Sjálfstjórnun barna og unglinga: undirstöðufærni fyrir farsælt gengi í skóla

Sjálfstjórnun (e. self-regulation) er yfirgripsmikið hugtak sem vísar til getu fólks til að stjórna eigin tilfinningum, hugsun og hegðun. Nánar tiltekið vísar sjálfstjórnun til hæfni fólks til að stjórna, breyta eða halda aftur af eigin hugsun, tilfinningum eða hegðun í samræmi við reglur, viðmið, markmið og áætlanir, ýmist meðvitað eða ómeðvitað. Eins og af þessari skilgreiningu má ráða vísar sjálfstjórnun til margvíslegrar hegðunar, allt frá barni sem heldur aftur af löngun til að lemja frá sér þegar á því er brotið til unglings sem beinir athygli að krefjandi verkefni í háværum bekk. Sjálfstjórnun barna og ungmenna er ört vaxandi fræðasvið og hafa niðurstöður nýlegra rannsókna þegar haft töluverð áhrif á skólastarf og stefnumótun í Bandaríkjunum og Evrópu.

Í starfi mínu sem háskólakennari hef ég furðað mig á því hversu fræðileg umræða um sjálfstjórnun barna og ungmenna er stutt á veg komin hér á landi. Mín reynsla er sú að kennarar á Íslandi séu iðulega að takast á við (og ræða) mál sem tengjast sjálfstjórnun nemenda, allt frá leikskólakennurum sem leita leiða til að börn sitji kyrr við matarborðið til grunnskólakennara sem styðja nemendur í að halda námsáætlun, en í slíkri umræðu er hugtak sjálfstjórnun, sjaldan notað. Ég hef trú á að sameiginlegur skilningur og orðanotkun starfsfólks á vettvangi og fræðimanna myndi auðvelda umræður um þessa færni. Einnig vekur athygli að umfjöllun um sjálfstjórnun hér á landi snýr oft að vanda fólks við að beina og halda athygli (til dæmis vegna athyglisbrests). Þótt það sé mikilvægt viðfangsefni kalla ég eftir aukinni umfjöllun um gildi sjálfstjórnunar fyrir þroska allra barna, ekki bara þeirra sem eiga við vanda að stríða. Að lokum bendi ég á að rannsóknir á sjálfstjórnun eru afar stutt á veg komnar á Íslandi. Þrátt fyrir að ég kalli eftir aukinni umræðu og rannsóknum á þessu sviði finn ég ítrekað fyrir miklum áhuga háskólanema, samrannsakenda og starfsfólks á vettvangi á þessari mikilvægu færni og mun hér stuttlega kynna þetta hugtak og rannsóknir því tengdar.

Sjálfstjórnun tekur gífurlegum breytingum með aldri, ekki síst á fyrstu árum ævinnar, sem má rekja að hluta til þroska í framennisberki heilans. Á fyrstu mánuðum lífsins hafa börn takmarkaða stjórn á líkamlegum, tilfinningalegum og hugrænum ferlum. Sem dæmi má nefna að þegar ungabarn grætur kemur það í hlut foreldranna að róa barnið, til dæmis með því að strjúka því eða vagga. Með þeim hætti hjálpa foreldrarnir barninu að ná tökum á vanlíðan sinni. Nokkrum mánuðum síðar eru börn orðin mun færari í að stjórna tilfinningum og hegðun á eigin spýtur, til dæmis geta þau fitlað við hár sitt eða stungið upp í sig snuði til að róa sig. Börn halda áfram að taka miklum framförum í sjálfstjórnun á fyrsta árinu og á leikskólaaldri. Það þekkja flestir hversu vel börnum gengur að stjórna tilfinningum (t.d. biðja um leikfang í stað þess að taka það af öðru barni) eða athygli (t.d. hlusta á langa sögu án þess að truflast að öðru áreiti) í lok leikskólagöngu miðað við upphaf hennar. Því má segja að mörg af meginviðfangsefnum barna á leikskólaaldri felist einmitt í að læra að stjórna eigin tilfinningum, hugsun og hegðun. Rannsóknir í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu hafa sýnt fram á að því betur sem börnum gengur að tileinka sér sjálfstjórnunarfærni á leikskólaaldri því betur gengur þeim að aðlagast grunnskólanum. Það virðist ekki síst mega rekja til þess að þegar barn á auðvelt með að beina athygli (að námsefni eða kennara og frá truflunum), halda aftur af viðbragði (til dæmis að grípa fram í) og stjórna tilfinningum, getur barnið betur nýtt sér námsumhverfið og gengur betur í námi.

