Andinn í kringum kennarastarfið

9335201-back-to-school-black-desk-with-school-supplies-vectorÍ dag hlustaði ég á norska konu tala um mikilvægi þess að kennarar fái viðeigandi handleiðslu fyrstu ár sín í kennslu. Máli sínu til stuðnings benti hún m.a. annars á að mjög hátt hlutfall kennara  hættir á sínum fyrstu árum í kennslu og að mögulega væri hægt að draga úr því með því að veita nýjum kennurum markvissari stuðning en nú er gert.

Að  mati fyrirlesarans þarf að fá kennara, til að taka að sér handleiðslu, sem hafa yfir að ráða mjög góðri þekkingu á kennarastarfinu og hæfni til að miðla henni til nýrra kennara. Ég skildi fyrirlesarann þannig að það væri mjög mikilvægt að kennarar sem sinna handleiðslu af þessu tagi séu framúrskarandi kennarar sem beri virðingu fyrir kennarastarfinu og séu góðar faglegar fyrirmyndir fyrir nýja kennara og að  reyndir kennarar falla ekki endilega sjálfkrafa í þennan flokk.

Fyrirlesarinn höfðaði einnig til ábyrgðar kennara almennt og benti á mikilvægi  þess að tala raunsætt en uppbyggilega um kennarastarfið bæði innan skóla og utan, því  það skipti máli fyrir nýliðun í stéttinni. Það umræðuefni hennar rifjaði upp hugsanir sem kviknuðu eitt sinn þegar ég hlustaði á kaffibarþjón í útvarpsviðtali  lýsa keppni sem hún var að skipuleggja. Kaffibarþjónninn var með neista í röddinni og maður trúði því að henni þætti kaffigerð mjög mikilvægur þáttur lífsins og jafnvel einhverskonar list. Hún talaði um hversu  stórkostlegt henni þótti að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í þeim miklu framförum í kaffimenningu sem orðið hefðu á Íslandi og sagði að fólk hvaðanæva úr heiminum horfði til Íslands til að læra af okkur.

Þegar ég hlustaði á þetta útvarpsviðtal fann ég að þarna talaði  manneskja sem var  verulega stolt af sínu starfi og hafði  gleði af að segja frá því. Þá  flaug mér í hug hversu sjaldan ég hef heyrt kennara lýsa störfum sínum af viðlíka eldmóði opinberlega. Hvers vegna ætli svo sé?  Það hlýtur að vera jafn mikilvægt  að neisti  logi innra með kennurum og kaffibarþjónum og að þeir geti sagt frá sínu mikilvæga starfi með gleði í röddinni.  Það hljóta að vera til kennarar sem líta þannig á að það hafi verið stórkostlegt að fá tækifæri til að taka þátt í þeim breytingum sem hafa orðið á skólastarfi á Íslandi undanfarin ár. Eða kennarar sem líta á það sem gríðarleg forréttindi að geta haft uppbyggileg áhrif á börn og unglinga. Þeir kennarar þurfa að taka yfir umræðuna að mínu mati, láta í sér heyra og taka þannig þátt í að byggja upp sterkan, uppbyggilegan og faglegan anda í kringum kennarastarfið.

Kaffibarþjónar sem ná árangri fá án efa góða handleiðslu  þegar þeir taka sín fyrstu skref í vinnunni og tækifæri til að æfa sig í að búa til froðu og teikna myndir í hana.  Reyndari kaffibarþjónar leggja sig væntanlega fram um að koma þeirri menningu sem ríkir í kringum starfið til þeirra nýbyrjuðu, þannig byggja þeir upp sterka starfstétt með  reynslu, sýn og gildi sem þau geta kallað sína menningu.  Ætti ekki það sama að vera sjálfsagt gagnvart  nýútskrifuðum kennurum?

EK

One response to “Andinn í kringum kennarastarfið

  1. Flott grein, ég er endalaus ánægð með starfsval mitt og er dugleg að bera út boðskapinn,

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s