Breytingar á skólastarfi – framhald

bokastafliÍ pistli sem ég skrifaði í síðustu viku velti ég því fyrir mér hvað hindri breytingar á skólastarfi og vísaði í því sambandi  til stefnunnar um skóla án aðgreiningar og nýrrar aðalnámskrár. Mér tókst ekki að svara spurningunni nema að takmörkuðu leyti og held því áfram vangaveltum mínum.

Í millitíðinni sótti ég fjölmenna ráðstefnu sem Menntamálaráðuneytið stóð fyrir um skóla án aðgreiningar þar sem voru flutt mörg fróðleg erindi. Þar kom m.a. fram að hindranir við að innleiða skóla án aðgreiningar einskorðast alls ekki við Ísland. Í 40 ár hefur verið unnið að innleiðingu hennar í Bandaríkjunum en skemur í Sviss, Portúgal og miklu víðar. Eins og kunnugt er var stefnan staðfest hér á landi með lögum um grunnskóla 2008. Fullyrt var að ekkert ríki hafi að fullu náð markmiðum um skóla margbreytileikans/skóla án aðgreiningar  þar sem þörfum allra nemenda er mætt líkt og stefnan gerir ráð fyrir. Í öllum ríkjum er enn einhver hluti nemenda í sérdeildum eða sérskólum.

Eftir að hafa hlustað á erindin á ráðstefnunni efast ég um að það sé til eitt svar við spurningu minni um hvað hindri breytingar í skólastarfi og reyndar tel ég líklegt að um fleiri en eina skýringu sé að ræða.  Í vangaveltum mínum hafa þessar komið upp í hugann, en sjálfsagt eru þær mun fleiri.

Menntun og þekking kennara.

Ég hef þegar vakið athygli á því að í Danmörku, Ontario og víðar er menntun kennara, þar með talin símenntun, talin forsenda þess að skóli án aðgreiningar geti orðið að veruleika. Það blasir við að í skóla margbreytileikans þarf að beita allt öðrum kennsluaðferðum  því gömlu aðferðirnar duga almennt ekki. Telji kennara sig skorta viðeigandi þekkingu og færni er varla við öðru að búast en þeir standi gegn breytingunum.

Viðhorf.

Á ráðstefnunni bentu margir á að viðhorf kennara, foreldra og reyndar samfélagsins alls væri forsenda framgangs stefnunnar. Grunnskólinn á að vera hreyfiafl og því hlýtur grundvallar spurningin að vera sú hvernig samfélag við viljum skapa. Á samfélagið að leitast við að laga sig að þörfum allra eða eiga þeir sem ekki geta lagað sig að öllum þörfum samfélagsins að vera sér. Á að líta á  margbreytileikann sem hindrun eða tækifæri? Svo eru þeir vissulega til sem telja að stöðugleiki í skólastarfi sé mikilvægur og því séu breytingar í skólanum almennt varasamar.

Stuðningur og ráðgjöf.

Jafnvel kennarar sem kjósa að starfa í skóla margbreytileikans gætu þarfnast stuðnings og ráðgjafar.  Á ráðstefnunni kom fram að sumstaðar í Bandaríkjunum er m.a. reynt að mæta kröfunni um skóla án aðgreiningar með aukinni menntun stuðningsfulltrúa og með því að fækka um einn nemanda í bekkjum þar sem er nemandi með sérþarfir. Því er ósvarað hvað teljist vera sérþarfir. Það kom heldur ekki fram hver fjöldi nemenda er að jafnaði í þessum bekkjum. Í þessu sambandi verður mér hugsað til dvalarheimila aldraðra en mér er kunnugt um að sumstaðar a.m.k. er fjöldinn á deildum  ákveðinn með tilliti til þess hversu mikillar þjónustu sjúklingarnir þarfnast.  Loks er mikilvægt að svara því í hverju stuðningur og ráðgjöf við kennanna á að felast.

Ekki er hlustað á kennarana.  

Meðal þess sem gæti hindrað framgang breytinga eins og stefnunnar um skóla án aðgreiningar er að kennarar upplifa að boðin komi að ofan og án samráðs við þá. Þeir gera sér jafnvel ekki grein fyrir tilgangi breytinganna. Margir hafa bent á að áhrifaríkasta leiðin í þróun skólastarf sé jafningjafræðslan. Þannig ættu kennarar, sem náð hafa góðum tökum á nýjum kennsluháttum,  að leiðbeina þeim sem komnir eru styttra á veg. Einnig ætti í auknum mæli að stuðla að faglegri samræðu kennara.

Kjarabarátta.

Af skrifum félaga minna í fjölmiðlum  að dæma  er augljóst að tregðan við innleiðingu stefnunnar um skóla án aðgreiningar tengist að einhverju leyti kjarabaráttu kennara hér á landi. Því er haldið fram að hún krefjist aukinnar vinnu af kennurum og fyrir meiri vinnu vilja menn almennt hærri laun svo einfalt er það.

Fjárskortur.

Skólinn fór ekki varhluta af fjármálahruninu. Fjármagn til grunnskólans er mun minna en það hefði ella orðið. Slíkt hefur óhjákvæmilega áhrif á starf kennara.  Er í rauninni við öðru að búast en einhverjir spyrni við fótum og hleypi brúnum þegar þeim finnst gerðar til þeirra kröfur um breytingar og aukinn árangur, þrátt fyrir ástandið?  Hvort meira fjármagn hefði hinsvegar stuðlað að jákvæðari viðhorfum til stefnunnar um skóla án aðgreiningar er ekki á mínu valdi að svara. Svo er það auðvitað lykilspurning  hvernig því fjármagni hefði verið best varið í þágu skólaþróunar?

NKC

 

2 athugasemdir við “Breytingar á skólastarfi – framhald

  1. Það var talað um að í USA væri hver nemandi með sérþarfir talinn sem tveir en ekki var skilgreint hvaða sérþarfir eða hver meðalstærð bekkja væri.

  2. Takk fyrir þessa góðu umfjöllun. Ég hef líka velt fyrir mér ástæðum fyrir andstöðu kennara við stefnunni um skóla án aðgreiningar sem kemur fram í þeim löndum sem hana hafa innleitt. Ég er sammála því að ástæðurnar eru margvíslegar enda aðstæður og afstaða fólks ólík sem eðlilegt er. Raunar hefði ég mun meiri áhyggjur af ástandinu ef allir hefðu gleypt þessa opinberu stefnu athugasemdalaust. Vitaskuld eru deildar meiningar og eiga að vera það. En mestu máli skiptir að fólk reyni að átta sig á því af fullum heiðarleika hvaða rök það byggir skoðun sína á. Á umræddri ráðstefnu talaði fulltrúi Sviss í hópi Evrópumiðstöðvar um þróun í sérkennslu (heitir hún Kaufmann?). Hún sagðist hafa talað við marga kennara í sínu landi sem sögðu henni að stefnan gæti ekki gengið upp án þess að meira fé væri sett í skólastarfið. En þegar hún talaði meira við þá komst hún að því að þeir vissu raunar ekki hvernig þeir ættu að kenna við þessar aðstæður og það væri meginástæðan fyrir anstöðunni. Ég væri ekki hissa þótt þetta ætti jafnvel við hér á landi enda hafa ámóta svör kennara komið fram í nokkrum rannsóknum. Svo virðist sem menntayfirvöld, ráðgjafarþjónustur og kennaramenntunarstofnanir hafi brugðist kennurum illilega að því er varðar undirbúning og stuðning.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s