Vandamál grunnskólans er agaleysi fullyrti þriggja barna faðir á fundi sem ég var á í vetur. Hann taldi að síðustu 10-15 árin hefði orðið mikil afturför í agamálum í skólum sem kæmi niður á öllu starfi hans. Ef skólinn gæti tekið á þeim málum myndu flest önnur vandamál skólans leysast sjálfkrafa, fullyrti faðirinn. Hann sagðist sakna þess að sjá nemendur standa í röðum fyrir utan skólastofurnar og fyrir aftan stólana sína og rétta upp hönd áður en þeir tala.
Þessi fullyrðing rifjaðist upp þegar ég nokkru síðar heyrði reyndan grunnskólakennara taka í sama streng. Að mati kennarans var komið allt of mikið los á daglegt starf skólans og stöðug viðleitni til að reyna að koma til móts við nemendur með allskyn uppbrotum gerðu ekki annað en ýta undir agaleysið sem væri orðið allt of mikið og leiddi til þess eins að erfitt væri að gera nokkrar kröfur til nemenda.
Af orðum þessara einstaklinga má ráða að skólinn eigi að leggja aukna áherslu á að kenna nemendum að hlýða og fara eftir reglum sem þeim eru settar, að starf skólans verði betur innrammað og byggt á meiri reglufestu. Eða hvað?
Á síðasta ári var ég á námskeiði í Frakklandi, sem sótt var af skólafólki víða úr Evrópu, meðal annars tók ég þátt í vinnuhópi sem ræddi hvernig best væri að innleiða ákveðna starfshætti í skólum. Þegar ég tjáði þá skoðun mína að mikilvægast væri að kennararnir hefðu trú á viðkomandi starfsháttum, horfði ein í hópnum undrandi á mig og spurði hvort kennararnir gerðu ekki bara það sem þeim væri sagt að gera, það gerðu þeir í heimalandi hennar. Þetta var stjórnandi í skóla í Austur-Evrópu þar sem fólki er kennt frá barnæsku að hlýða yfirboðurum sínum. Ég er sannfærð um að ekki aðeins nemendur hennar heldur líka kennarar geta staðið í fínum og beinum röðum.
Þegar við tölum um aga erum við væntanlega ekki síður að vísa til sjálfsaga, virðingar, tillitssemi og ábyrgðar sem er að mínu mati mun dýrmætara að einstaklingar tileinki sér en margt annað. En nemendur læra hvorki sjálfsaga, virðingu, tillitssemi né ábyrgð af því að þeim sé sagt að gera það heldur með því að æfa sig skipulega m.a. með verkefnum og samræðu og ekki síst með því að horfa til fyrirmynda sinna, sem eru ekki aðeins í skólunum, heldur líka heima, úti í umferðinni, í verslunum, á fundum, í sjónvarpinu og víðar. Fullorðið fólk er allt svo agað ekki satt?
Ég hitti líka oft kennara sem segja að agavandi heyri til undantekninga. Að hluta til skýrast ólík viðhorf fólks til aga í skólum af mismunandi skilningi og væntingum. Umræðan um agamál virðist vera dæmigert vandamál síðnútíma (postmodernity) en meðal einkenna hans er að hin gömlu gildi leysast upp og eru því ekki lengur skilin meira og minna eins af meirihluta fólks (Hargreaves, 2000) sjá einnig . Hugakið agi hefur þar með ekki sömu merkingu í hugum allra. Í ljósi þessa er svo mikilvægt að þeir sem starfa með sama hópi barna, starfsmenn og foreldrar, ræði saman m.a. til að tileinka sér sama skilning á hugtökum sem þeir nota í umræðunni um skólann t.d. góð kennsla, mikilvægt nám og góður agi. Fyrst eftir að kominn er í megin dráttum sameiginlegur skilningur á því hvað sé góður agi í skólum og hvers vegna hann sé mikilvægur er hægt að leggja mat á gæði hans og mikilvægi.
Heimildir
Hargreaves, A. (2000). Changing teachers, changing times. Teacher´s work and culture in the postmodern age (5. Útgáfa). London, New Your: Continuum.
NKC