Sjálfsagi, er einn þeirra fimm þátta sem Goleman (2000) nefnir sem nauðsynlegan þeim sem vilja takast á við líf sitt og starf sem leiðtogar.
Sjálfsagi, sem einnig má kalla sjálfstjórn, hjálpar fólki til að taka skref í átt að markmiðum sínum og fylgja eftir þeirri stefnu sem það hefur sett sér. Þeir sem búa yfir sjálfsaga eiga auðveldara með að setja sér markmið og vinna markvisst að þeim. Sjálfsagi er mikilvægur í í samskiptum því þeir sem búa yfir honum eiga auðveldarar með að hafa hemil á skapsmunum sínum. Það er bæði mikilvægt fyrir kennara og nemendur að temja sér sjálfsaga. Steinunn Gestsdótir birti hér á Krítinni pistil um sjálfstórn barna og unglinga. Hér ætla ég að fjalla lítillega um sjálfsaga eða sjálfstjórn kennara.
Kennarar þurfa að geta sett sér markmið með vinnu sinni og tekið nauðsynleg skref til að ná þeim. Kennarar þurfa að geta fylgt eftir áætlunum sínum sem eiga að leiða til þess að nám nemenda verði innihaldsríkt og þeim til framdráttar.
Sjálfstjórn er kennurum einnig mikilvæg svo þeir geti haft hemil á skapsveiflum í samskiptum við nemendur, foreldra og samstarfsfólk. Kennarinn sem þroskaðasti aðilinn í skólastofunni er ábyrgur fyrir því hvernig samskipti nemenda eru og hann verður að geta skipulagt athafnir sem vekja ekki andúð heldur virkja nemendur. Til að kennarar ráði við þetta þurfa þeir að geta stjórnað tilfinningum sínum og beint þeim í þann farveg sem er uppbyggilegur fyrir nemendur.
Það eru eflaust flestir sammála því að kennari sem æpir á nemendur hefur misst tökin á því sem honum er ætlað að gera. Það sama á við um kennara sem notar háð og niðurlægingu til að fá vilja sínum framgengt. En þetta eru þær aðferðir sem hætt er við að kennarar, sem eiga erfitt með að stjórna skapsmunum sínum eða skynja ekki ábyrgð sína, grípa oft til. Þessar aðferðir brjóta í bága við siðareglur KÍ en þar er m.a. tekið fram að kennarar eigi að efla sjálfsmynd nemenda og sýna þeim virðingu, áhuga og umhyggju.
Það er gríðarmikið í húfi, því ómarkviss hegðun kennara hefur ekki einungis áhrif á þann nemenda sem fyrir henni verður, heldur smita áhrif orða og athafna kennara til annarra nemenda og framkoma kennarans gagnvart einstaka nemendum getur gefið öðrum nemendum leyfi til að koma illa fram við þá. Þannig getur kennari sem talar óvarlega eða skeytir skapi sínu á nemendum ýtt undir einelti.
Kennari sem vill vera leiðtogi í starfi starfi sínu er meðvitaður um ábyrgð sína, setur sér markmið með framkomu sinni og veit hverju hann vill ná fram með nemendum sínum. Hann leitar ekki utanaðkomandi skýringa á vandamálum heldur vinnu markvisst að því að aga sig, til að ná sem mestum árangri með orðum sínum og athöfnum. Leiðtogi veit að hann getur gert mistök en ásakar sig ekki fyrir þau heldur axlar ábyrgð á þeim og reynir að gera betur næst.
Kennari sem upplifir sig sem leiksopp aðstæðna réttlætir eigin skapsveiflur með athöfnum annarra s.s. hegðum nemenda sinna, slæmu uppeldi foreldra, aðrir fari ekki eftir reglunum eða lélegri stjórnun skólastjóra svo eiithvað sé nefnt. Honum finnst hann áhrifalaus og fastur í aðstæðum sem hann fær ekki breytt. Leiksoppi finnst hann hafa rétt til að skeyta skapi sínu á illa uppöldum krökkum sem aldrei er tekið á í skólanum. Hann skynjar ekki að hans eigin athafnir hafa áhrif, heldur telur hann að allir aðrir hafi brugðist og hann fái ekki rönd við reist.
Ég held því fram að með því að efla sjálfsaga sinn og sjálfsþekkingu hafi kennarar val um hvorum hópnum þeir tilheyra.
EK
Heimild
Goleman, D. (2000).Tilfinningagreind. Iðunn. Reykjavík.