Átta hæfniþættir sem námsskráin ætti að byggja á að mati Ken Robinson

Ken Rob. bókÁskorun Sir Ken Robinson, sem sagt var frá hér í Krítinni fyrir skömmu, um að það þurfi að svara því hver sé tilgangur menntunar, hefur sótt á mig.  Ég minnist þess þegar ég var barn hversu mikils foreldrar mínir mátu fallega rithönd  og síðan hef ég  veitt því athygli hvað fólk af þeirra kynslóð telur almennt mikilvægt  að fólk skrifi fallega. Fólk sem fætt er um og eftir stríð finnst mér aftur á móti bera mikla virðingu fyrir latínu og telja hana oft vísbendingu um æðri menntun. Sennilega kunna flestir enn að meta fallega rithönd og ekki skulum við gera lítið úr latínunni, en ætli nokkur telji hana eða skrift vera megin tilgang menntunar í dag?  Eða hversu oft sjáum við auglýst eftir fólki sem hefur þessa færni á valdi sínu? Ef við lítum okkur nær í tíma blasir við að nú er það læsi sem er málið. Hvert sem litið er innan leik-og grunnskólans er megin áherslan á lestrarnám og læsi. Allt kapp skal nú lagt á að sérhvert barn læri að lesa fjölbreyttan texta eins og segir í Hvítbók.  Þannig sést hvernig áherslur náms breytast með tíðarandanum. Vandinn er sá að við sem störfum að menntamálum þurfum á hverjum tíma að ákveða hvað komi æskunni best að læra fyrir framtíð sem við höfum afar takmarkaða þekkingu á.

Að mati Robinson (2015)  þurfa nemendur að tileinka sér átta hæfniþætti (core competences) til að öðlast gott líf. Hann segir það vera vandamál hversu mikið skólinn hefur hólfað nám niður í námsgreinar, sem eru innbyrðis ótengdar, og álítur nauðsynlegt að endurhugsa það í námsskrám skólanna með tillitil til þessara átta hæfniþátta:

Forvitni – Hæfileikinn til að spyrja spurninga og kanna hvernig heimurinn virkar. Forvitnin er manninum meðfædd og þennan hæfileika þarf skólinn að nýta sem grundvöll að námi nemenda.

Sköpun – Hæfileikinn til að mynda nýjar hugmyndir og útfæra þær. Námið þarf að stuðla að því að nemendur virki  sköpunarkraft sinn á jákvæðan hátt. Robinson minnir jafnframt á að mörg þeirra vandamála sem mannkynið standi frammi fyrir séu sköpunarvek mannsins sem þurfi að bregðast við.

Gagnrýni –  Hæfileikinn til að greina upplýsingar og hugmyndir og að setja fram skynsamleg rök og mat. Netvæðingunni fylgja gífurlegir kostir fyrir ungt fólk en á sama tíma hefur aldrei verið jafn mikilvægt að efla gagnrýna hugsun nemenda. Gagnrýnin hugsun felur í sér meira en heilbrigða skynsemi það þarf sérstaka hæfni til að skilja raunverulegan tilgang þeirra upplýsinga sem verið er að gefa, einnig þarf hæfni til að greina gildi, tilfinningar og hlutdrægni þeirra svo eitthvað sé nefnt.

Samskipti – Hæfileikinn til að tjá hugsanir og tilfinningar á skýran og öruggan hátt í netmiðlum og á annan hátt. Robinson dregur ekki í efa mikilvægi þess að nemendur læri að lesa og reikna en hann telur okkur hafa vanrækt munnlega tjáningu og við því þurfi skólinn að bregðast.

Samstarf (samvinna) – Hæfileikinn til að vinna uppbyggilega með öðrum. Við erum félagsverur, framtíð samfélagsins er háð því að fólk kunni að vinna með hvort öðru. Það er algengt að við látum nemendur vinna í hópum í skólanum, en það nægir ekki, þeir verða að læra að vinna saman sem hópur.

Samúð – Hæfileikinn til að finna til samkenndar með öðrum og bregðast við í samræmi við það. Samúð er rót samkenndarinnar. Fyrsta skrefið er að við skynjum tilfinningar annarra innra með okkur sjálfum og hvernig okkur sjálfum myndi líða í sömu aðstæðum. Mörg þeirra vandamála sem ungt fólk glímir við í dag eiga rætur í skorti að samúð m.a. einelti og annað ofbeldi, misnotkun og fordómar.

Innri ró – Hæfileikinn til að vera í sambandi við sitt innra líf og tilfinningar og þróa innri sátt og jafnvægi.  Við lifum í tveimur heimum, þeim sem er innra með okkur sjálfum og þeim sem er utan við okkur. Hin hefðbundna námsskrá er full af ytri heiminum, það er lítið gert að því að hjálpa ungu fólki að skilja sinn innri heim, samt stýrast viðbrögð okkar í ytri heiminum af því hvernig innri heimur okkar er.

Borgaravitund – Hæfileikinn til að tengjast á uppbyggilegan hátt við samfélagið og að vera virkur þátttakandi í því ferli sem viðheldur því. Lýðræðið er háð því að borgararnir séu upplýstir, að þeir láti sig varða hvernig samfélaginu er stýrt og taki virkan þátt. Til að viðhalda þannig samfélagi verður ungt fólk læri það í skólanum hvernig samfélagið virkar bæði lagalega, efnahagslega og stjórnsýslulega. (Stutt samantekt úr Robinson, 2015, bls. 135 – 141).

NKC

Heimild: Robinson. K. (2015). Creative Schools, The Grassroots Revolution That´s Transforming Education. New York; Viking Penguin.

Færðu inn athugasemd