Ég heillaðist af þessari mynd þegar á rakst á hana á internetinu. Mér finnst boðskapur hennar eiga vel við í dag. Mér finnst mikilvægt að til sé mótvægi við þeim hugmyndum að mikilvægt sé að nota barnæskuna til formlegs náms því börn séu svo móttækileg á þeim aldri. Börn eru vissulega móttækileg frá unga aldri en til að öðlast alhliða þroska þurfa þau að fá tækifæri til að þroskast á fjölbreyttan hátt og á sínum hraða og byggja þannig sterkan grunn undir það sem framtíðin ber í skauti sér.
Þó það geti verið gaman að heyra lítil börn telja á erlendum tungumálum eða lesa orð og setningar þá er ekki þar með sagt að það auki þroska þeirra að búa yfir þeirri tækni. Með markvissri þjálfun er auðvitað hægt að kenna börnum ýmislegt og allt í lagi að gera það í hófi. En er sú þjálfun þess virði þegar litið er heildstætt á þroska barna? Ég held ekki. Ég vara við því að líta þannig á að aðaltriðið sé að flýta formlegu námi því að mínu mati getur þá tapast mikilvægur tími sem börn hafa til að þroskast í gegnum óformlegt, sjálfsprottið nám sem skiptir ekki minna máli. Gætum barnæskunnar og leyfum börnum að njóta hennar án þeirrar hugsunar að lífið sé færiband sem þurfi stöðugt að fara hraðar í átt að gröfinni.
EK