Kennarar sem stíga viðbótarskref

014Sjaldan hef ég séð foreldra jafn ánægða með kennara og þá  sem voru á fundi, sem haldinn var um samstarf skóla og skólaforeldra, fyrir nokkru. Traust foreldranna á kennaranum var takmarkalaust og það var augljóst að þeim fannst barnið hafa dottið í lukkupottinn. Meðan ég hlustaði á foreldrana lýsa verkefnunum og áhrifum þeirra gerði ég mér ljóst að ekkert vandamál yrði svo stórt að það yrði ekki leyst farsællega í samstarfi þessa kennara og foreldranna. Ástæðan var fyrst og fremst sú að foreldranir voru þess fullvissir að kennarinn bæri velferð barns þeirra fyrir brjósti, hann hafði komið auga á stykleika þess og  leit á þá sem samstarfsmenn.

Á fundinum gerði viðkomandi kennari grein fyrir þrónarverkefni sem hún hafði staðið að og fólst í því að auka hlutdeild foreldranna í starfi barna sinna ekki síst í náminu. Megin markmiðið var að auka áhuga barnanna á námi sínu en rannsóknir hafa sýnt að þar skiptir áhugi foreldranna höfuðmáli, einkum fyrstu árin í grunnskólanum en einnig síðar.  Börn sem alast upp við að foreldrar þeirra sýni menntun og námi þeirra áhuga eru mun líklegri til að ná góðum námsárangri auk þess sem þau eru ánægðari í skólanum og hegðun þeirra er almennt betri. Einnig skiptir máli að foreldrar geri raunhæfar kröfur til barna sinna um framfarir, styðji þau, hvetji og hrósi fyrir það sem gengur vel. Forsenda þessa er að foreldrar þekki daglegt starf barna sinna, að þeir fái tækifæri til að styðja barn sitt á eigin forsendum en síðast en ekki síst þurfa þeir að öðast traust á kennaranum og skólanum (Desforges og Abouchaair, 2003).

Kennarinn greindi frá tveimur verkefnum annað nefnist gullkorn en markmið þess er að upplýsa foreldra um daglegt starf barnsins og að ávinna kennaranum traust foreldranna. Hitt verkefnið nefnist heimaverkefni fjölskyldunnar en markmið með því er að upphefja nám barnsins og gefa foreldrum tækifæri til að taka þátt í því á eigin forsendum. Þessum verkefnum og fleirum í sama dúr er lýst í bókinni Skóli og skólaforeldrar – ný sýn á samstarfið um nemandann.

Kennarinn hafði m.a. lagt það á sig að handskrifa á kort litla jákvæða frétt (gullkorn) af sérhverjum nemanda sinna og senda þau til viðkomandi foreldra í hverri viku. Ég hef heyrt kennara segja að þeir hafi þegar næg verkefni á sinni könnu og gullkorn í hverri viku tækju of mikinn tíma. Er þetta ekki spurning um forgangsröðun eða vilja til að taka  viðbótarskref að mikilvægum árangri?

Foreldrarnir voru ekki síður þakklátir fyrir heimaverkefni fjölskyldunnar, sem hafði átt hug þeirra allan meðan á því stóð. Lýsing foreldranna á því hvernig verkefnin höfðu skapað tækifæri til jákvæðar samræðu um nám barnsins og skólastarfið sannfærði mig um að viðbótarskref kennarans hafði sannarlega borgað sig. Nemandinn upplifði að nám hans væri áhugavert og mikilvægt í augum fjölskyldunnar, foreldrarnir og afi og amma fengu tækifæri til að fylgjast með námi barns síns og barnabarns, gleðjast yfir því sem vel gekk og einnig gafst þeim tækifæri til að sjá barnið með augum kennarans. Meðal annars fyrir tilstuðlan þessara verkefna ávann kennarinn sér ómetanlegt traust foreldanna og stuðlaði að jákvæðni og áhuga nemendanna. Ef það er ekki viðbótarskrefsins  virði, hvað þá?

Það er þetta viðbótarskref sem gerir oft útslagið ekki aðeins í samstarfi skóla og skólaforeldra heldur á flestum sviðum samskipta. Þegar við hittum verslunarfólk, sem veitir okkur betri þjónustu en við eigum von á, þá er verslunin umsvifalaust komin í fyrsta sæti á vinsælalistanum hjá okkur. Þegar við finnum fyrir einlægri umhyggju starfsfólks heilbrigðisstétta, fyllumst við þakklæti og öryggi og þegar við komum inn í hótelherbergi og rekumst óvænt á konfektmola á koddanum (eða epli fyrir þá heilbrigðu) verðum við sérstaklega ánægð með hótelið svo eitthvað sé nefnt.

Á sama hátt veldur það vonbrigðum og gremju þegar sérfræðingar eða aðilar í þjónustu neita af prinsipástæðum að stíga viðbótarskref fyrir okkur eða börn okkar þegar mikið liggur við. Ég hafði a.m.k. mikla samúð með erlendri móður sem fékk öll skilaboð frá kennara barns síns á íslensku sem hún hafði engar forsendur til að skilja. Móðurinni sem var kunnugt um að kennarinn hefði gott vald á ensku óskaði eftir að fá skilaboðin á ensku, kennarinn svaraði því til að hún fengi ekki greitt fyrir að skrifa pósta á ensku, sem er vissulega rétt.

Það er sjaldnast greitt fyrir viðbótarskrefin með peningum, en launin eru oft önnur og ekki síðri. Ég fagna öllum þeim kennurum sem stíga glaðir viðbótarskref í þágu nemenda sinna, starf þeirra er ómetanlegt.

NKC

One response to “Kennarar sem stíga viðbótarskref

  1. Bakvísun: Byggjum við hvert annað upp eða drögum við hvert annað niður? | Krítin·

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s