Markviss vinna með kynjajafnrétti hefur jákvæð áhrif á námslega stöðu drengja og hjálpar til við að draga úr kvíða stúlkna.

mynd (1)Þetta kemur skýrt í ljós í tilraunaverkefni sem átti sér stað í grunnskólanum Freja í smábænum Gnesta í Svíþjóð á árunum 2009-2012. Í Svíþjóð hefur undanfarin ár miklum fjármunum, tíma og vinnu verið varið í jafnréttismál af ýmsum toga og þá ekki síst kynjasamþættingu. Í stuttu máli má segja að kynjasamþætting snúist um það að skoða allt umhverfi og þjónustu fyrirtækis eða stofnunar út frá jafnrétti kynjanna. Rýnt er í aðstæður, umhverfi og fjármuni og svo kortlagt hvert peningarnir fara, hverjir fá mesta athygli, stuðning, hvernig orðræðan er á staðnum, menningin  o.s.fv. Þegar góð yfirsýn er komin yfir stöðuna þá er hafist handa við að afbyggja gamlar hugmyndir og leggja grunn að breytingum sem stuðla að jafnrétti beggja kynja.

Í Gnesta höfðu skólastjórnendur áhyggjur af því að unglingsdrengir í skólanum voru almennt með mun lakari námsárangur en stelpur en á sama tíma voru stelpurnar að takast á mun meiri kvíða en strákarnir. Í samvinnu við bæjaryfirvöld var ákveðið að beita kynjasamþættingu til að greina stöðuna frekar og leita leiða til að lagfæra ástandið. Verkefnið var unnið í samvinnu stjórnenda, starfsfólks og nemenda. Foreldrar voru upplýstir um tilgang verkefnisins og beðnir um að tala á jákvæðan hátt um það heima fyrir. Bæjaryfirvöld og ýmsir sérfræðingar í jafnréttismálum komu einnig að verkefninu t.d. með fræðslu og leiðsögn. Myndaðir voru rýnihópar nemenda þar sem rýnt var í viðhorf þeirra til kynhlutverka og helstu áhyggjuefni þeirra voru rædd. Allt starfsfólk skólans fékk mikla og góða jafnréttisfræðslu þar sem þeim var kennt að bera kennsl á skaðlegar staðalmyndir kynjanna og bent á mikilvægi þess að brjóta þær upp. Námsefni og námsaðferðir voru einnig skoðaðar. Notast var við gátlista þar sem starfsfólk gat metið sín eigin viðhorf, athafnir  og orðfæri.

Í ljós kom að innan skólans hafði myndast sú menning að strákar sýndu karlmennsku sína með því að slást, hvort sem um var að ræða gamnislag eða alvöru. Þeir sýndu náminu lítinn áhuga og settu metnað sinn aðallega í íþróttaiðkun. Sú krafa var undirliggjandi að strákar áttu að sýna líkamlega samkeppni, keppast um völdin og vera með hávaða og læti. Ljóst var að kennararnir létu strákana afskiptlausa þegar þeir voru að hamast og slást og gerðu ekki eins miklar námslegar kröfur á þá og stelpurnar. Kennararnir væntu því ekki eins mikils af strákunum og stelpunum. Í rýnihópunum kom fram að karlmennskukrafan var sterk og strákunum skorti bæði rými og tækifæri til að tjá tilfinningar sínar á annan hátt en líkamlega.

Stelpurnar voru vanar því að fá hrós og hvatningu frá starfsfólki og foreldrum fyrir að leggja sig fram og sýna samviskusemi í skólanum. Þeim var einnig gjarnan hrósað fyrir útlit. Stelpurnar eyddu mun meiri tíma í heimanám en strákarnir, á kostnað annarra þátta svo sem að fara í félagsmiðstöðina og hitta vini. Þær upplifðu stöðuga pressu til að standa sig vel.  Í rýnihópunum kom í ljós að stelpurnar töldu sig þurfa að vera duglegar, einbeittar, alltaf sætar og í flottum fötum, kurteisar og alls ekki of fyrirferðamiklar. Kynferðisleg áreitni t.d. í formi orða var nánast daglegt brauð og stelpurnar upplifðu sterkt að fullorðna fólkið léti það óáreitt. Stelpurnar voru afar meðvitaðar um að standa sig á öllum sviðum og óttinn við að mistakast olli þeim kvíða.

Markviss vinna hófst í skólanum við að brjóta niður gamlar hefðir. Þrjú meginatriði voru höfð að leiðarljósi

  • Að brjóta upp staðalmyndir kynjanna
  • Að vinna gegn kynbundnu náms- og starfsvali
  • Bjóða upp á betri kynfræðslu.

Nemendur fengu fræðslu um skaðlega karlmennsku og strákarnir fengu það sem kallað var „frí frá ofbeldi“ og átti það við að þeir fengu þjálfun í að tjá sig á annan hátt en líkamlega. Fræðsla í skólanum um fjölbreytileika, ólíkar kynhneigðir og margbreytilega einstaklinga ásamt mannréttindafræðslu var aukin stórlega. Stjórn nemendafélags skólans fékk einnig jafnréttisfræðslu frá sérfræðingum og sá um að koma skilaboðum fræðslunnar á framfæri við nemendur.  Hver einasti starfsmaður skólans tók virkan þátt, allt ofbeldi var stöðvað strax, líka gamnislagir. Fullorðnir voru meðvitaðir um að grípa inn í aðstæður þar sem strákar töluðu niður til stelpna eða áreittu þær kynferðislega með orðum eða óviðeigandi snertingu. Markvisst var farið að hrósa stelpum fyrir aðra þætti en dugnað og samviskusemi og boðnar voru fjölbreyttari kennsluaðferðir í raungreinum til að efla jákvæðari viðhorf stelpnanna til þeirra greina. Boðið var upp á gagnrýnar umræður um kynhlutverkin, um óraunhæfar útlitskröfur og um ósanngjörn kynjaviðmið.

Til þess að fylgjast með hvort og hversu vel verkefnið tókst til var mikið stuðst við gátlista og kannanir og niðurstöður bornar saman. Árið 2012 höfðu 80% strákanna í skólanum náð sömu námsmarkmiðum og stelpurnar, ofbeldi sást hvorki á göngum né skólalóð, stelpurnar sýndu betri einkunnir í raungreinum og kvíði þeirra hafði minnkað töluvert. Nemendur sem tilheyra jaðarhópum sýndu einnig betri líðan því fordómar höfðu minnkað og víðsýni nemenda og starfsfólks hafði aukist.

Kennarar og annað starfsfólk upplifði algerlega nýtt andrúmsloft í skólanum og er það líklega vegna samstöðunnar. Með þátttöku allra starfsmanna og nemenda og með jákvæðum stuðningi frá foreldrum má segja að tekist hafi að koma nýjum viðhorfum „inn í veggi“ skólans. Ný viðmið voru sett og er það markmið stjórnenda Freja skólans að viðhalda þeim á komandi árum, öllum nemendum sínum til heilla.

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir

Verkefnastjóri Jafnréttisskóla Reykjavíkur

 

 

Heimildir:

Stridh, K.,S og Kjäll, J. (2013). Det kan bara bli bättre!Normkritisk arbete på Frejaskolan i Gnesta 2008-2011. Gnesta kommun.

Gnesta kommun. (2013). „Hur långt har vi nått i jämställhetsarbetet i Gnesta kommun 2013?“ Resultatrapport program för hållbar jämställhet.Sveriges kommuner och Landsting.

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s