Fagmennska og Aðalnámskrá

bordinÉg hef tekið þátt  í og kennt á nokkrum námskeiðum sem snúa að innleiðingu nýrrar Aðalnámskrár.

Bæði hef ég verið með vinnustofur um breytingastjórunun fyrir leik – og grunnskólakennara og komið að undirbúningi á námskeiðum um námsmat fyrir grunnskólakennara og skólastjóra. Einnig hef ég komið að utanumhaldi á vinnu fyrir skólastjóra um grunnþætti menntunar. Þannig að ég hef farið víða og heyrt margs konar umræðu um vinnu við innleiðingu nýrrar Aðalnámskrár. Mér finnst lang flestir fagna þeirri námskrá sem nú er unnið eftir og  sú gagnrýni sem ég heyri  snýst meira um tímaskort og skipulag á vinnu en um innihald námskrárinnar. Innihaldslega er það helst lokamatið í 10. bekk sem mér virðist kennarar  og skólastjórar vera óánægðir með.

Á sumum þessara vinnustofa/námskeiða hefur komið upp umræða um að það hljóti að vera óþarfi að allir skólar þurfi að vinna sig í gegnum námskrána og finna leiðir til að setja áherslur hennar fram í sínum skólanamskrám.  Sumir ganga svo langt að segja að þeim finnist að ráðuneytið eða skólaskrifstofur eigi að búa til samræmda nálgun  sem fólk geti  unnið eftir.

Þegar ég las þessa grein varð mér hugsað til þessarar umræðu og velti fyrir mér hvers vegna kennarar falla svona oft í þann pytt að vilja vera lausir við að hugsa.

Það er skelfileg staða sem margir kennarar í Bandaríkjunum standa frammi fyrir.  Þeim er ekki treyst til að hugsa, fagmennska  þeirra er dregin í efa  og gert er ráð fyrir að þeir kenni allir á sama hátt með sömu orðunum  og stefni að því sem kallað er „common core“ . Það verður aðalatriðið og aðrir þættir  verða útundan. Við heyrum oft óminn af þessari umræðu hér og  í kjölfar umræðu um Pisa verður hún jafnvel enn háværari. Það eru öfl sem telja mikilvægt að kenna einungis það sem „skiptir máli“ og telja eðlilegt að sleppa því sem „þvælist fyrir“. Þegar sú umræða verður hávær  fer um mig.

Kennaranum  sem hefur skrifað um sína upplifun í þeirri grein sem ég vísa í hér ,  finnst hann vera að kafna og að frá honum hafi  verið tekið sjálfræðið og sköpunarkrafturinn. Hann getur ekki lengur kennt með fjölbreyttum hætti en þarf  að þjálfa nemendur eftir ákveðnu handriti.

Að mínu mati er  einmitt einn stærsti kostur okkar nýju námskrár að fagmennskunni sem finnst í hverjum skóla er treyst til að finna þær leiðir sem skólanum  henta til að vinna að því að nemendur nái ákveðinni hæfni eins og námskráin gerir ráð fyrir.  Til að nemendur nái þeirri hæfni þurfa kennararnir að skapa námsumhverfi og skipuleggja starf  sem ýtir undir það að  nemendur nái henni. Viðfangsefni skólanna er því að skipuleggja nám og kennslu með  það að leiðarljósi að nemendur vinni meðvitað  að því  að öðlast tilætlaða hæfni.  Skólar þurfa ekki allir að fara sömu leið og geta því skapað sér sérstöðu. Kennarar efla fagmennslu sína þegar þeir þurfa að setjast niður og ræða  um útfærslur á námi og kennslu, en þeir draga úr  fagmennsku sinni  ef þeir gefa samræðuna upp á bátinn og eftirláta öðrum sérfræðingum að hugsa fyrir sig.

Vinna sem felst í því að skilja, rökræða og tileinka sér það sem fram kemur í nýrri Aðalnámskrá er tímafrek en nauðsynleg að mínu mati.  Sú vinna er mikilvægur þáttur í fagmennsku kennara og gerir þeim kleift að hafa áhrif á eigin störf.  Það er enginn sem segir að skólar geti ekki samræmt vinnuna sín á milli á einhvern hátt ef þeim býður svo. Fagleg samræða á milli skóla styrkir fagmennsku kennara jafn mikið og önnur fagleg samræða. En það  að ætla að hoppa yfir samræðufasann og biðja um að fá í hendur úthugsað verkfæri til að fylla inn í er fagstétt ekki til hagsbóta.  Kennarar og skólastjórnendur þurfa að gæta  þess hvers þeir óska og að mínu mati er mikilvægt fyrir þá að  gera sér grein fyrir þeim verðmætum sem traust á fagmennsku  þeirra er.

Kennarar bera mesta ábyrgð á eigin fagmennsku sem ég tel vera  eitt það verðmætasta sem þeir eiga. Það eru ekki allir sammála því og líta á það sem sitt hlutverk að sjá til þess að kennarar vinni með „réttum hætti“.  Ég trúi því ekki að marga dreymi um að lenda í því feni sem margir bandarískir kennarar eru lentir í. Ég hvet kennara því til þess að axla ábyrgð á eigin fagmennsku og búa til lærdómssamfélag fagmanna sem hefur það að leiðarljósi að búa til þekkingu, leikni og hæfni  í sínum röðum til að takast við  starf sitt nemendum til hagsbóta.

EK

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s