Hugsum skólann upp á nýtt, segir Ken Robinson

EinkunnirÍ liðinni viku lauk skólaárinu og nemendur komu heim með einkunnirnar sínar. Sumir telja sjálfsagt að einkunnirnar mættu  vera hærri og kannski eru einhverjir sem kenna kennaranum um og telja sökina fyrst og fremst hans. Flestar rannsóknir hafa þó sýnt að það er ekki bara kennarinn sem hefur áhrif á það hvort nemendur ná árangri í námi  eða ekki, því áhugi nemenda, efnahagur þeirra, félagsstaða, aðstæður á heimilinu, álag vegna prófa og námsmats er meðal þess sem einnig getur haft mikil áhrif á námsárangur nemenda. Þetta er staðreynd sem ekki er hægt að líta framhjá segir Ken Robinsson (2015).  Ef markmiðið er að auka námsárangur nemenda þarf að taka alla þessa þætti með í reikninginn. Alltaf eru samt dæmi um skóla eða einstaka kennara sem hafa einir og sér náð ótrúlegum árangri þrátt fyrir að heildarmyndin styðji ekki við það. Nærtækt er að nefna skólana sem Linda Cliatt-Wayman segir frá í myndbandi hér í Krítinni og hver man ekki eftir kvikmyndinni „To sir, with love“ þar sem Sidney Poitier lék kennarann sem breytti lífi unglinga sem höfðu algerlega afskrifað skólann og sig sjálf?  Stundum er það líka þannig að lélegan árangur nemenda er fyrst og fremst hægt að skýra með aðstæðum í skólanum og lélegri kennslu. Reynslan og rannsóknir hafa nefnilega ítrekað sýnt að það sem hefur úrslitaáhrif á námsárangur er áhugi nemendanna og væntingar þeirra sjálfra og vísasta leiðin til að stuðla að áhuga og væntingum þeirra er að auka gæði kennslunnar, vera með öfluga og fjölbreytta  námsskrá og styðjandi og upplýsandi námsmat (Robinson, 2015).

En erum við e.t.v. of upptekin af prófum og einkunum? Höfum við jafnvel látið teyma okkur í átt að þeirri hugsun að menntun sé takmörkuð auðlind sem nemendur þurfa að bítast um? Að alvöru nám og menntun sé alltaf mælanleg og að allir nemendur skuli vegnir og metnir með sömu tækjunum? Er maðurinn virkilega svona einföld og sjálflæg vera?  Í nýjustu bók sinni Creative Schools, The Grassroots Revolution That´s Transforming Education varar Robinson (2015) mjög við aukinni áherslu á próf og staðla og telur þær villa um fyrir okkur svo við töpum sýninni á það sem raunverulega skiptir máli í menntun barna. Allsstaðar í heiminum hrannast upp sannanir fyrir því að þessar áherslur auka vandann í stað þess að leysa hann. Staðreyndin er sú að börnin okkar og samfélagið hafa þörf fyrir allt annarskonar menntun en þá sem áhersla hefur verið á að mæla. Til þess að við skiljum í hverju sú menntun ætti að felast þurfum við að fara aftur á byrjunarreit og svara grundvallarspurningunni:  Hver er tilgangur menntunar, segir Robinson (2015).

Sir Ken Robinson er líklega kunnastur fyrir myndband sitt sem margir hafa séð á TED „Do schools kill cratiwity?“ sem hann flutti 2006 . Ekkert efni á TED hefur fengið jafn mikið áhorf eða yfir þrjátíu milljón skipti. Kjarninn í því erindi er sá að við fæðumst öll með allskonar hæfileika en þegar við erum komin í gegnum skólakerfið hafa allt of mörg okkar tapað tengslunum við þessa hæfileika. Margir hæfileikaríkir og gáfaðir einstaklingar, telja sig ekki vera það vegna þess að hæfileikar þeirra og greind var lítils eða einskis metin í skólanum. Afleiðingarnar eru ekki aðeins slæmar fyrir viðkomandi einstaklinga heldur fyrir samfélagið allt (Robinson, 2015).

NKC

Heimild.

Robinson. K. (2015). Creative Schools, The Grassroots Revolution That´s Transforming Education. New York; Viking Penguin.

One response to “Hugsum skólann upp á nýtt, segir Ken Robinson

  1. Bakvísun: Átta hæfniþættir sem námsskráin ætti að byggja á að mati Ken Robinson | Krítin·

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s