Er hægt að læra til lýðræðis í skólanum?

tafla

Ég heyrði það haft eftir erlendum fræðimanni að skólinn væri ólýðræðislegasta stofnun samfélagsins ef fangelsi væru undanskilin. Máli sínu til stuðnings benti fræðimaðurinn á að óvíða annarsstaðar þyrfti að biðja um leyfi til að fara á klósett. Mér finnst þetta nú reyndar dálítið djörf yfirlýsing og tel að lýðræði í íslenskum grunnskólum sé töluvert meira en í fangelsum, en tek það fram að þeim hef aðeins kynnst í kvikmyndum. Höfundar heftisins Lýðræði og mannréttindi í Ritröðinni um grunnþætti menntunar,sem gefið er út með nýrri aðalnámskrá, benda einnig á að skólastarfið sé ekki að öllu leyti í samræmi við hugmyndir okkar um lýðræði börn hafi t.d. ekkert val um að ganga í skóla auk þess sem nám þeirra á öllum skólastigum taki mið af námsskrá. Það felst því allnokkur ögrun í því fyrir kennara að einn af grunnþáttum menntunar skuli vera lýðæði sem á að flettast inn í allt starfið.

Öll viljum við lifa í lýðræðissamfélagi en við getum ekki búist við því að einstaklingarnir stökkvi sem full skapaðir lýðræðisþegnar út í samfélagið þegar þeir hafa náð ákveðnum aldri.  Börn þurfa að læra í skólunum og á heimilum sínum hvernig á að vera þátttakandi í lýðræðisþjóðfélagi. Börn og ungmenni læra til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði, segir í fyrrnefndu hefti.

Þetta merkir að það nægir ekki að fjalla um lýðræði í einni kennslustund á viku eða vera með þemaviku um lýðræði og láta það annars liggja á milli hluta. Auk þess að ræða um hugtakið lýðræði merkingu þess og markmið þurfa kennarar að leita leiða til að skapa vettvang fyrir nemendur til að þjálfa sig í lýðræðislegum vinnubrögðum í öllu starfi skólans.  Í námi sem ég stundaði á vegum Pestalozzi stofnunarinnar, en hún  vinnur að innleiðingu menntastefnu Evrópuráðsins, lærðu þátttakendur (kennarar) hvernig mætti þjálfa nemendur í virku lýðræðisstarfi. Þar er lykiláherslan á markvisst samstarf nemenda í kennslustundum og á samræðuna. Með samstarfinu og samræðunni læra nemendur að tileinka sér gildi eins og virðingu, ábyrgð, tillitssemi og jafnrétti.  Þetta er m.a. talin ein mikilvægasta forvörnin gegn einelti.

Þegar hefti og plakati um Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna var dreift í skólana fyrir allmörgum árum síðan minnist ég þess að sumir kennarar voru uggandi um þau áhrif sem áherslur á réttindi nemenda gætu haft.  Í því andrúmslofti sjálflægni sem hefur verið ríkjandi þarf þetta ekki að koma á óvart. Kennarar, sem hafa reynslu af nemendum sem reyna að mótmæla og ögra með því að vísa í réttindi sín, eru sennilega ekkert yfir sig hrifnir af því að staðfesta enn frekar réttindi nemendanna. En lýðræði er ekki einstefna heldur vísar það í báðar áttir þ.e. réttindi og ábyrgð. Það eru nefnilega engin réttindi án ábyrgðar. Það virðist stundum gleymast.

Það er einstaklega ánægjulegt að koma í  skóla sem vinna markvisst með lýðræðisvitund og lýðræðislega starfshætti.  Í þeim skólum þekkja kennarar, nemendur og foreldrar ábyrgð sína ekki síður en réttindi.  Strax frá fyrsta bekk er ábyrgð nemenda á velferð skólafélaga þeirra og á rekstri skólans vakin jafnframt því sem þeim er gerð grein fyrir réttindum sínum. Lítil krakkakríli taka upp dót sem liggur á gólfinu af því að þau vita að það kostar peninga sem hægt er að verja til annars, þau vita líka hvað það kostar að kaupa húsgögn og annan búnað í skólann og þeim er kennt að virða rétt félaga sinna á vinnufrið.  Í þessum skólum víkja nemendur ekki af skólaráðsfundum þegar fjármál eru til umfjöllunar, því hugmyndir þeirra skipta máli. Forsendan fyrir starfsháttum umræddra skóla er samtakamáttur starfsmanna, þeir hafa samræmt viðhorf sín, væntingar og vinnubrögð með samræðu og samstarfi. Þessum skólum hefur sannarlega tekist að afsanna þá hugmynd að skólinn sé ólýðræðisleg stofnun.

NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s