Meira um Pisa

gamaltAllt í einu varð menntun mál málanna. Þessi málaflokkur sem komst ekki einu sinni á dagskrá fyrir seinustu Alþingiskosningar hefur skákað öllum öðrum málaflokkum núna eftir að niðurstöður síðustu PISA-könnunarinnar voru birtar, sjá hér.  Niðurstöðurnar eru nokkuð skýrar og ekki allar jákvæðar. En það er hins vegar ekki ljóst hvaða ályktanir ætti að draga af þeim. Mig langar að velta upp nokkrum atriðum í þessu sambandi, spyrja nokkurra spurninga og leggja til að fólk hugsi málin í rólegheitum. En áður en lengra er haldið er rétt að halda til haga hverjar helstu niðurstöður PISA-könnunarinnar eru í tilviki Íslands.

(1) Íslenskir nemendur í 10. bekk standa sig verr í stærðfræði, mælast með minni lesskilning og fer aftur í náttúrufræðilæsi frá síðustu könnunum.

(2) Nemendum líður almennt vel í skólanum og hafa jákvætt vihorf til námsins.

(3) Mikill munur er á frammistöðu á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar.

Hvað minni lesskilning varðar benda niðurstöðurnar til þess að þriðjungur drengja í 10. bekk geti ekki lesið sér til gagns. Þaðer eðlilegt að fólk hrökkvi við. Getur verið að þriðjungur drengja geti ekki lesið sér til gagns – og þá líklega heldur ekki sér til ánægju? Það er mjög slæmt ef satt er og því hefur verið haldið fram að í ljósi þessa slaka árangurs þurfi að umbylta grunnskólanum.

Það hvarflar ekki að mér að gera lítið úr þessum niðurstöðum, en áður en við ræsum jarðýturnar ættum við að athuga málið aðeins betur. Það væri vert að gera ítarlegri rannsókn á lesskilningi bæði drengja og stúlkna í 10. bekk, athuga t.d. (i) hvað íslensk ungmenni lesa, (ii) til hvers þau lesa, (iii) í hvaða kringumstæðum þau lesa og (iv) almennt hvaða vægi lestur hefur í lífi þeirra. Ef við hefðum haldgóðar upplýsingar um þessi atriði, þá bæði hefðum betri skilning á vandanum og einnig einhverja hugmynd um hvernig væri viðeigandi að bregðast við. Svipað mætti raunar fara með bæði stærðfræðina og náttúrufræðina. Hvaða vægi hafa þessar greinar – og þessi viðfangsefni – í lífi ungmenna í dag?

Það er raunar athyglisvert að frammistaðan á þessum þremur sviðum virðist haldast í hendur. Það er ekki svo að færni í stærðfræði hraki meira en lesskilningi eða náttúrufræðilæsi. Línurnar eru allar niður á við og falla álíka langt. Það er því ekki svo að t.d. stærðfræðikennararnir standi sig sérstaklega illa heldur virðist um almenna þróun að ræða. Svipaða sögu er að segja á hinum Norðurlöndunum. Ef raunin er sú að um almenna þróun sé að ræða, þá ætti e.t.v. að horfa til almennra atriða til að skýra þróunina. Meira álag á skólana eftir hrun gæti skipt máli. Bekkir hafa almennt stækkað og stuðningur hefur dregist saman. Kannski á hrunið haustið 2008 sinn þátt í því að árangur nemenda er verri núna en síðast þegar mælt var.

En það væri líka gagnlegt að skoða almennar aðstæður í samfélaginu og stöðu ungmenna. Hrunið á Íslandi skýrir náttúrulega ekki verri árangur á hinum Norðurlöndunum. Frekar en að horfa til kennsluaðferða sem tíðkast í suð-austur Asíu, í skólum og samfélögum sem eru gjörólík okkar íslenska samfélagi, þá ættum við að velta því fyrir okkur hvort lífið í skólanum sé í takt við líf ungmenna utan skólans. Við ættum líka að horfa gagnrýnum augum á stöðu ungmenna í samfélaginu almennt. Hvað ætli stór hluti þeirra sem tóku PISA-prófið vinni með skóla? Hvaða þroskaleiðir bjóðast ungmennum utan skóla? Hvernig er búið að ungmennum á heimilum? Við megum ekki gleyma því að skólinn er ekkert eyland í samfélaginu.

