Frá Menntaskólanum á Egilsstöðum

innblasturskassar2_905Í vetur hafa nokkrir nemendur í Menntaskólanum á Egilsstöðum lært um skapandi ferli í áfanganum Hugmyndavinna. Markmiðið er að nemendur kynnist skapandi ferli og fari í gegnum nokkur slík ferli sjálf. Þau læra aðferðafræði og verkferla sem þau prófa sig áfram með úrlausnir á fimm verkefnum. Meðal þess sem nemendur þjálfa er hugstormun, gagnrýnin hugsun, tilraunir og athuganir. Nemendurnir eru afar ólíkir innbyrðis, með ólíka hæfileika og áhugasvið. Sumir stefna á leiklistarnám eða leikskólakennaranám, aðrir á hönnun eða kvikmyndagerð. Mjög margir eru enn óráðnir. Aldurinn er frá 16 upp í 21 árs svo um afar ólík sjónarmið og reynslu er að ræða. Í flestum verkefnanna geta þeir sniðið ferlin og lokaverkin að sínu áhugasviði. Jafnóðum og hverju verkefni lýkur, deila nemendur útkomuninni á heimasíðunni

Hópurinn kallar sig LÍFFÍL sem stendur fyrir List Í Ferli & Ferli Í List. Í lok annar er miðað við að nemendur verði orðnir þjálfaðir í að tala um hugmyndir, greina þær, vega og meta og myndgera þær svo aðrir skilji. Þeim er einnig kenndur «orðaforði sköpunar» sem gerir þeim kleift að tala á málefnalegan hátt um listir og hönnun. Heimspekilegar umræður í kringum spurningar eins og «hvað er list» og «hvaða eiginleika þarf góður listamaður að búa yfir» eiga sér reglulega stað og dýpkar það skilning viðstaddra á viðfangsefninu. Áhugaverð könnun um listir, hugmyndir og skapandi störf var lögð fyrir nemendur á fyrsta degi og geta áhugasamir lesið svörin á ofannefndri heimasíðu.
Ný námsbraut komin á laggirnar
Þetta er í fyrsta skipti sem áfanginn Hugmyndavinna stendur nemendum til boða sem hluti af nýju áfangaframboði listnámsbrautar Menntaskólans. Listnámsbrautin er nú orðin að fullgildri braut til stúdentsprófs og undirbýr nemendur á fjölbreyttan hátt undir áframhaldandi listnám í öllum skapandi greinum. Tveir ungir útskrifaðir hönnuðir og einn doktorsnemi; allir fyrrum nemendur í ME, hafa snúið heim í Hérað til að aðstoða Ólöfu Björk Bragadóttur, brautarstjóra listnámsbrautar við uppbygginguna. Þetta eru þær Sigríður Lára Sigurjónsdóttir doktorsnemi í sviðslistafræðum, sem kennir sviðslistir, Steinrún Ótta Stefánsdóttir vöruhönnuður, sem kennir hönnun og Agla Stefánsdóttir fatahönnuður, sem kennir hugmyndavinnuáfangann.

Mikilvægi hugmyndavinnunáms í stærra samhengi
Í almennum skóla gengur stór hluti náms út á að nemendur læri staðreyndir og geti komið þeim frá sér í rituðu eða töluðu máli. Í Hugmyndavinnunámi gefst nemandanum sjaldgæft tækifæri til að leita svara innra með sér og túlka og tjá eigin skoðanir og sýn á lífið. Um gengi nemenda við að leysa verkefnin hefur Agla Stefánsdóttir, kennari Hugmyndavinnuáfangans þetta að segja: «Það sem reynist þeim kannski hvað erfiðast er að lausnirnar er ekki að finna í bókum eða á netinu. Þau læra að þau ein búa yfir réttu svörunum í sinni eigin listsköpun. Til að vel takist til verða þau að hafa trú á sér, vera gagnrýnin á eigin vinnu og deila sinni sýn á tiltekið viðfangsefni. En það er akkúrat þetta sem kveikir í þeim og fær þau til að vilja gera vel. Ég held að þau verði oft hissa á hversu úrræðagóð og sniðug þau geta verið þegar þau setja sig í réttar -hugmyndavinnu- stellingar.»
Albert sagði það
Í heimi vísindanna stendur skapandi og lausnamiðaður hugsunarháttur jafnfætis fræðilegri vitneskju. Albert Einstein sagði eitt sinn: «Við getum ekki leyst vandamál með sama hugarfari og við notuðum þegar við bjuggum þau til.» Ímyndun um það sem «gæti orðið» er grundvöllur stórkostlegra uppgötvana og framfara. Því nýtist nám í hugmyndavinnu; hugsunarhátturinn og verkferlarnir, nemendum á öllum sviðum lífsins.

Það er einlæg skoðun Öglu að lífið sjálft sé eitt allsherjar skapandi ferli, þar sem að hver einstaklingur býr yfir mættinum til að skapa sitt eigið líf með öllum sínum hugsunum og gjörðum. Gagnrýnin hugsun og eiginleikinn til að dreyma og læra af mistökum er óumdeilanlega list sem verður aldrei fulllærð og hægt er að þjálfa út allt lífið í gegn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s