Það sannaðist einu sinni sem oftar að glögg er gests augað þegar enskur skólamaður, sem var hér á ferðinni, ræddi upplifun sína af íslenskum skólum. „Þið eruð snillingar í að kenna list-og verkgreinar“, sagði hann með mikilli aðdáun, „ég vildi óska að nemendur heima hjá mér ættu kost á námi af þessum gæðum“. Svo lýsti hann því hvernig áhuginn og ánægjan hefði ljómað af andlitum nemendanna þar sem þeir unnu að skapandi verkefnum af öllum gerðum. Hann bætti því við að heima hjá honum væri ekki talið öruggt að láta nemendur hafa verkfæri í hendur sem þeir gætu hugsanlega meitt sig á svo það setti verknáminu þröngar skorður.
Af orðum enska skólamannsins mátti ráða að í þarlendum skólum sé nemenda svo vel gætt að þeir fá ekki einusinni að fara út í frímínútur ef snjóföl er á lóðinni, þar sem þeir gætu þá runnið til og meitt sig. En ef nemendur slasast við slíka byltu þá er skólinn skaðabótaskyldur. Af sömu ásæðum er nemendum haldið innan dyra í rigningu, þeir gætu nefnilega kvefast og þá er við skólann að sakast. Svo má bæta því við að þar í landi er kennurum auk þess bannað að snerta nemendur. Vonandi er langt í land með svo mikla ofverndunn hér heima. Höldum frekar áfram að kenna nemendum okkar að fara varlega, að þekkja réttindi sín og ábyrgð og klæða sig eftir veðri.
Enski skólamaðurinn heimsótti líka bóklega tíma sem hann hreyfst af, einkum var honum tíðrætt um góð samskipti kennara og nemenda. En hjá honum vöknuðu líka spurningar. Hvernig stendur á því að sú mikla sköpunargleði og frumleiki sem einkennir list- og verkgreinar er ekki til staðar í stærðfræðikennslunni, spurði hann. Hvernig stendur á því að í mörgum stærðfræðitímum er nemendum bara sagt að setjast við borðin sín, fletta upp á blaðsíðu 19 í bókinni og fara svo að reikna? Af hverju er einhver bók látin ráða ferðinni í stað námsmarkmiða og þeirrar faglegu færni sem augljóst er að kennararnir búa yfir? Í stærðfræðitímunum sagðist hann hafa saknað áhugans og gleðinnar í andlitum nemendanna sem væri ein megin forsenda námsins. Enski skólamaðurinn dró þá ályktun að of skörp skil væru á milli bóklegra greina og list-og verkgreina og hvatti okkur til að hugleiða meiri samþættingu. Af hverju ekki að kenna meiri stærðfræði í heimilisfræði þar sem er t.d. kjörið að minnka og stækka uppskriftir? Eða kenna metrakerfið í smíði og formin í listgreinum svo eitthvað sé nefnt það er mun merkingarbærara nám í augum nemendanna en eyðufylling í vinnubókum. Hvatningarorð hans voru: Sleppið stærðfræðibókunum, horfið á markmið námsskrárinnar og veljið þær leiðir sem þið vitið að muni vekja áhuga nemenda ykkar, stundum er hægt að finna þær í bókum en alls ekki alltaf.
Sá lærdómur sem hægt er að draga af þessu er að þrátt fyrir hugmyndaríka og skapandi kennara erum við mörg hver e.t.v. of hefðbundin í hugsun þegar kemur að stærðfræðikennslunni. Líklega hugsum við hana of mikið sem dæmi í bókum sem þarf að reikna í stað þess að líta á hana sem mikilvæga færni og skilning sem nemendur þurfa að tileinka sér til að getað lifað og starfað í samfélagi nútíma og framtíðar. Til þess að þau markmið náist þarf að finna leiðir til að gera stærðfræðina áhugaverða og merkingarbæra í hugum nemendanna.
NKC
Gamalt bloggg grunnskólakennara um málið: http://skulip.123.is/blog/2008/11/21/321415/