Í samskiptum kennara og nemenda er alltaf mikilvægt að kennarinn hugi að því hvernig hann kemur fram við nemendur, hvað hann segir og hvernig hann segir það. Bæði orð kennarans og líkamstjáning gefur nemendum ákveðin skilaboð. Hugmyndir kennarans um það hvernig nemendur læra best hafa einnig áhrif á það hvernig kennarinn bregst við nemendum í kennslustofunni.
Í bókinni 21. Century discipline- teaching students responsibility and self control ( 1988) segir Jane Bluestein frá ýmsum atriðum sem skipta máli í samskiptun kennara og nemenda. Meðal annars lýsir hún þremur ólíkum aðferðum sem kennarar beita til að halda nemendum á sínu bandi, í skefjum, við efnið eða hvaða orð maður vill nota um bekkjarstjórnun.
Valdbeiting.
Kennarinn er alltaf við stjórnvölinn og nemandinn hefur lítil sem engin áhrif eða völd. Allar ákvarðanir eru teknar á forsendum kennarans, hann er ósveigjanlegur og ætlast til að allir hlýði sér möglunarlaust. Þeim kennurum sem nota þessa aðferð hættir til að tengja saman frammistöðu og persónu nemandans og hegðun þeirra grundvallast á þeirri hugmynd að nemendur geri ekkert nema þeim sér þröngvað til þess. Þessir kennarar einblína oft meira á það sem nemandinn getur ekki.
Hugmyndir þessara kennara eru þær að þeir ráði og því eigi nemendur að gera það sem þeim er sagt. Þeir telja sig vita best hvað nemendum er fyrir bestu, þeirra eigin þarfir eru þeim mikilvægari en þarfir nemendanna sem þeira virða ekki.
Dæmi um orðalag sem kennarar sem velja að fara valdbeitingarleiðina nota:
- Af því ég segi það
- Sestu undireins
- Ég sagði þér að fara að vinna
- Ef þú gerir ekki eins og ég segi muntu hljóta verra af.
Kostir þessarar aðferðar eru þeir að mati Bluestein að þær eru studdar af hefðinni, kennarinn upplifir sig við stjórnvölinn, fær sínum þörfum fullnægt og þær virka vel á nemendur sem virða yfirvald og óttast refsingu.
Ókostir hennar eru mun fleiri að mati Bluestein t.d. þeir að þessar aðferðir ala upp kúgaða nemendur sem verða háðir kennaranum sínum og gera aðeins það sem kennarinn vill. Nemendur fara að leggja áherslu á að hafa kennarann ánægðan og leggja sig fram þess vegna en þeir helga sig ekki námi sínu vegna innri áhugahvatar. Kennarar sem nota þessa aðferð kenna nemendum ekki að taka sjálfstæðar ákvarðanir né að sýna sjálfstæða og ábyrga hegðun. Aðferðin kennir nemendum að nota vald til að fá sínu framgengt og er ekki góð fyrirmynd varðandi málamiðlanir, samningaviðræður, samvinnu né virðingu fyrir þörfum annarra.
Linkind
Þessari aðferð beita þeir kennarar oft sem vilja ekki stjórna með valdbeitingu. Kennari sem beitir þessari aðferð trúir því að ef nemendum þykir nógu vænt um hann geri þeir það fyrir hann sem hann telur mikilvægt að þeir geri. Þessir kennarar gefa oft óljós skilaboð, jaðrar stundum við að þeir ætlist til að nemendur geti lesið hugsanir þeirra. Þeir taka oft ákvarðanir sem þeir standa ekki við, mörk þeirra sveiflast til, þeir eru stundum þolinmóðir og stundum ekki, þeir umbuna nemendum ómarkvisst og ekki er samræmi í viðbrögðum þeirra við hegðun nemenda. Kennarar sem vinna svona taka yfirleitt ekki ábyrgð á eigin þörfum og stjórna nemendum með því að ásaka þá, með sjálfsvorkunn, gera sig að píslarvottum, nota háð, og væla og tuða í nemendum. Kennarar af þessu tagi hrósa nemendum helst þegar þeir gera eitthvað til að gleðja kennarann.
Hugmyndir þessara kennara byggja á því að þarfir nemenda séu mikilvægari en þarfir þeirra og það að fá utanaðkomandi samþykki er mikilvægara en það að sinna sjálfum sér.
