Oft er það þannig að greinar sem manni finnst maður næstum hafa skrifað sjálfur höfða mest til manns. Það er eðlilegt því það tengist þeim gildum og þeim hugmyndum sem maður byggi skoðanir sínar á. Í mínu tilviki á það við um þessa grein, í henni kemur margt fram sem ég hef talað um lengi en hefur ekki alltaf fengið góðan hljómgrunn.
Upphafsmaður þeirra hugmynda sem greinin lýsir heitir Ross Green, hann kennir við Harvard og Virginia Tech. Með sínum rannsóknum hefur hann komist að því að:
„We know if we keep doing what isn’t working for those kids, we lose them,“ … „Eventually there’s this whole population of kids we refer to as overcorrected, overdirected, and overpunished. Anyone who works with kids who are behaviorally challenging knows these kids: They’ve habituated to punishment.“
Þegar ég hef í gegnum tíðina viljað skilja hvað liggur að baki hegðun nemenda hefur mér fundist sem sumum finnist ég vera að leita að afsökun fyrir hegðun nemandans, vera of lin og ekki taka hegðunarvandann nógu föstum tökum. Hugmyndir um að láta nemendur ekki komast upp með að hegða sér illa hugnast mér ekki, ég tel valdabaráttu við nemendur ekki gera nokkurt gagn því með henni rekum við nemendur bara lengra frá okkur. En það mikilvæga er að allir nemendur upplifi kennara og annað starfsfólk skóla sem talsmenn sína sem vilji þeim vel og ætli sér að styðja þá til aukins þroska.
Kröfur sem eru gerðar um að stöðva hegðunina til að fá frið fyrir hina nemendurna og svo kennarinn geti kennt þegar nemendur eiga við hegðunarvanda að stríða eru yfirleitt háværari en óskir um mikilvægi þess að setja sig í spor nemandans og reyna að komast að því hvað veldur reiðiköstunum, óróleikanum eða hávaðanum sem þeir skapa. Mér finnst það sem bent er á í greininni um mikilvægi þess að reyna að komast að rótum vandans skipta miklu máli, það að stöðva hegðunina bætir ekki líðan nemandans til langframa og honum er ekki hjálpað til að takast á við eigin tilfinningar eða vanmátt.
Sú leið sem fjallað er um í greininni virkar tímafrekari en þær sem oftast eru notaðar til að stöðva óæskilega hegðun, svo sem að senda til skólastjórans eða refsa með því að taka gæði frá nemendum eða nota límmiða eða önnur verðlaun fyrir góða hegðun. En að mati greinahöfundar duga þessi ráð einungis tímabundið og þroska nemandann ekki þó hegðun stöðvist hugsanlega í ákveðinn tíma þá hefur ekki verið komist að rótum vandans og hann er því áfram til staðar.
Sú leið að ræða við nemandann og finna út með honum hvað veldur þeirri hegðun sem hann sýnir og vinna að því með nemandanum að finna lausnir sem hjálpa honum í þeim aðstæðum sem hann bregst við með óæskilegri hegðun skila árangri til lengri tíma og gerir nemendur færa um að taka ábyrgð á eigin hegðun. Nemendur valdeflast með því að taka þátt í að finna leiðir sem hjálpa þeim til að lágmarka þann skaða sem þeirra hegðunarvandkvæði geta skapað í þeirra lífi. Sá vandi getur í einhverjum tilvikum átt sér líffræðilegar skýringar og þegar verið er að gera kröfur á þessa nemendur er í einhverjum tilvikum verið að fara fram á að þessi börn geri eitthvað sem þau í raun ráða ekki við.
Í greininni er bent á að þær aðferðir sem hafa verið notaðar skila ekki árangri þegar til lengri tíma er litið, börn sem oft eru send til skólastjórans eða er vikið úr skóla komast frekar í kast við lögin seinna á lífsleiðinni en þau sem ekki eiga þá sögu á sinni skólagöngu:
„In a 2011 study that tracked nearly 1 million schoolchildren over six years, researchers at Texas A&M University found that kids suspended or expelled for minor offenses—from small-time scuffles to using phones or making out—were three times as likely as their peers to have contact with the juvenile justice system within a year of the punishment. (Black kids were 31 percent more likely than white or Latino kids to be punished for similar rule violations.) Kids with diagnosed behavior problems such as oppositional defiant disorder (ODD), attention-deficit/hyperactivity disorder (ADHD), and reactive attachment disorder—in which very young children, often as a result of trauma, are unable to relate appropriately to others—were the most likely to be disciplined.“
Algengar aðferðir sem notaðar eru af mörgum innan skólakerfisins hjálpa ekki börnum með þann vanda sem þau glíma við og því hlýtur að vera þess virði að breyta um nálgun og reyna að vinna að því að finna leiðir sem hjálpa börnum til langframa.
Green er ekki sá eini sem sem skilur mikilvægi þessa, t.d. eru Glasser og Gordon á svipuðum slóðum í sínum hugmyndum um mikilvægi þess að skilja og setja sig í spor nemenda til að byggja þá upp en ekki brjóta niður.
EK