Um daginn hitti ég kennara sem sagðist vera ósáttur við liðinn Kennari mánaðarins hér í Krítinni, að hennar mati er varasamt að vekja athygli á einum kennara frekar en öðrum og gefa þannig til kynna að hann sé betri en samkennarar hans. Viðhorf þessa kennara er vissulega gott og gilt, það er ekki fallegt að gera upp á milli. Ég er samt ekki tilbúin til að leggja niður liðinn Kennari mánaðarins, fyrr en mér verður bent á aðra betri leið til að vekja athygli á því merkilega starfi sem margir kennarar um allt land eru að vinna og fær allt of litla athygli. Ég vil hér með hvetja kennara til að senda Krítinni fréttir og pistla um starf sitt. Svo má spyrja sig af hverju má vekja athygli á listamönnum, fjölmiðlamönnum, vísindamönnum og fleiri starfsstéttum sem standa sig vel, en ekki á góðu starfi kennara?
Athugasemd kennarans leiddi huga minn að því þögla samþykki sem virðist oft ríkja í skólum um að vekja ekki athygli á góðum árangri nemenda. Væntanlega skýrist þetta af því að við viljum forðast óheilbrigða samkeppni nemenda þar sem hluti þeirra er dæmdur til að tapa. Enda byggir starf grunnskólans á hugmyndafræði um félagslegan jöfnuð eins og m.a. kemur fram í stefnunni um skóla án aðgreiningar. Íþróttafélög, skákklúbbar, dansskólar o.fl. hafa farið allt aðra leið til að hvetja börn til árangurs og framfara en þar hafa þau börn sem ekki ná árangri hinsvegar alltaf möguleika á að skrá sig úr starfinu öfugt við grunnskólann.
Ég er algerlega sammála þeim sem vilja forðast samkeppni milli barna en getur verið að skólinn hafi gengið of langt í viðleitni sinni til að jafna stöðu allra nemenda? Er hugsanlegt að við höfum jafnvel ýtt undir þá hugmynd að það sé varasamt eða jafnvel neikvætt að vera góður í námi? Ef það er raunin er augljóst að það hefur bitnað á þeim sem hafa mikla námshæfileika en líklega hefur það einnig leitt til þess að meiri hluti nemendur er staðsettur á einhverskonar miðreit. Þessar áherslur leiða ósjálfrátt hugann að boðorðunum í Janteloven, sem norski rithöfundurinn Aksel Sandemose skrifaði árið 1933, en fyrstu fimm boðorðin eru þessi:
- Þú skalt ekki halda þú sért eitthvað.
- Þú skalt ekki halda að þú sért eins mikils virði og aðrir.
- Þú skalt ekki trú því að þú sért gáfaðri en aðrir.
- Þú skalt ekki telja þér trú um að þú sért öðrum fremri.
- Þú skalt ekki trúa því að þú vitir meira en aðrir.
Meðal þess sem talið er hafa mikil áhrif á námsárangur nemenda, líðan þeirra og hegðun í skólanum er stuðningur foreldra og hvatning. Foreldar þurfa því reglulega að fá upplýsingar um árangur sem börn þeirra hafa náð, hver sem hann er, svo þeir fái tækifæri til að hrósa og hvetja, því líklega getum við verið sammála um að það skilar betri árangri en skammir fyrir það sem ekki gengur nógu vel.
Ég minnist þess þegar fyrrum samkennari minn lýsti því (ekki alveg laus við sektarkennd) að herbergi dóttur hans væri þakið bikurum og verðlaunapeningum sem hún hafði fengið fyrir góðan árangur í íþróttum en herbergið bæri hinsvegar engin merki þess að stúlkan stæði sig líka mjög vel í námi. Öll athygli og hvatning sem hún fengi frá fjölskyldu og vinum tengdist íþróttum en aldrei væri á minnst á góðan árangur hennar í náminu. Skiptir námsárangur kannski engu máli eða er varasamt og jafnvel neikvætt að vera góður í skólanum?
Það eru vissulega til skólar sem eru óhræddir við að vekja skipulega athygli á því sem nemendur gera vel og nýta árangur einstakra nemenda til að upphefja námið og hvetja til metnaðar og framfara um leið og verkefnin geta orðið öðrum fyrirmynd. Þar er horft til þess að allir eru góðir í einhverju og því tekst öllum nemendum að ná árangri. Hrósið er nýtt af ígrundun og í þeim tilgangi að gera það mikilvægt og eftirsóknarvert að vera góður í skólanum, en ekki til að senda þau skilaboð að Lóa sé betri en Þröstur.
NKC
Hið allra besta mál að velja kennara mánaðarins og vonandi velkist enginn í vafa um að margir aðrir kennarar hefðu verið vel komnir að útnefningunni hverju sinni. Við verðum að gera fagmennskuna sýnilega, bæði sjálfum okkur og öðrum.
Lengi lifi Krítin.
Sumir kennarar eru hreinlega betri en aðrir. Það er til fullt af frábærum kennurum og fullt af ömurlegum kennurum sem ættu að fara að gera eitthvað annað. Hættum meðalmennsku og meðvirkni þegar kemur að umræðu um fagmennsku kennara.
Mér finnst sjálfsagt að hampa góðu starfi. Þótt einhver sé valinn kennari mánaðarins er það ekki að kasta rýrð á aðra kennara. Starf kennara á að vera meira upp á borðum. T.d. hafa myndir af þeim á heimasíðum skóla eða upp á vegg í skólum og það vantar sjónvarpsþátt um skólamál og uppeldismál. Gangi ykkur vel! Kv. Hrefna
Heil og sæl. Sjálfsagt að hampa góðum kennurum. Þótt einhver kennari sé valinn hér kennari mánaðarins, er ekki verið að kasta rýrð á aðra kennara heldur benda á eitthvað farsælt eða spennandi. Það vantar umfjöllun í sjónvarpi um skóla- og uppeldismál. Mér fyndist sjálfsagt að skólar gerðu meira úr sínum góðu kennurum t.d. með myndum af þeim upp á vegg og með menntun þeirra, eða hafa á heimasíðum skólanna. Nei bara hugmynd. Gangi ykkur vel! Hrefna
Alltaf fundist það flott hjá ykkur að hafa kennara mánaðins. Til hamingju með frábæraran vef.
Bakvísun: Meðaljóna | Krítin·
Kennarar þurfa að verða sýnilegri en verið hefur, það gerið þið ma. vel með kennara mánaðrins. Við kennarar höfum tekið þátt í þögguninni (tísku orð dagsins) um starf okkar allt og lengi í seinni tíð.. Til lukku með góðann vef:)