Að velja rétt nám og starf

Nám og starfNú fer skólum að ljúka og fjölmörg ungmenni, sem eru að ljúka námi í grunnskólum og framhaldsskólum, standa frami fyrir því að velja sér náms- og starfsframa.  Vandinn er sá að valið verður erfiðara eftir því sem möguleikunum fjölgar, og þeim hefur sannarlega fjölgað. Eins og allir vita eru nú til ótal störf sem áður voru óþekkt auk þess sem vinnumarkaðurinn er ekki lengur bundinn við Ísland heldur er allur heimurinn undir. Það er heldur ekki alltaf auðvelt fyrir ungt fólk að átta sig á því hvaða nám og störf henta því best og sumir eru komnir á miðjan aldur þegar það rennur loks upp fyrir þeim.

Fyrrum skólastjóri Kennaraskóla Íslands, Broddi Jóhannesson, sagði eitt sinn í ræðu eitthvað á þá leið að menn greindi á um það hvort líf okkar væri fyrirfram ákveðið, einhverskonar örlög, eða hvort hver og einn væri sinnar gæfu smiður. Hann sagðist þó telja að a.m.k. tvisvar á ævinni stæðum við frami fyrir mikilvægum valkostum sem hefðu meiri áhrif á líf okkar en flest annað, þetta væri annars vegar val um maka og hins vegar val um náms-og starfsframa. Ef okkur auðnaðist að velja rétt  þá væri auðveldara að takast á við allt hitt sem lífið færði okkur og við hefðum ekkert val um. Öfugt við það sem áður tíðkaðist skiptir fólk nú oftar um starfsvettvang, það bætir við menntun sína og sækir á ný mið og svo eru aðrir sem neyðast til að leita nýrra leiða. Engu að síður er líklegt að við höldum okkur flest innan sama vettvangs hvort sem hann nefnist listir, vísindi, iðnaður, heilbrigðismál, uppeldi-og kennsla eða annað.

Ástandið í samfélaginu hverju sinni hefur væntanlega mikil áhrif hugmyndir og val unga fólksins. Verkföllin sem nú ríða yfir þjóðina hafa ekkert síður áhrif en fjármálaæðið hafði fyrir áratug síðan og enn er verið að súpa seyðið af. Einstaklingur sem hefur t.d. átt sér draum um að verða hjúkrunarfræðingur hugsar sig sjálfsagt tvisvar um þegar hann heyrir hjúkrunarfræðinga í verkfallsbaráttu tala um lág laun og óboðlegt vinnuálag. Þetta getur ekki aðeins haft áhrif á ákvarðanir ungmennisins, heldur getur stéttin og samfélagið misst af hæfileikaríkum og ástríðufullum hjúkrunarfræðingi.

Ég heyrði því eitt sinn haldið fram að maður ætti ekki að leggja á sig langt nám nema hafa ástríðu fyrir því, annað væri sóun á tíma, féi og lífsgæðum. Áhugasviðspróf eins og Strong Interest Inventory  er meðal þeirra verkfæra sem lengi hafa verið notuð m.a. í Háskóla Íslands  til að hjálpa fólki að greina hvaða störf séu líklegust til að veita því ánægju og um leið er það sterk vísbending um að starfið hæfi viðkomandi einstaklingi vel. Áratuga rannsóknir liggja að baki prófinu enda þykir spá þess býsna áreiðanleg. Samkvæmt Strong Interest Inventory skiptast megin áhugasviðin í sex þætti, en áhugasvið lang flestra eru blanda af tveimur eða þremur þáttum þó einn þeirra sé oft ríkjandi. Hér er örstutt kynning á helstu einkennum þessara þátta.

E –  Enterprising (framtakssemi): Þetta fólk er m.a. líklegt til að vera framtakssamt og njóta þess að hafa áhrif. Það er félagslynt, sjálfstætt og rökfast og þroskar oft með sér hæfileika til leiðtogastarfa. Dæmi um störf sem hæfa: Sölumaður, stjórnmálamaður, snyrtifræðingur og framkvæmdastjóri.

A –  Artistic (listrænn): Þessu fólki líður oft best þegar það er ekki í föstum ramma. Það treystir fyrst og fremst á eigin getu og tilfinningar og hefur þörf fyrir að tjá sig. Það er tilfinninganæmt, skapandi og líkar vel við breytingar. Dæmi um störf sem hæfa: Tónlistamaður, hönnuður, leikari og lögfræðingur.

C – Convertional (hefðbundinn): Þetta fólk þrífst best í góðu skipulagi og reglufestu. Það hefur næmt auga fyrir smáatriðum og líkar illa við óvissu. Því hentar oft að vinna á fjölmennum vinnustöðum. Dæmi um störf sem hæfa: Ritari, endurskoðandi, stærðfræðingur og prófarkalesari.

I – Investigative (rannsakandi): Þetta fólk er forvitið, vill leita upplýsinga og skilja. Það hefur oft áhuga á vísindum og heilbrigðismálum. Það er gjarnan óhefðbundið í skoðunum og hlédrægt. Því líkar vel að ígrunda og treystir meira á eigin getu en annarra. Dæmi um störf sem hæfa: Sálfræðingur, læknir, heimspekingur og kerfisfræðingur.

S – Social (félagslegur): Þetta fólk treystir oft á eigin tilfinningar. Því fellur vel að veita upplýsingar, aðstoð og sýna skilning. Þetta eru hjálpsamir og einlægir einstaklingar sem líkar vel að vinna með öðrum og láta gott af sér leiða. Dæmi um störf sem hæfa: Hjúkrunarfræðingur, kennari, þjónn og prestur.

R – Realistic (raunsær): Þessu fólki líkar oft best að vinna með tæki eða dýr og önnur áþreifanleg verkefni. Því hentar vel að þjálfa líkamlega og/ eða tæknilega hæfileika. Þetta er oft raunsætt fólk og rökvíst sem sækist ekki eftir því að tjá hugsanir sínar og tilfinningar. Dæmi um störf sem hæfa: Rafvirki, lögreglumaður, dýralæknir, garðyrkjumaður og sjómaður.

Mergurinn málsins er sá að lang flestir eru í námi og á vinnumarkaði mestan hluta ævinnar. Hamingja okkar og lífsgæði eru að miklu leyti undir því komin að það sem við fáumst við veiti okkur ekki aðeins laun heldur einnig lífsfyllingu. Að eiga vinnufélaga sem hafa svipuð áhugamál og gildi er einnig mikils virði enda ekki óalgengt að þeir verði í hópi okkar náustu vinir. Að vakna á morgnana og hlakka til að fara í vinnuna er ómetanlegur munaður.

NKC

Heimildir:

Umfjöllun um Strong Interest Inventory byggir einkum á tímaglósum í náms-og starfsráðgjöf. Kennari: Sölvína Konráðsdóttir. (1986), og á ljósriti eftir Ágústu Gunnarsdóttur. (1988).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s