Þegar fyrst var farið að bjóða nemendum upp á hádegisverð í grunnskólum hófst víða nýr kafli í samskiptum foreldra og skóla. Í skóla sem ég þekkti til skapaðist á þessum tíma ástand sem líkja mátti við valdabaráttu starfsmanna og foreldra. Húsnæði skólans var ekki til þess gert að matreiða og fæða á fjórða hundrað nemenda svo foreldrarnir lögðu til að maturinn yrði aðkeyptur, fluttur í skólann í kerjum sem kennarar myndu skammta úr á diska nemenda, sem áttu að borða í kennslustofnum sínum. Þetta þótti kennurunum vera hið mesta óráð og álitu það ekki samræmast starfslýsingum sínum að skammta mat. Auk þess töldu þeir óheppilegt að nýta kennslustofur til að matast í. Tillögu kennara um að nemendur fengju heldur samlokur og skyr var illa tekið af foreldrum m.a. með þeim rökum að börnin ættu rétt á að fá heitan mat auk þess sem það væri lágmark að skólinn kenndi nemendum sínum að borða með hníf og gaffli.
Það er ekki svo langt síðan þetta var og eftir því sem ég best veit fá nú öll börn hádegismat í skólum sínum og neyta hans með hníf og gaffli. Þrátt fyrir þetta heyrast með reglulegu millibili raddir foreldra sem eru ósáttir við þá næringu sem börn þeirra fá í skólum. Eftir því sem ég best fæ séð einskorðast óánægja foreldra með skólamáltíðir ekki við Ísland. Víða í nágrannalöndum okkar hafa skólaforeldrar sterkar skoðanir á matnum sem börn þeirra fá í skólanum, enda væri óeðlilegt ef foreldrum væri sama um næringu barna sinna. Maður les um foreldra sem berjast gegn því að skólar hafi svínakjöt á boðstólnum, þar sem það sé lítilsvirðing við múslimska nemendur. Ég hef líka heyrt af foreldrum sem vilja að skólamáltíðir séu eingöngu lífrænt grænmetisfæði. Svo sá ég í sjónvarpinu fyrir nokkru frétt um skólaforeldra sem stóðu fyrir sölu á frönskum og öðrum skyndibita utan við skólalóðir svo börnin þeirra gætu áfram fengið það fæði sem þau höfðu vanist, en átak hafði verið gert í skólanum um aukna hollustu skólamáltíða. Já, það getur verið erfitt að gera öllum til hæfis.
Það hefur verið bent á að nemendur neyti aðeins fimm máltíða á viku í skólanum, aðrar máltiðir fái þeir heima hjá sér, það séu því ekki skólamáltíðirnar sem skipti sköpum varðandi heilsu og heilbrigði bananna. Hvers vegna þá þessi mikli áhugi foreldra á skólamáltíðum? Jú, vissulega er almenn þekking og áhugi á næringarfræði orðin miklu almennari en áður en þar að auki má benda á aukna áherslu á rétt notenda til að hafa áhrif á umhverfi sitt og barna sinna það á m.a. við um foreldara og skólastarf.
Staðreyndin er sú að rík hefð er fyrir því að kennarar séu sérfræðingar í nánast öllu starfi skólans, þegar umræðan snýst um nám og kennslu eru kennarar almennt ofjarlar skólaforeldra. Annað er uppi á teningnum þegar kemur að skólamáltíðum, þar eru kennarar síst meiri sérfræðingar en foreldrarnir. Enda þótt menntaðir matreiðslumenn annist almennt skólamáltíðirnar þá eru þeir ný stétt í skólanum og hafa enn ekki öðlast sömu þekkingar- og valdastöðu og kennararnir.
Með skólamáltíðunum fengu foreldrar því sinn málaflokk, sinn vettvang sem er ólíklegt að þeir yfirgefi, nema því aðeins að við tökum upp starfshætti norskra skóla og látum nemendur taka með sér nesti að heiman til að borða í hádeginu.
NKC