Það er mikilvægt að vinna bug á samskiptavanda í skólastofunni með öllum þeim aðferðum sem bjóðast. Samskiptavandi sem er látinn óátalinn getur jafnvel leiðst út í einelti. Fyrir mörgum árum áskotnaðist mér bókin The bully free classroom over 100 tips and stratigies for teachers, eftir Allan L. Beane sem gefin var út af Free spirit publishing 1999.
Eins og titillin gefur til kynna er bókin stútfull af hugmyndum fyrir kennara til að sinna forvörnum gegn einelti og þar með byggja upp jákvæðan bekkjaranda.
Við höfum áður fjallað um einelti hér á Krítinni og vitum að einelti er ekki aðeins vandamál grunnskólans. Við vitum einnig að einelti er ekki aðeins vandamál þeirra einstaklinga sem verða fyrir einelti eða leggja stund á það. Sá hópur sem eineltið sprettur úr er áhrifavaldur og því er mikilvægt að kennarar séu meðvitaðir um að byggja upp jákvæðan og uppbyggilega bekkjaranda í öllum hópum sem þeir kenna.
Eitt af því sem byggir undir þær aðgerðir sem gripið er til, er að kortleggja stöðuna í sínum bekk. Ég þýddi tvo lista upp úr bókinni The bully free classroom, ég hengi þá hér við þennan pistil og kennurum er frjálst að nota þá.
Listarnir eru kannanir á því hvernig nemendur upplifa að komið sé fram við þá í skólanum. Þau atriði sem koma fram á listunum eru fjölbreytt, það má hugsa sér að stytta listana eða aðlaga þá eftir höfði hvers kennara. Það er hugmyndin með listunum sem er eftirtektarverð og þau atriðu sem koma fram á listunum eru þau atriði sem kennarar geta nýtt í umræðu um þær áherslur sem þeir leggja varðandi bekkjaranda.
Niðurstöðurnar eru einnig góður grunnur að vinnu með nemendum, það er alltaf betra að vinna á grunni gagna frekar en tilfinningu. Það felast mörg lærdómstækifæri í því að vinna með þessa lista, ræða um niðurstöður, fjalla um þau atriði sem eru á þeim og möguleikana á að ná þeim fram og grípa til athafna í kennslustofunni sem byggja á því sem fram kom í svörum nemenda. Það felst ákveðið nám í því að læra að þau gögn sem kennarinn safnar nýtast til að vinna að betri samskiptum.
Listi til að kanna upplifun nemenda á andrúmslofinu í kennlustofunni
Listi til að kanna upplifun nemenda af framkomu bekkjarfélaga sinna gagnvart sér.
EK