Sjálfstjórnunarfærni heldur áfram að vaxa á grunnskóla- og unglingsaldri. Þrátt fyrir að rannsóknir á sjálfstjórnun ungmenna séu mun styttra á veg komnar en rannsóknir meðal yngri barna virðist ungt fólk taka miklum framförum í sjálfstjórnun. Ein megin breytingin felst í öflugri hugrænni getu sem gerir það að verkum að ungmenni geta skipulagt (stjórnað) hugsun og hegðun með mun flóknari hætti en áður og til lengri tíma litið. Þessar framfarir má einnig rekja að hluta til heilaþroska. Framfarir í sjálfstjórnun gerir ungmennum kleift að setja sér langtímamarkmið, leita flókinna leiða til að ná þeim markmiðum, fylgjast með hvort þau séu að vinna að markmiði í samræmi við áætlun og bregðast við ef svo er ekki. Rannsóknir hafa tengt betri sjálfstjórnunarfærni á unglingsárum við ýmis konar æskilega hegðun, ekki síst gott gengi í skóla. Það má sjálfsagt rekja meðal annars til þess að sjálfstjórnun skipir sérlega miklu máli þegar kemur að heimanámi (þegar stuðningur kennara er lítill), sem eykst jú eftir því sem á líður skólagöngu. Einnig má benda á að unglingar sem hafa til að bera góða sjálfstjórnun eru ólíklegri til að taka þátt í ýmis konar áhættuhegðun, svo sem óábyrgu kynlífi. Það virðist mega rekja til þess að sjálfstjórnunarfærni gerir unglingum auðveldara að sjá fyrir afleiðingar hættulegrar hegðunar og leita leiða til að sneiða hjá henni.

Ég verð stundum vör við að fólk telur að með því að stuðla að aukinni sjálfstjórn sé vegið að sjálfstæði eða sjálfræði barna og ungmenna, þ.e. að ætlunin sé að þau hlýði fyrirmælum fullorðinna skilyrðis- og hugsanalaus. Því fer fjarri. Það er vissulega rétt að lögð er áhersla á að ung börn læri að fara eftir reglum. En í þeim uppeldis -og kennsluaðferðum sem ég þekki til er lögð áhersla á að börn og unglingar skilji að reglurnar séu til þess gerðar að þeim og fólkinu í kringum þau geti liðið sem best, líkt og þegar leikskólabarni er kennt að hafa ekki svo hátt að það trufli aðra eða unglingi er kennt að gera áætlanir sem hjálpa honum að ná langtímamarkmiði sínu í námi. Á svipaðan hátt eru hugtökin sjálfsagi og sjálfstjórnun stundum notuð jöfnum höndum. Meðal fræðimanna er oft litið svo á að sjálfsagi sé einn undirþáttur sjálfstjórnunar. Þegar fólk stjórnar eigin tilfinningum, hugsun eða hegðun, kemur sjálfsagi vissulega við sögu. Fólk þarf til dæmis sjálfsaga til að halda aftur af reiði eða halda athygli við krefjandi verkefni. Líta má svo á að sjálfsagi sé undanfari flóknari sjálfstjórnunar. Sem dæmi má nefna að ungt barn þarf að læra að geta haldið aftur af gráti og notað frekar orð til að láta í ljós hvað það vill. Slík grundvallarstjórnun er forsenda þess að barn geti tamið sér flóknari stjórnun eins og þeirri sem fólk öðlast á unglingsárum og lýst var hér að ofan – það er til dæmis erfitt að halda sér að krefjandi langtímaáætlun ef viðkomandi á erfitt með grundvallarstjórnun eins og að beina athygli eða koma í veg fyrir sífellda árekstra við aðra. Með þessum hætti gerir sjálfstjórnun fólki kleift að ráða yfir eigin hegðun og ná sínum eigin markmiðum fremur en að stjórnast af ósjálfráðum viðbrögðum við þeim aðstæðum sem það er í hverju sinni.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér hugtakið sjálfstjórnun nánar, rannsóknir á þessari færni og tengdar kennsluaðferðir, bendi ég á grein mína sem birtist í hausthefti Uppeldis og menntunar 2012. Einnig má hafa samband við Steinunni beint, upplýsingar eru á heimasíðu hennar, sjá hér fyrir neðan.

Steinunn Gestsdóttir, dósent í þroskasálfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

 

One response to “Sjálfstjórnun barna og unglinga: undirstöðufærni fyrir farsælt gengi í skóla

  1. Bakvísun: Sterkur sjálfsagi er nauðsynlegur eiginleiki kennara | Krítin·

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s