Enn um mikilvægi fagmennsku

jjÉg hugsa stundum um það á hverju skólar þurfa að halda til að geta talist góðir skólir. Ég hallast að því að góðir skólar þurfi fyrst og fremst á  meðvituðu fagfólki að halda sem leggur sig fram um að vinna í þágu nemenda í samstarfi við foreldra og aðra sérfræðinga þegar við á.

Af því að ég hef þá skoðun  þá velti ég líka stundum fyrir mér hvernig kennarar verða  að meðvituðum fagmönnum.  Með því að  að mennta sig til starfsins styrkja þeir væntanlega grunn fagmennsku sinnar  og fimm ára háskólamenntun styrkir vonandi þann grunn. Annað sem byggir upp fagmennsku kennara er að halda áfram að viðhalda  menntun sinni  starfsævina á enda. Það hlýtur einnig að vera mikilvægt fyrir þroska fagmannsins að vinna á vinnustað  sem ýtir undir það að fagmennska kennara blómstri. Fagmennska verður ekki til í tómarúmi hún byggist upp í samstarfi við aðra með samræðu, ígrundun og reynslu. Því hlýtur að vera mikilvægt að byggja upp faglegt lærdómssamfélag í hverjum skóla þar sem tóm gefst til samræðu  um fagleg málefni og gagnrýna umfjöllun um það sem gert er hverju sinni.

Ég hef stundum áhyggjur af því að þeir sem ekki eru sammála mér um mikilvægi fagmennsku kennaranna fyrir góða skóla hafi meiri áhrif en skoðanasystkini mín. Mér finnst ég of oft sjá merki um það þegar talað er um aðgerðir sem grípa á til þegar árangur skólakerfisins á Íslandi ber á góma.  Áherslan sýnist mér of oft vera á að búa til leiðbeiningar/verkfæri fyrir kennarana sem þeir eiga að fylgja svo nemendur nái betri árangri. Svo búa sérfæðingar til mælitæki til að mæla árangur nemenda og að mælingum loknum fá kennararnir nýjar leiðbeiningar frá sérfræðingum um hvernig á að bregðast við útkomu þeirra mælinga.

Ég óttast að með þessum aðferðum séu rætur fagmennsku kennaranna nagaðar undan þeim og smátt og smátt sé verið að gera þá að viljalausum verkfærum sérfræðinga sem starfa utan skólanna. Alla vega er það mitt mat að fagmennska kennaranna sé  ekki byggð upp með þessum hætti.  Það verður að  treysta kennurum  til að  taka þátt í þróun þess hvernig þeir nýta sér leiðbeiningar annarra sérfræðinga og þeir þurfa að fá tækifæri til að benda á aðrar leiðir sem þeir vilja heldur fara í sínu starfi með nemendum.  Þannig starfa kennararnir sem jafningjar þeirra sérfræðinga sem eiga að vera stuðningsaðilar við starfið í skólunum.

Ný stofnsett Menntamálastofnun tekur vonandi tillit til þessa og hefur sig yfir  hugmyndir um fljótvirkar leiðir til að bæta árangur. Fagfólk sem þar starfar gerir sér vonandi grein fyrir því að ekki borgar sig að fórna mikilvægum þáttum eins og fagmennslu kennara fyrir skilvirkan árangur á afmörkuðum sviðum. Gæta þarf þess að horfa á heildarmyndina og næra það sem skiptir máli fyrir gæði skólastarfs í heild. Það er ekki auðvelt að endurheimta fagmennsku heillar fagstéttar ef hún glatast. Skólar sem ekki búa yfir sterku fagfólki verða ekki góðir skólar til frambúðar. Menntun þjóðar er ekki færibandavinna sem vinna skal í hugsunarlausu akkorði. Það að koma fólki til manns er flóknara en það og krefst vandvirkni og ígrundunar frekar en skilvirkni og árangursmælinga.

EK

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s