Fyrir nokkru sátum við ég og 13 ára sonur minn við morgunverðarborðið og þá segir hann allt í einu: „Mamma, hún Ása er alveg rosalega góður kennari“. Ég svaraði til baka: „Gaman að heyra, en hvað er það sem gerir hana svona rosalega góðan kennara?“ Sonur minn svaraði: „Það er nú ýmislegt, hún útskýrir hlutina þannig að maður man þá, hún er með svona allskonar verkefni og svo er hún bara svo skemmtileg“. Svona sá sem sagt sonur minn góðan kennara.
Stóru spurningarnar sem sjálfsagt margir kennarar glíma við eru: Hvernig næ ég til nemenda minna og eru þeir að læra eitthvað af minni kennslu? Páll Skúlason heimspekingur og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands heldur því fram að það sé enn erfiðara að kenna en að læra. Til að nemandinn geti nýtt sér kennsluna þarf hann að geyma þá þekkingu sem hann fær. „Sá sem raunverulega kennir lætur fólk ekki læra neitt annað en það að læra“ (Páll Skúlason, 1989).
Hvað er það þá að kenna. Varla getur kennari haldið því fram að raunverulegt nám hafi farið fram ef nemandinn lærir ekkert eftir kennsluna. Því má segja að miðlun upplýsinga geti einungis talist kennsla þegar hún skilur eitthvað eftir sig (Lioyd, 1976). Lioyd heldur því líka fram að til að kennsla skili árangri þurfi kennari að þekkja nemendur sína mjög vel, umhverfi þeirra og persónueinkenni. Og til að ná sem bestum og jöfnustum árangri þurfi ef til vill að kenna foreldrunum fyrst svo þeir geti hjálpað sínu barni þegar á þarf að halda.
Mikið hefur verið skoðað og skrifað um muninn á stærðfræðiárangri nemenda eftir löndum. Í alþjóðlegum könnunum eins og PISA og TIMSS koma sumar þjóðir alltaf áberandi best út. Þar hafa til dæmis lönd í Austur-Asíu komið mun betur út en lönd í Evrópu. Susie Groves (2009) hefur skoðað þessi mál. Í stuttu máli er niðurstaða hennar sú að góð kennsla eigi sér djúpar rætur í menningarlegum gildum og viðhorfum. En aðrir þættir koma þar líka við sögu eins og félagsleg staða kennara, eftirsókn eftir kennarastarfinu, kennsluaðferðir og stöðugleiki í námskrárefnum. Í því sambandi má nefna að staða kennara víða í Austur-Asíu er mjög góð og þeir líta á kennslu sem sitt ævistarf sem er ekki raunin í mörgum vestrænum ríkjum.
Á Íslandi hefur líka verið skoðað hvað gerir kennara að góðum stærðfræðikennara. Kristín Bjarnadóttir (2010) gerði rannsókn á kennslu fimm framhaldsskólakennara. Hún lagði spurningar fyrir 106 nemendur í fjórum framhaldsskólum og spurði þá um helstu kosti kennara sinna. Meðal helstu niðurstaðna í þeirri rannsókn var að nemendur kunna vel að meta persónulega eiginleika og framkomu kennara sinna svo sem glaðlyndi, þolinmæði og umhyggju fyrir nemendum. En það sem þeim finnst þó mikilvægast er að kennari nái að útskýra þannig að nemandi skilji. Það sem nemendur telja helst upp varðandi þá þætti er skýrt tal og framsetning, agi í tímum og góð þekking á námsefninu. Og að það skapist það jákvætt andrúmsloft í kennslustofunni að kennari og nemendur séu sáttir við sitt hlutverk þar inni.
Í meistararitgerð Ásdísar Hrefnu Haraldsdóttur (2006) skoðar hún sýn nemenda á það hvað er góður kennari. Þar kemst hún að því að nemendur horfa meira til persónu kennarans heldur en kennsluaðferða hans og verklags. Í spurningakönnun sem hún lagði fyrir kemur fram að yfir 90% nemenda vilja að kennari sé skemmtilegur og sýni þeim tillitsemi og virðingu. Einnig telja margir nemendur að góð bekkjarstjórnun og hæfilegur agi sé mikilvægur. Og hjá eldri nemendum í könnuninni, en hún var gerð á 10 og 14 ára nemendum, kemur fram að mikilvægt sé að kennari nái að útskýra námsefnið vel og hafi fagþekkingu. Annað sem var athyglisvert í þessum niðurstöðum er að of strangur kennari er það sem nemendur telja verst í fari kennara.
