tölum um lág laun en gerum lítið í þeim málum.Við tölum lítið um grundvallarmál kennslu eins og kennslu án aðgreiningar eða skipulagsmál starfsins eins og frímínútnagæslu og gangavörslu. Við þorum almennt ekki að láta í okkur heyra opinberlega um þessi mál og við erum sérfræðingarnar. Ef við tölum ekki um þau, hverjir eiga þá að gera það? Hluti af vandamálinu er, að ég held, ótti við samstarfsfólkið. Ef ég stafsett vitlaust þá munu margir kennarar fussa og sveia yfir einu rangt stafsettu orði eða undarlega uppsettri setningu. Við gleymum okkur í formsatriðum, marigr okkar.
    Annar höfundur þessarar síðu, Edda Kjartnasdóttir, talaði um innrás sérfræðinganna fyrir mörgum árum inn í kennarastéttina. Ég er mjög sammála henni og vil gjarnan að við kennarar endurheimtum okkar stolt og sérfræðikunnáttu. Við erum sérfræðingarnir í kennslu og ef gera á breytingar á kennsluháttum þá á það að gerast í samráði við okkur. Ef skólastjórar, sérfræðingar og launagreiðendur vilja ekki hlusta á okkur, hvað eigum við þá að gera?
    P.S. Fyrirgefið munnræpuna en ég gat ekki hætt. Það sem byrjaði sem stutt þakkarræða endaði sem stutt ritgerð. Sorrí. Þið hendið þessu bara enda er ég aðallega að skrifa fyrir mig. Ég á ekki von á að nokkur kjaftur lesi þetta hvað þá að nokkur vilji tala um þetta opinberlega.
    Enn og aftur, takk fyrir frábæra síðu.

  3. kennarar endurheimta sína sérfræðiþekkingu líklega ekki nema með því að líta á það sem hluta af sinni starfsþróun að setja sig inn í þann hugmyndafræðilega veruleika sem störf þeirra byggja á. Stefnumótun í hverju landi tekur oftast mið af þeim hugmyndum sem teljast koma samfélaginu best á hverjum tíma. Það hlýtur að vera mikilvægt að kennarar geti tekið þátt í umræðu um það og skilji hvað liggur að baki breytingunum. Það er hins vegar ekki hægt að ætlast til þess að hver og einn kennari geri þetta upp á sitt einsdæmi, það þarf einhvers konar stuðnings- náms- eða ráðgjafarferli að vera aðgengilegt fyrir kennara sem byggir á því að kennarar séu virkir þátttakendur í því að greina og skilja hverju þeir þurfa að breyta til að geta unnið eftir tiltekinni stefnu. Kennara þurfa eins og aðrar starfsstéttir að fylgja þeim lögum og reglugerðum sem gilda á hverjum tíma um starf þeirra og stjórnvöld þurfa að mínu mati að skapa það svigrúm sem þarf til þess að þeir geti það. Það þarf að horfast í augu við það grunnmenntun kennara dugar þeim ekki út starfsævina og þeir þurfa tækifæri til starfsþróunar jafnt og þétt á starfsævinni. Sú starfsþróun verður að vera með þeim hætti að hún efli kennarana, bæði hæfni þeirra og skilning. Það er einföldun að halda að góður pakki með hagnýtum aðferðum um viðbrögð skili einhverju nema til skammst tíma. Þannig pakki sem sem verður til í gegnum samtal og greiningu kennarahópa gæti hins vegar skilað töluverðu. Að mínu mati er það fagvitund kennara sem þarf að efla annars breytist stéttin á leiksoppa sem ekki tekur ábyrgð en telur að aðrir eigi að laga það sem miður fer. Fagvitund eflist ekki ef við ræðum aldrei um annað en skipulag og aldrei um hugmyndafræði.

  4. Bakvísun: Breytingar á skólastarfi – framhald | Krítin·

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s