Dæmi um orðalag sem kennarar sem velja að fara leið linkindarinnar nota:
- Ég er svo þreytt á að taka til eftir ykkur krakkar
- Sjáið hvað ég hef unnið mikið
- Þið hafið það svo náðugt
- Enginn metur allt það sem ég geri
Bluestein tiltekur kosti þessarar aðferðar og nefnir þar að mögulega uppfyllir þessi aðferðir þarfir kennarans og að hennar mati er þessi aðferð áhrifaríkust gagnvart börnum sem láta sektarkennd hafa áhrif á gjörðir sínar og hræðslu við að vera yfirgefin eða þurfa á því að halda að kennarinn samþykki þau.
Ókostir þessarar aðferðar eru margir að mati Bluestein og sem dæmi nefnir hún að þessi leið ýti undir hlýðni, nemendur verða háðir kennaranum sínum og þurfa á ytra samþykki að halda. Þetta getur skapað óöryggi hjá nemendum, þessi leið kennir nemendum ekki að taka ákvarðanir fyrir sig en hún kennir nemendum að nota fórnarlambshlutverkið til að fá sínu framgengt og er ekki góð fyrirmynd varðandi málamiðlanir, samningaviðræður, samvinnu né virðingu fyrir þörfum annarra.
Samstarf
Kennari sem fer þessa leið á opin og heiðarleg samskipti við nemendur, hann ætlast til ákveðinnar hegðunar af nemendum og nemendur vita hver hún er. Kennari af þessu tagi leitar eftir skoðunum nemenda og gerir þeim ljóst hvar þeir geta haft áhrif og hvar ekki. Þeir einblína á styrkleika nemenda og meta það sem er jákvætt út frá nemandum en ekki útfrá þörfum kennarans. Þessir kennarar gefa nemendum tækifæri til að læra af mistökum sínum og ásaka þá ekki ef þeir gera mistök, heldur líta á þau sem lærdómstækifæri fyrir nemendur. Kennarar sem fara þessa leið eru samkvæmari sjálfum sér en kennararnir sem fara hinar tvær leiðirnar. Nemendur hafa val innan ákveðinna marka og læra að bera ábyrgð á eigin vali. Grundvallarskoðun þessara kennara er sú að þó þeir geti ekki alltaf komið til móts við nemendur sína þá eru þeirra þarfir jafn mikilvægar og þarfir kennaranna. Reglur og takmarkanir á því sem má byggjast á þörfum hópsins en ekki þörfum kennarans.
Hugmyndir þessara kennara byggja á því að þarfir nemenda og kennara séu mikilvægar og að báðir geti náð því fram sem þeir þurfa án þess að annar aðilinn tapi.
Dæmi um orðalag sem kennarar sem velja að fara samstarfsleiðina nota:
- Ég skal halda áfram að lesa um leið og það verður hljótt á ný
- Ég þarf á því að halda að þið vinnið sjálfstætt í smástund svo ég geti sinnt þessum hópi
- Leitt að heyra að þú gleymdir bókinni. Hvernig ætlarðu að vinna í þessum tíma?
- Þú getur valið einhver 10 viðfangsefni af þessari blaðsíðu
- Þú getur fengið sippubandið þitt aftur um leið og þið hafið komið ykkur saman um hvernig þið ætlið að skiptast á að nota það.
Kostir þessarar aðferðar að mati Blustein eru t.d. að þessi aðferð eflir ábyrgðarkennd nemenda og innri hvöt þeirra til að standa sig. Nemendur finna að hlustað er á þá og að vilji er til að koma til móts við þarfir þeirra og því dregur úr löngun þeirra til að vera með mótstöðu. Kennir nemendum að taka ákvarðanir fyrir sig og taka afleiðingum eigin ákvarðanna.
Ókostir þessarar aðferðar eru þeir að ávinningur kemur oft ekki fram fyrr en seint, þetta er ekki fljótvirkt en virkar samt oft lengur en fljótvirku aðferðirnar. Getur virkað sem linkind á fólk sem telur valdbeitingu einu leiðina til að halda nemendum á mottunni.
Það hlýtur að vera hollt fyrir kennara að velta fyrir sér hvar þeir standa gagnvart þessum leiðum. Hvað einkennir þín samskipti við nemendur, beitir þú valdi, ertu linkind eða hefurðu samstarf við nemendur? Valdir þú meðvitað að það sem einkennir þig, einkenni þig, eða gerðist það bara óvart?
Að mínu mati blasir við að aðferð samstarfs hlýtur að koma bæði kennurum og nemendum best, ég veit samt að mér tókst ekki alltaf að beita henni.
EK