Foreldraviðtal

Fátt er jafn ánægjulegt eins og að hitta foreldra sem koma glaðir frá foreldraviðtali í skólanum. Þetta reyndi ég fyrir skömmu. Andlit foreldranna ljómuðu eins og jólatré á aðfangadagskvöld þegar þeir sögðu mér frá fundinum. Kennarinn hafði verið svo jákvæður í garð sonar þeirra, hann sagði þeim frá ýmsu skemmtilegu sem drengurinn hafði sagt og gert sem þau gátu brosað yfir saman en þannig höfðu foreldrarnir gert sér ljóst að kennarinn hafði komið auga á jákvæða eiginleika drengsins, honum var annt um hann. Þar sem samstarf foreldra og skóla er sérlegt áhugamál mitt spurði ég þau í þaula út í viðtalið.

Fyrr í haust hafði kennarinn sent foreldrunum fáein námsmatsverkefni sem gerði þeim kleift að meta árangur drengsins í nokkrum greinum. Þessi verkefni höfðu hjálpað foreldrunum til að átta sig betur á því en áður, að hvaða námsmarkmiðum sonur þeirra var að vinna og hvernig honum vegnaði á þeirri leið. Sumt hafði komið þeim á óvart annað ekki. Þau sögðust m.a. hafa áttað sig á því að hann hefði ekki jafn gott vald á klukku og tíma og þau höfðu álitið. Í kjölfarið höfðu þau nýtt ýmist tækifæri til að æfa son sinn í notkun tíma og klukku  t.d. þegar þau voru að fara eitthvað eða þegar þau skoðuðu sjónvarpsdagskrána. Í foreldraviðtalinu ræddu þau námsmatsverkefnin og kennarinn sýndi þeim með aðstoð sonarins verkefni sem hann hafði nýlega unnið í skólanum en þar komu fram miklar framfarir  í notkun og skilningi á klukku og tíma. Foreldrarnir sögðu kennaranum frá því hvað þeir hefðu gert heima og kennarinn dáðist að stuðningi þeirra við drenginn og hvað þeir hefðu notað skemmtilegar aðferðir og spurði jafnframt hvor hann mætti ekki segja öðrum foreldrum frá þeim.

Fyrir fundinn hafði kennarinn sent öllum foreldrum námsskrá bekkjarins sem þau fóru yfir á fundinum ásamt drengnum og ræddu um styrkleika hans og hvernig þeir gætu best nýst og tengst áhugamálum hans, fótbolta og hvar hann þyrfti helst hvatningu og stuðning. Kennarinn lýsti því hvernig skólinn áætlaði að vinna með einstök verkefni og foreldrarnir sögðu að hjá þeim hefðu vaknað hugmyndir að því hvað þau gætu gert heima og rætt það við drenginn og kennarann.

Á fundinum sagði drengurinn frá því að honum þætti leiðinlegt í myndmennt og í ljós koma að stúlka sem situr við hlið hans þar er alltaf að skipta sér af því hvað hann er að gera. Foreldrarnir sögðu að kennarinn hefði strax sagt að þetta skyldi hann ræða við myndmenntakennarann og láta svo foreldrana vita hvernig tekið yrði á málinu.

Eins og fram kom í upphafi voru foreldrarnir himinsælir með viðtalið og kennarann sem tók við bekknum í haust og drengurinn hafði að þeirra sögn ljómað af stolti og trúnaðartrausti. Þau sögðu einnig að hugtakið forelraviðtal hefði fengið nýja og mikilvæga merkingu í huga þeirra. Ánægja þessara foreldra er ekki síst skiljanleg í ljósi þess að þau segjast gera sér fulla grein fyrir því að þrátt fyrir að strákurinn hafi mikla hæfileika geti hann verið óttalegur pjakkur og stundum verið erfitt að fá hann til að gegna. Það hafi ekki farið framhjá þeim að fyrri kennari drengsins hafði verið ansi þreyttur á stráknum og drjúgur tími fyrri viðtala farið í að hlusta á hann lýsa því hvað strákurinn gæti verið þver og áhugalaus, hann virtist hins vegar ekki koma auga á kosti drengsins. Að þeirra mati hafði það verið hálfgerð tímasóun að taka sér frí frá vinnu til að mæta á foreldrafundi.  Auk þess að hlusta á kennarann kvarta yfir syni þeirra hefði hann fyrst og fremst veitt þeim upplýsingar um niðurstöður kannana sem hefði fullt eins vel mátt senda með tölvupósti. Þau hefðu farið af þessum fundum full vonleysis og pirrings yfir því að þurfa að fara frá mikilvægum störfum í vinnunni. Pirringurinn hefði jafnvel bitnað á syni þeirra og trú þeirra á kennaranum var takmörkuð.

Kannski er það einmitt eitt mikilvægasta markmið foreldrafunda að byggja upp gagnkvæmt traust og virðingu milli foreldra, nemenda og skóla, án þess verður ekki til neitt samstarf hvorki um nám eða líðan nemenda. Öllum foreldrum ætti að líða jafn vel og þessum foreldunum þegar þeir ganga af fundi kennara, það skilar sér til nemenda.

Ég þykist vita að margir kennarar séu að þróa ýmsar leiðir í foreldraviðtölum/samráðsfundum. Hér með hvet ég kennara til að senda Krítinni póst og deila því með öðrum kennurum hvernig þeir byggja upp sín viðtöl/fundi. Hver eru markmið þessara viðtala/funda, hvaða leiðir fara þeir að þeim og hverju skilar það?

Sendið póstinn á nannakc@internet.is eða eddakjar@gmail.com

 NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s