Áhugaverðar bækur fyrir fagfólk sem vinnur með börnum

BókakynningVið viljum vekja athygli á tveimur bókum sem komu út í lok síðasta árs. Báðar fjalla þær um börn og ofbeldi og heita:  Ofbeldi gegn börnum, hlutverk skóla og Ofbeldi á heimili með augum barna. Höfundar fyrrnefndu bókarinnar eru Guðrún Kristinsdóttir og Nanna Kristín Christiansen. Bókin er gefin út að tilstuðlan Vitundarvakningar um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum í samstarfi við Námsgagnastofnun.

Markmiðið með útgáfunni er að upplýsa kennara og annað starfsfólk leik-grunn og framhaldsskóla um einkenni og áhrif ofbeldis á börn og að vekja athygli á forvörnum, inngripi og úrræðum sem eru til staðar til að tryggja sem best velferð nemenda. Bókin kom út sem rafbók og er vistuð á vef Námsgagnastofnunar http://vefir.nams.is/flettibaekur/namsefni/ofbeldi_gegn_bornum/ Hún er jafnframt væntanleg í prenti í lok mánaðarins. Kaflaheitin gefa vísbendingu um innihald og áherslur:

  • Ofbeldi er hluti af samfélagsgerðinni
  • Fordómar
  • Börn sem búa við ofbeldi á heimilum. (Í undirköflum er m.a. fjallað um andlegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, kynferðisofbeldi og vanrækslu)
  • Einelti
  • Ofbeldi í fjölmiðlum og á netinu
  • Forvarnir í skólastarfi
  • Að setja mál í réttan farveg
  • Viðtöl við börn
  • Verkferlar og eftirfylgd
  • Hagnýtt efni og verkefi

Síðarnefnda bókin Ofbeldi á heimili með augum barna er framlag til rannsókna á heimilisofbeldi, vanrækslu og misbeitingu gagnvart börnum og mæðrum og jafnframt innlegg í baráttu gegn þessu alvarlega þjóðfélagsmeini, eins og segir á bakhlið bókarkápunnar. Bókin byggir á rannsókinni „Þekking barna á ofbeldi á heimilum“ sem unnin var hér á landi á árunum 2006-2013. Ritstjóri bókarinnar er Guðrún Kristinsdóttir auk hennar voru í rannsóknarhópnum Ingibjörg H. Harðardóttir, Margrét Ólafsdóttir, Margrét Sveinsdóttir, Nanna Þ. Andrésdóttir og Steinunn Gestsdóttir.

Ofbeldi á heimilum er líklega almennara en margir gera sér ljóst og óhætt er að fullyrða að flestir kennarar hafa einhvern tímann nemendur sem búa við ofbeldi á heimilum sínum. Í bókinni segja börnin frá skilningi sínum og viðbrögðum við margþættu ofbeldi á heimilum og gefa m.a. ráð öðrum börnum.

Bókin er gagnleg fyrir almenning, fræðimenn, háskólanema og alla sem sinna börnum og unglingum. Ofbeldi á heimili með augum barna var tilnefnd til Fjöruverðlauna 2014.

NKC

 

 

 

Færðu inn athugasemd