Rannsóknir sýna að það að lesa fyrir ung börn er einn af þeim þáttum sem býr þau hvað best undir formlegt lestrarnám fyrir utan að auka orðaforða þeirra, víðsýni og kenna þeim að setja sig í annarra spor. Það að lesa góða bók fyrir barnið sitt sem hæfir þroska þess og áhuga er einnig gæðastund foreldris og barns.
Rannsóknir sýna jafnframt að foreldrar eru börnum sínum fyrirmyndir um lestrarhegðun. Ef börn sjá foreldra sína lesa bækur, tímarit og dagblöð eru þau mun líklegri til að hafa ánægju af lestri sjálf og velja yndislestur sem afþreyingu. Feður gegna hér sérstaklega mikilvægu hlutverki.
Við Íslendingar tölum oft um okkur sem bókaþjóð og stærum okkur af því að læsi sé hvergi hærra í veröldinni. Hins vegar hafa margar rannsóknir undanfarinna ára sýnt að börn og unglingar lesi minna en áður af hefðbundnu lesefni; bókum, tímaritum og dagblöðum en lesi e.t.v. þeim mun meira af rafrænum texta, sms-skilaboðum í skeytastíl og annað rafrænt efni. Sem betur fer hafa augu margra opnast fyrir því að bóklestur er í harðri samkeppni við aðra afþreyingu um tíma barna og unglinga. Ef bóklestur á að vera valinn umfram aðra miðla þarf hann að bjóða upp á eitthvað eftirsóknarverðara. Börn vilja lesa um eitthvað sem þau hafa áhuga á. Því er mikilvægt að hvetja þau til lestrar með því að hjálpa þeim að velja lesefni sem höfðar til áhugasviðs þeirra og þroska. Það eru til fjölmargar bækur um fótbolta, risaeðlur, sjóræningja og skrímsli, dýr, álfa og huldufólk, prinsa og prinsessur, nú eða börn sem lenda í ýmis konar ævintýrum.
Niðurstöður Pisa rannsóknarinnar meðal 15 ára unglinga frá 2009 sýnir að þeir sem lesa eitthvað sér til ánægju á hverjum degi sýna mun betri lesskilning og árangur í rannsókninni heldur en þeir sem ekkert lesa. Knattspyrnumennirnir fræknu, Gylfi Þór Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson, gengu til liðs við verkefnið Bókaðu þig til að taka þátt í að hvetja krakka til að lesa á hverjum degi. Á Barnamenningarhátíð í Reykjavík vorið 2012 stóðu Borgarbókasafn Reykjavíkur og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO að bókamessu fyrir ungt fólk undir yfirskriftinni „Að leggjast í sortir“. Af því tilefni voru tekin upp viðtöl á léttum nótum við nokkra þjóðþekkta einstaklinga um viðhorf þeirra til lesturs og þeir m.a. spurðir hvaða persóna í bók þeir vildu vera . Þessi viðtöl má gjarnan nota til að vekja áhuga barna og unglinga á lestri góðra bóka.
Um daginn rakst ég á grein í Teacher-network á vegum dagblaðsins The Guardian þar sem kennari var að miðla til annarra lista áhugaverðar bækur sem hann hefði lesið með nemendum sínum og höfðu vakið áhuga þeirra á lestri. Þeir kennarar sem svöruðu komu líka með ábendingar um fleiri bækur sem þeir höfðu lesið og unnið með til að vekja áhuga nemenda á bókmenntum og lestri. Þá datt mér í hug hvort að íslenskir kennarar gætu ekki gert það sama og sett upp síðu t.d. á Facebook þar sem þeir mæltu með góðum bókum sem vekja áhuga barna og unglinga á lestri.
Nú er aðeins tæp vika til jóla. Margir tengja jólin við lestur góðra bóka. Af magni auglýsinga í fjölmiðlum má ætla að bækur rati í marga jólapakka í ár. Enda er af nógu að taka. Um 70 titlar eru skráðir í Bókatíðindi 2012 sem íslenskar barnabækur. Sem betur fer er eitthvað líka ef endurútgefnu efni eins og bók Sigrúnar Eldjárn um geimveruna B2 sem kemur til jarðarinnar til að læra að lesa. Þýddu bækurnar eru mun fleiri eða yfir 100 titlar. Þar á meðal er hin sígilda Þytur í laufi (Wind in the Willows) eftir Kenneth Grahame sem ekki hefur áður verið þýdd í heild á íslensku. Á listanum eru líka bækur um Einar Áskel, Mary Poppins, Múmínálfinn, Bert og Strumpana svo að flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Benda má á að Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur, hefur gefið grunnskólanemum aðgang í eitt ár að rafrænni útgáfu af nokkrum bókum sínum sem er að finna á http://www.emma.is/. Jafnframt var efnt til samkeppni meðal barna og unglinga um nýjar bókakápur fyrir rafrænu útgáfuna.
Þegar er búið að velja handhafa Íslensku barnabókaverðlaunanna í ár en það er bókin Hrafnsauga eftir tvo unga rithöfunda, Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson. Höfundarnir segja bókina vera fantasíu sem gerist í íslensku fortíðarumhverfi en að sögn vildu þeir ekki gera eftirhermu af ensku módeli. Þetta er vissulega virðingarvert og öðrum rithöfundum til eftirbreytni. Starfsfólk bókaverslana tilnefnir bækur til eigin verðlauna og má sjá hvaða bókum sá hópur mælir með hér
Borgarbókasafnið býður upp á margs konar möguleika á að efla lestraráhuga barna og unglinga á ýmsum aldri. Þar eru sérstakar barna- og unglingadeildir með bókum, tímaritum fyrir börn og unglinga o.fl. Börn og unglingar að 18 ára aldri frá ókeypis skírteini á safninu og geta fengið lánað allt að 15 gögn í einu. Safnið býður upp á margs konar viðburði fyrir fjölskyldur og eru þeir allir ókeypis . Býður einhver betur?
Gleðileg bókajól!
Guðrún Edda Bengtsdóttir