Svíar eru nú komnir í hóp þeirra þjóða sem vinna að umfangsmikilli endurskipulagningu á kennarastarfinu. Þar hafa ríkisvaldið, kennarasambandið, landsamtök kennara, samband sveitarfélaga og landsþinga og landssamtök einkaskóla náð samkomulagi um tillögur til aðgerða.
Í grein sem ber yfirskriftina 10 aðgerðir sem eiga að bjarga sænska skólanum segir að grunnurinn að árangri í skólastarfi sé lagður í samskiptum kennara og nemenda. Það er fagmennska kennarans og gæði kennslunnar sem fyrst og fremst eru afgerandi um árangur nemenda. Aðgerðunum 10 er ætlað að snúa við neikvæðri þróun og byggja upp betri skóla í Svíþjóð.
Í stuttri samantekt eru aðgerðirnar þessar:
1. Hærri laun til kennara og auknir möguleikar á starfsframa. Í kjölfar endurmats á kennarastarfinu og nýjum samningum er mögulegt að hækka verulega laun margra hæfra kennara. Þar að auki felst í þeim hvati til launa- og starfsþróunar kennara til lengri tíma litið.
2. Minni skriffinnska: Kennarar eiga að starfa við kennslu, ekki skriffinnsku. Á þann hátt er hægt að auka tímann sem kennararnir hafa til skipulagningar og kennslu.
3. Réttindi og hæfni: Sá sem starfar við kennslu verður að hafa rétta menntun til þess. Nýlega náðist samkomulag um að hægt verði að endurmeta þær aðlögunarreglur sem eiga að gilda fyrir kennara sem þegar eru í starfi. Hvað varðar kennara sem hafa ekki yfir nægri hæfni að ráða í einhverri námsgrein sem þeir kenna er þá er hægt að vísa máli þeirra til endurmenntunarkerfis ríkisins.
4. Strangari inntökuskilyrði: Árið 2014 munu kröfur um grunnhæfni verða auknar hvað varðar kennaramenntun. Til að fá inngöngu í kennaranám verða nemendur nú að standast kröfur um lágmarkseinkunn úr menntaskóla þ.á.m. verður krafist meiri þekkingar í sænsku en gert hefur verið fram til þessa.
5. Hæfnismat við inngöngu í kennaraskóla: Til að geta starfað sem kennari er ekki nóg að hafa gott vald á bóklega hlutanum. Kennari verður t.d. að hafa góða hæfileika til mannlegra samskipta og að geta starfað með öðru fólki. Því mun hæfni nemandans á því sviði vera metin til viðbótar við almennar kröfur um lágmarkseinkunnir.
6. Kennslufræðin á að vera mikilvægur hluti kennaramenntunar: Styrkja verður þann hluta kennslufræðinnar sem fjallar um hvernig kennslan er skipulögð og tengja það námsmati. Nýta verður krafta mjög hæfra kennara í kennaramenntuninni jafnvel þótt þeir hafi ekki tekið doktorspróf.
7. Stofnsettir verða æfingaskólar til að sinna verklega hluta kennaranámsins: Í æfingaskóla fer hópur kennaranema í gegnum verklegt nám að hluta eða að öllu leyti. Þeir starfa þar undir leiðsögn viðurkenndra kennara. Æfingaskólar eru til staðar fyrir mismunandi skólagerðir.
8. Þróa á vettvangsnámið með tilliti til eftirfylgni, mats og prófa. Vettvangsnámið er ætlað til að kennaranemar geti þróað með sér hlutverk kennara. Í dag er mjög sjaldgæft að nemandi sé metinn vanhæfur eða hætti námi í æfingakennslu. Að hluta til er það vegna brotakenndar eftirfylgni. Skýr markmið með prófum, samræmdar matsforsendur og stighækkandi einkunnaskali ætti að leiða til aukinna gæða.
9. Þróun á leiðsögn fyrsta starfsárið: Skólastjórar eru skyldugir til að gefa nýbrautskráðum kennurum leiðsögn fyrsta ár þeirra í starfi. Sérstakt fé er eyrnamerkt þessu verkefni. Gert er ráð fyrir að Skólarannsóknarstofnun fái það hlutverk að fylgja þessu eftir. Jafnframt verður hæfnimat innleitt og mat á frammistöðu í æfingakennslu verður markvissara svo hægt verði að styrkja nýja kennarann.
10. Skólarannsóknarstofnun verði stofnuð: Framkvæmd kennslu í skólastofunni þarf að byggja á fræðilegum grunni. Það er mikil þörf fyrir að auka rannsóknir sem beinast að auknum gæðum og betri árangri í kennslunni. Þetta verður framkvæmt í nánu samstarfi við kennara og skólastjóra. Áherslan verður m.a. á að styrkja stjórnun skólans, draga fram góðar fyrirmyndir og að vinna með langtímasjónarmið fyrir augum.
Ekki eru allar þessara aðgerðir algerlega framandi í augum íslenskra kennara og sumar meira að segja fremur kunnuglegar. Þær eru um margt samhljóma áherslum í Finnlandi, Englandi, Kananda, Danmörku og víðar; tryggja á nemendum mjög góða kennara sem byggja starf sitt á fræðilegum grunni auk þess sem kennarinn á að verja sem mest af tíma sínum með nemendum. Svíar virðast einnig ætla að fylgja í fótspor Englendinga og launa kennurum í samræmi við árangur þeirra.
Það sem mér sýnist fyrst og fremst framandi er hin breiða samstaða sem náðst hefur um aðgerðirnar.
NKC