Fyrir nokkru hitti ég föður sem var óhress með að börnin hans læra ekki spænsku í skólanum þar sem þau eru að hluta til alin upp við það mál. Hann sagðist ekki skilja hvenær einstaklingsmiðað nám ætti rétt á sér ef ekki í þessum tilvikum. Þessi ágæti faðir hafði ekki gert sér grein fyrir að einstaklingsmiðað nám tekur, líkt og annað nám, mið af námsskrá og þar er ekki gert ráð fyrir spænskunámi a.m.k. ekki í fyrstu bekkjum grunnskólans. Hinsvegar ætti góður kennari að horfa til þessara hæfileika nemenda sinna og gera þeim kleift að nýta þá eins og hægt er.
Sumir kennarar halda því fram að einstaklingsmiðað nám merki fyrst og fremst að nemendur fari á mismunandi hraða gegnum sama námsefni. Spyrja má hvort þar sé verið að upphefja vinnuhraða umfram önnur námsmarkmið. Er fyrst og fremst verið að sækjast eftir að nemendur komist yfir sem flestar blaðsíður á sem skemmstum tíma og er það þá markmið skólans að stuðla að sem mestri framleiðslu? Er góður nemandi sá sem er fljótur að klára verkefni? Það má einnig velta því fyrir sér hvort þessi skilningur á einstaklingsmiðuðu námi ráðist að einhverju leyti af því að það er auðvelt að mæla árangur með því að telja blaðsíður, bækur og verkefni og einnig að stýra stórum nemendahóp.
Ég þykist vita að einhverjir kennarar óttast það sem Danir kalla stundum „kaosangst“sem merkir að kennarinn hræðist að missa tökin haldi hann ekki fast um tauminn og sjái til þess að allir gangi í takt. Það er líka óskemmtileg tilfinning að finnast maður ekki hafa stjórn í kennslustofu með 20 fjörmiklum nemendum eða fleiri. En með góðri þekkingu á stöðu nemenda, vönduðu skipulagi, áhugaverðum og merkingarbærum verkefnum, vel sniðnum tímaramma og viðeigandi aðbúnaði aukast líkurnar á því að hægt sé að koma til móts við þarfir og áhuga nemenda í samræmi við námsskrá.
Hugtakið einstaklingsmiðað nám merkir að námið er sniðið að hverjum einstaklingi þannig að markmiðin sem hann vinnur að og verkefnin sem hann fæst við eru í samræmi við þroska hans, getu og áhuga. Þetta eru háleit markmið og ef ég á að vera alveg hreinskilin þá er ég ekki viss um að ég hafi nokkru sinni á minni löngu æfi séð þetta framkvæmt að fullu leyti í heilum bekk og þar eru mínir eigin bekkir ekki undanskildir. Hinsvegar hef ég séð margar áhugaverðar kennslustundir þar sem reynt var að mæta ólíkum þörfum nemenda t.d. með vel ígrunduðu vali nemendanna, áherslum á áhugasvið einstaklinganna, útpældum hópaskiptingum og stigskiptum verkefnum eftir því hvar nemendurnir voru staddir í námsefninu. En kannski er einstaklingsmiðað nám eitt af þeim markmiðum sem aldrei nást að fullu en sem alltaf skal þó stefnt að.
Mergurinn málsins er sá að við erum stöðugt að nota hugtök eins og einstaklingsmiðað nám, skóli án aðgreiningar, fjölmenningarlegt skólastarf, læsi o.s.frv. án þess að ígrunda og ræða nægilega vel merkingu þeirra. Getum við vænst þess að skólaforeldrar skilji merkingu einstaklingsmiðals náms ef við fagfólkið höfum ekki gert upp við okkur hvað það merkir?
NKC