Til að skoða sjálf hvað nemendur telja vera góðan kennara gerði ég litla óvísindalega rannsókn. Þau orð sem komu mjög oft fyrir hjá nemendunum þegar þeir áttu að segja frá því hvernig þeir sjá góðan kennara eru orðin útskýrir vel og er þolinmóður og eru þær niðurstöður alveg í samræmi við niðurstöður rannsóknanna sem getið er um hér að framan.
Kennsla er ekki einfalt fyrirbæri. Hún gengur að miklu leyti til út á mannleg samskipti og er því ekki alltaf eftir ákveðnum línum og formum. En eftir þessa litlu skoðun mína þá hallast ég að því að hinn gullni meðalvegur gildi í flestu sem varðar kennslu. Kennari þarf að halda uppi aga en samt ekki svo ströngum aga að nemendum líði illa. Kennari þarf að kunna námsefnið vel til að geta miðlað en stundum verður það svo hjá mjög mikið lærðu fólki að það á erfitt með að fara niður á það plan sem nemendur eru á. Sem dæmi getur kennari með doktorsgráðu í stærðfræði átt erfitt með að skilja af hverju nemendur í grunnskóla skilja ekki eitthvað sem þeim finnst augljóst. Kennari þarf að vera skemmtilegur og hress en þó má hann ekki vera eingöngu skemmtikraftur í kennslustofunni.
Varðandi kennsluaðferðir þá sýnist mér að fjölbreytilegar kennsluaðferðir séu það sem er árangursríkast. Það kemur fram í rannsókn Margrétar Ásgeirsdóttur (2008) og einnig í minni litlu rannsókn. Ég tel einnig að samsetning nemendahópsins hafi heilmikið að segja. Í sumum bekkjum skapast þær aðstæður að allir vilja leggja sig fram, það skapast jafnvel jákvæð samkeppni á meðan í öðrum bekkjum þykir ekki fínt að leggja sig fram í námi og þeir nemendur sem það gera verða jafnvel fyrir aðkasti bekkjarfélaga. Þess vegna finnst mér mikilvægt að kennari vinni með þennan bekkjaranda og reyni að skapa jákvæðar og uppbyggilegar námsaðstæður svo að sem bestur árangur náist hjá flestum nemendum.
Samkvæmt því sem Susie Groves (2009) komst að við skoðun á niðurstöðum PISA og TIMSS þá skipta menning, gildi og viðhorf til menntunar miklu máli þegar kemur að námsárangri nemenda. Því þurfa íslenskir grunnskólakennarar að byggja upp jákvætt viðhorf til stéttarinnar. Nú hefur kennaramenntun verið lengd í fimm ár og því verður vonandi enn meiri og betri fagþekking til hjá stéttinni sem getur hjálpað til við uppbygginguna og gert það að verkum að sjálfsmynd íslenskra kennara styrkist.
Grein er unnin upp úr lokaverkefni í námskeiði um starfendarannsóknir á Menntavísindasviði HÍ.
Rósa Ingvarsdóttir, grunnskólakennari.
Heimildaskrá
Aðalnámskrá – almennur hluti.(2011). Sótt 11.apríl af: http://www.menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar/adalnamskra-grunnskola/
Ásdís Hrefna Haraldsdóttir. (2006). „Meiri kurteisi-meira bros“. Hugmyndir grunnskólanemenda um góðan kennara. Háskóli Íslands. Félagsvísindadeild. Reykjavík.
Groves, S. (2009). Exemplary mathematics lessons: a view from the West. ZDM Mathematics Education, 41,385-391. Sótt 9.mars 2013 af: http://download.springer.com/static/pdf/534/art%253A10.1007%252Fs11858-009-0178-4.pdf?auth66=1364227418_24f577a229c394c551f91cb98f3d0ab4&ext=.pdf
Kristín Bjarnadóttir. (2010). Góð stærðfræðikennsla og bragur í kennslustundum. Ráðstefnurit Netlu – Menntavika 2010. Reykjavík: Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Sótt 10.mars 2013 af http://netla.hi.is/menntakvika2010/alm/019.pdf
Lioyd, D.I. (1976). Philosophy and the teacher. Routledge & Kegan Paul. London.
Margrét Ásgeirsdóttir. (2008). Fjölbreyttir og einstaklingsmiðaðir kennsluhættir í fjölhæfum bekk. Háskóli Íslands. Reykjavík. Sótt 9.apríl 2013 af: http://skemman.is/stream/get/1946/1857/5665/2/margret_asgeirsd_meistaraverkefni.pdf
Páll Skúlason. (1989). Pælingar II, safn erinda og greinastúfa. Reykjavík.