Loks vil ég nefna eitt varðandi atriði (1), nefnilega þetta: Þótt niðurstaðan sé neikvæð, og þótt prófin séu vönduð og það sé full ástæða til að taka niðurstöðurnar alvarlega, þá mæla svona próf einungis mjög lítinn hluta af því sem skólum er ætlað að gera. Vissulega eru lesskilningur, færni í stærðfræði og náttúrufræðilæsi mikilvæg atriði, en skólinn snýst um margt fleira og þótt mæling á þessum þáttum gefi til kynna afturför, þá getur vel verið að skólinn standi sig vel á mörgum öðrum sviðum.

Góður skóli leggur nemendum bæði til haldgóða þekkingu og færni en líka áhuga á frekara námi. Að vera vel menntaður er eins og að vera við góða heilsu. Góð heilsa er ekki stundlegt fyrirbæri heldur varanleg tilhneiging. Þetta ber mig að atriði (2):

(2) Nemendum líður almennt vel í skólanum og hafa jákvætt vihorf til námsins.

Í skýrslunni segir m.a. að niðurstöður PISA sýni „jákvæða þróun á skólabrag og bekkjaranda undanfarinn áratug. Stuðningur kennara við nemendur sem var mikill hefur aukist mjög, samband nemenda við kennara hefur styrkst mikið, nemendur samsama sig nú mun betur nemendahópnum í skólanum, agi í tímum eykst lítillega og viðhorf nemenda til skólans batnar einnig lítillega“ (bls. 70). Þetta er óneitanlega vísbending um að í skólunum sé margt mjög vel gert.

Þessar jákvæðu niðurstðður gefa ekki síður tilefni til frekari skoðunar en neikvæðu niðurstöðurnar sem ég nefndi í tengslum við lið (1). Við þurfum að skilja betur það sem er vel gert ekki síður en það sem ekki tekst sem skyldi. En ef raunin er virkilega sú að nemendur séu almennt jákvæðir gagnvart skólanum þá ætti ekki að vera erfitt að byggja á þeim styrkleika skólans til að ná betri árangri í stærðfræði, lesskilningi og náttúrufræðilæsi. Látum því jarðýturnarbíða um sinn en hlúum heldur að því sem er gott.

Að endingu langar mig að víkja stuttlega að atriði (3):

(3) Mikill munur er á á frammistöðu á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar.

Í PISA-könnuninni kemur fram mjög afgerandi munur á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Þessi munur er svo sláandi að hann verður að rannsaka frekar. Það vakna raunar svo margar spurningar að það er engin leið að gera annað en reifa þær lauslega í svona glósu. Sýnir PISA-könnunin raunverulegan stéttamun á milli dreifbýlis og þéttbýlis? Er vandamál dreifbýlisins – atvinnuvandi, byggðaþróun og fleira í þeim dúr – kannski fyrst og fremst skortur á menntun? Hvernig er stuðningi við kennara og skóla háttað í dreifbýlinu? Eru skipulag skóla, námsefni og jafnvel menntastefna fyrst og fremst miðuð við þarfir þéttbýlisins en ekki við þarfir dreifbýlisins?

Íþessari glósu hef ég ekki svarað neinum spurningum. Enda getur maður ekki svarað þeim spurningum sem vakna við lestur PISA-skýrslunnar uppi í sófa heima hjá sér á fimmtudagskvöldi. Það þarf virkilega að leggja fé og fyrirhöfn í rannsóknir vilji fólk vita hvernig staðan er í íslenskum skólum. En ef við viljum börnunum okkar það besta, þá er nær að skoða skólana og líf ungmenna með opnum huga og láta jarðýturnar eiga sig.

Birtist fyrst á facebooksíðu höfundar sem gaf leyfi til að birta þetta einnig hér.

Ólafur Páll Jónsson

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s