Á málþingi þann 18.október 2012 hlustaði ég á John MacBeath tala um margt sem tengist skólastarfi og starfsþróun kennara. MacBeath kom víða við í erindi sínu og mér fannst hann byggja það þannig upp að áheyrendur þurftu sjálfir að yfirfæra og tengja það sem hann sagði til að fá heildarmynd af því sem sagt var. MacBeath sagði sögur úr eigin starfi, var með tilvitnanir sem tengdust þeim sögum og hann vitnaði í rannsóknir sem gerðar hafa verið um málefnið. Þessi uppbygging virkaði vel á mig og mér finnst hún einnig vera í takt við það sem hann var að segja. Kjarni málsins er sá að það getur enginn komið og sagt frá A-Ö hvernig best er að vinna að starfsþóun kennara en það eru til vísbendingar um hvað er mikilvægt og einnig hvað kemur í veg fyrir framþróun.
Mér fannst koma skýrt fram að kennarar þurfa svigrúm til að sinna starfsþróun og að þeir þurfi stuðning (tækifæri og mögulega aðferðir) til að læra saman og ígrunda störf sín til að geta byggt ofan á þekkingu sína og styrkt þannig eigin fagmennsku sem leiðir til betra skólastarfs.
Einnig kom fram að traust er mjög mikilvægt atriði. Mælingar og krafa um samræmdar aðferðir spretta oft af vantrausti á því sem gert er í skólum. Þessar mælingar hafa oftar en ekki þau áhrif að vinnubrögð í skólum verða hefðbundin vegna vantrausts skólafólksins á að nýjar aðferðir nái máli í þeim mælitækjum sem notuð eru. Það hvernig þessar mælingar eru svo notaðar til að meta skóla gerir það að verkum að farið er að líta á nemendur sem efnivið sem hækkar eða lækkar meðaltal skólanna, æskilega eða óæskilega. Mælitækin eru ófullkomin og mæla ekki endilega það sem er mikilvægt en eru samt látin stjórna því hvaða nemendur fá tækifæri til að komast í „bestu“ skólana og hverjir verða afgangstærðir. Þannig viðheldur vantraustið óréttlæti og bitnar á þeim sem síst skyldi. Ég spyr mig hvers vegna lætur samfélag þetta yfir sig ganga?
Kennarar sjálfir eru mikilvægasta hreyfiaflið í allri skólaþróun. MacBeath sagði að kennarar í mörgum löndum hafi verið spurðir álits á því hvernig þeir telja sig helst hafa lært og sagði MacBeath að efst á lista í svörum kennara í flestum löndum sé að þeir hafi lært mest af samkennurum sínu. En MacBeath benti einnig á það hvað menning innan skóla getur verið mótandi og sýndi fram á hvernig nýliðar verða jafnvel samdauna slæmum hlutum sem geta einkennt menningu skólans ef þeir gá ekki að sér. En hann benti einnig á að nýliðar geta haft jákvæð áhrif og smitað út frá sér með áhuga sínum og nýstárlegum aðferðum ef borin er virðing fyrir þeim og þeim er gefið svigrúm til að miðla því sem þeir eru að gera. Því hlýtur hver skóli að þurfa að ígrunda þá menningu sem ríkir hjá sér til að komast að því hvort innan hans ríkir menning sem styður við framþróun eða menning sem leggur fyrst og fremst áherslu á að temja nýliðana svo þeir verði samdauna því sem fyrir er svo ekkert breytist. Þarna gegna leiðtogar stóru hlutverki, skólastjóri eða aðrir starfsmenn sem eru góðar fyrirmyndir.
Það kom fram hjá MacBeath að stefnumótunaraðilar og foreldrar standa oft í vegi fyrir framþróun því þeir vilja hafa skólana eins og þeir voru þegar þau voru í skóla og horfa gjarnan fram hjá því að samfélagið hefur breyst síðan þá. Þessi pressa getur oft reynst skólafólki erfið og leiðir jafnvel til þess að framþróun stöðvast og allt hrekkur í sama gamla farið. MacBeath sagði að skammtímasjónarmið væru oft ríkjandi þegar verið væri að setja stefnu um málefni sem ættu að hafa langtímaáhrif.
Mér finnst allt þetta sem vakti athygli mína hjá MacBeath byggja undir mikilvægi stofnunar fagráðsins sem mennta- og menningarmálaráðherra kynnti á málþinginu að yrði stofnað utan um starfsþróunarmál kennara leik-grunn- og framhaldsskólakennara. Þar verður vonandi til samræðuvettvangur og stefnumótandi afl hagsmunaaðila sem einkennist af trausti milli aðila og skilningi á því sem er mikilvægt svo langtímaáhrifa gæti af störfum þess.
EK