Að skilja útundan

hlutverkMikið vildi ég að frétt um nemenda sem ekki fékk að fara með bekknum sínum í skólaferðalag væri einsdæmi. En því miður er sú ekki raunin. Það er sorglegt til þess að vita að þetta skuli enn viðgangast.

Ég þekki dreng sem fyrir tæpum 10 árum, þegar hann var í 10. bekk, fékk ekki að fara með bekknum sínum í ferð til Frakklands. Hvorki honum né foreldrum hans var  tilkynnt formlega um  þá ákvörðun.  Nemendinn sjálfur fékk að vita af því að honum stæði ekki til boða að fara í ferðina þegar kennarinn var að útdeila verkefnum vegna ferðarinnar  í kennslustund og nefnir ekki nafn hans í tengslum við neitt þeirra verkefna. Þegar nemendinn spyr „en hvað með mig, hvað á ég að gera“, fær hann svarið „ég treysti mér ekki til að taka þig með í ferðina og þú verður því heima“.  Nemandinn lét foreldra sína ekki vita af þessari framkomu kennarans og foreldrar hans vissu ekki af þessari ferð fyrr en bekkjarsystkini sonar þeirra komu heim til þeirra að selja vörur til styrktar ferðinni. Þá gengu foreldrarnir á son sinn og fengu alla söguna.  Í þessu tilviki sendu foreldrarnir bréf til skólastóra og skólanefndar bæjarfélagsins sem fannst báðum í lagi að útiloka drenginn frá þessu ferðalagi vegna þess hversu óþekkur hann væri í skólanum. Við útskrift árgangsins um vorið var viðkomandi kennari verðlaunaður fyrir frábært starf með börnunum ekki síst fyrir að hafa farið með þau til Frakklands. Þá sagði nemandinn sem ekki fékk að fara með í ferðina, við foreldra sína „eigum við ekki að ganga út?“ en foreldrarir voru hugleysingjar á vissan hátt eða  treystu sér alla vega ekki til að gera uppsteyt og sátu því kjurir athöfnina á enda með óbragð í munninum og hjartað fullt af sorg og reiði.

Þessum sama dreng var meinað að fara í skíðaferð með skólafélögum sínum  vegna þess að hann flissaði á fundi þar sem það var bannað. Skólinn var alveg máttlaus í að vinna þennan dreng á sitt band og pönkast var í honum alla hans skólagöngu eftir 3. bekk.  Krafan var stöðugt sú að hann félli inn í það form sem skólanum hentaði, en á endanum gaf hann skít í allt sem skólinn stóð fyrir og flissaði upp í opið geðið á þeim sem voru að lesa honum pistilinn og það þoldu þau allra verst. Foreldrar hans gáfust upp á samstarfi við skólann, þó þau mættu á marga fundi.  Enda  fundu þau mjög  sterkt fyrir vanmætti starfsfólks og stjórnenda og sérstakri tilhneigingu þeirra til að kenna nemandanum um allt sem miður fór í samskiptum við fullorðna fólkið í skólanum. Í samstarfi sínu við foreldra var skólinn einungis að vinna sjálfum sér í hag en ekki nemandanum sem þau vildu fyrst og fremst að foreldrarnir löguðu.

Það getur verið mjög erfitt fyrir foreldra sem eiga börn sem rekast illa í skóla að finna fólk inni í kerfinu sem sýnir málefnum barna þeirra skilning. Krafan um að börn passi inni í kerfið er mun sterkari heldur en krafan um að kerfið finni leiðir til að mæta þörfum allra barna. Skömmin sem fylgir því að barnið  passar  ekki  inn í skólkerfið getur verið lamandi og dregur máttinn úr fólki til að berjast fyrir því að komið sé fram við barn þeirra af virðingu. Skömmin sem börnin sitja upp með og áhrifin á sjálfsmynd þeirra er gífurleg og ábyrgð fagmannanna  því mikil.

Ég vona að þeir sem starfa í skólum fari að skilja að fæst börn haga sér illa af því  þau eru illgjörn og vilji kennurum eða skólafélögum sínum illt.

Fagmenn vinna með hag skjólstæðinga sinna að leiðarljósi og leggja sig fram um að brjóta þá ekki niður eða mála þá svo út í horn að eina vörnin sé að gefa skít í það sem fram fer. Útilokun er eitt af erfiðum birtingamyndum eineltis og þörf mannsins til að tilheyra er mjög sterk. Kennarar eiga ekki að leyfa sér að útiloka fólk heldur vinna að því hörðum höndum að þörfum nemenda til að vera hluti af skólasamfélaginu sé mætt.

Það tók nemandann sem hér um ræðir 3-4 ár að byggja sjálfan sig upp á ný eftir níu ára niðurbrot í grunnskóla. Hugum að því hversu brotthætt sjálfsmynd barna getur verið og gætum þess hvernig við komum fram við þau.

EK

4 athugasemdir við “Að skilja útundan

  1. Flott grein og fróðleg. Það er nokkuð víst að þegar börn eru tekin svona út úr hópnum og útilokuð eru það fjármálin sem skólayfirvöld bera fyrir sig. Ég er næsta viss um, án þess að þekkja til málsins nema úr fjölmiðlum, að útilokunin sem var í fréttum um daginn eigi að vera einhvers konar þrýstingur á sveitarfélagið að útdeila meiri peningum til stuðnings fyrir nemendur með sérþarfir. Það er náttúrlega miður og bitnar beint á nemandanum.

  2. Án þess að vita nokkurn hlut um þetta mál vil ég ekki fella um það dóm. En við skulum ekki gleyma því að skólakerfið er líka fólk og það er þetta fólk sem tekur ákvarðanir um hvað er ásættanleg hegðun og hvað ekki. Ákvarðanir þeirra eru yfirleitt byggðar á sömu siðferðisvitund og gildum sem aðrir i samfélaginu hafa. Þess vegna væri hegðun sem er ekki samþykkt í skóla heldur ekki samþykkt annars staðar í samfélaginu. Og þess vegna m.a. veldur það skömm að standa ekki undir kröfum um samskiptareglur í skólanum. Svo fer málið vitaskuld í hnút þegar báðir aðilar hafa áttað sig á því að það er engan samningsgrundvöll að finna hjá hinum aðilanum! Skólastjórar og kennarar þurfa að læra að átta sig á því hvenær hlutirnir eru að fara í hnút og fá aðstoð áður en það er um seinan.

  3. ég er sammála því að í skóla þurfi að ríkja viðurkenndar samskiptareglur samfélagsins enda sé skólinn hluti af samfélaginu. Ég vona að aðferðirnar sem lýst er hér séu í andstöðu við ríkjandi sjónarmið samfélagsins varðandi framkomu gagnvart börnum og unglingum. Jafnvel þó þau nái ekki að halda sig innan þess ramma sem ætlast er til að þau haldi sig.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s