Pak Tee Ng vakti mikla athygli með erindum sínum á alþjóðlegri ráðstefnu uLead um menntamál sem haldin var í Banff í Alberta í síðustu viku. Lifandi og leikrænir tilburðir hans héldu athygli 850 þátttakenda óskertri og salurinn hristist af hlátri. Því miður verður því ekki komið til skila hér í Krítinni hvernig Pak Tee Ng leikur vélmenni eða matreiðslumann en öðru máli gegnir um skilaboðin: Kenna minna, læra meira.
Pak Tee Ng starfar núna sem kennari við kennaradeild háksólans í Singapore, sem er eins og allir vita á toppnum í niðurstöðum Pisa könnunarinnar. Pak Tee Ning fullyrðir þó að það sé alls ekki markmið menntayfirvalda í Singapore að skora hátt á Pisa heldur fyrst og fremst að tryggja að öll börn í landinu fái eins góða menntun og kostur er og það er ekki spurningin um að kenna þeim meira og meira heldur að finna leiðir til að vekja áhuga þeirra á námi. Þess vegna eru kennarar þar í landi nú hvattir til að ígrunda mikilvægar spurningar varðandi nám eins og hvers vegna, hvernig og hvað?
Áherslan ef farin af magninu yfir á gæðin og gengið úr skugga um að nemendur séu í rauninni að læra. Þannig nægir ekki að koma með svarið við dæminu heldur þarf nemandinn að sýna fram á að hann skilji raunverulega það sem hann er að gera. Þjálfun er ekki röng, segir hann, hún er mikilvæg, en ef námið byggir fyrst og fremst á þjálfun, þá er það rangt.
Að hans mati eyðileggur skólinn oft börn af því að hann virðir ekki eðlislæga eiginleika þeirra eins og forvitni, hugmyndaauðgi og uppfinningasemi. Börn þurfa ekkert að fara í sérstaka leiklistarklúbba til að leika og túlka þeim er það í blóð borið og þau eiga að fá að njóta þessa í námi sínu. Pak Tee Ng nefndi dæmi um 8 ára börn sem fá það verkefni að endurhanna ísskáp, eftir að þau hafa verið frædd um eðlismun heits og kalds lofts. Öfugt við fullorðna hamla raunhugsanir ekki börnum þau eru órög við að prófa allt, ísskáparnir verða sívalningar, kúlur, gegnsæir, með pedala neðst svo hægt sé að opna hann með báðar hendur fullar o.s.frv. Nemendur vinna saman í hópum og þurfa að átta sig á því hvernig eðlisfræði hita nýtist þeim best í hönnuninni, þau þurfa að rökræða fagurfræði og notagildi og reyna að finna lausnir. Að lokum kynnir hver hópur hugmynd sína fyrir hinum, tekur við athugasemdum og svarar spurningum.
Með þessari kennslufræði læra börnin miklu meira en þegar kennarinn er eins og matreiðslumaður sem eldar sömu kássuna ofan í allan bekkinn og matar svo hvern og einn nemanda, matar, matar og matar. Ef einhver vill eða getur ekki borð kássuna þá treður matreiðslumaðurinn bara af enn meira offorsi því þetta skal niður með illu eða góðu. Enginn læknir lætur alla sína sjúklinga fá sömu meðferð, segir Par Tee Ng, það á heldur enginn kennari að gera ráð fyrir að öllum nemendum hans henti sama aðferð við nám.
Líkt og aðrir fyrirlesarar uLead ráðstefnunnar telur Pak Tee Ng að áherslan eigi að fara af kennslunni yfir á námið, frá kennaranum á nemandann. Það er að hans mati mikilvægara að skilja hvernig hvert og eitt barn lærir heldur en að skilja hvernig á að kenna. Fagmennska kennara felst ekki í því að geta látið 30 nemendur sitja kyrra og þegja. Fagmennska kennara flest í því að hann veit hvernig nemendur læra og getur auk þess útskýrt það fyrir öðrum.
Kennarar þurfa að stjórnast af hugrekki í bland við visku segir Pak Tee Ng en umfram allt þarf kennari að búa yfir ástríku hjarta, því kærleikur til barna er það sem skiptir mestu máli og góður kennari lætur engan nemenda frá sér fara öðru vísi en að vera viss um að hann hafi skilið.
Hér má sjá og hlýða á Pak Tee Ng á Youtube
NKC