Áfram grunnskóli!

stelpurÍ hvert sinn sem ég hlusta á Lars Lagerback tala um íslenska landsliðið í knattspyrnu verður mér ósjálfrátt hugsað til skólafólks. Ef einhver er í vafa þá er Lagerback þjálfari landsliðsins.  Það er sama hvað gengur á alltaf hefur hann fulla trú á sínum mönnum og telur hvern og einn einstakan. Með allri framgöngu sinni sýnir hann óbilandi trú á liðinu jafnt í meðbyr sem mótbyr. Þannig stuðlar hann að heilbrigðu sjálfstrausti og metnaði leikmannanna um leið og hann þjappar þjóðinni saman að baki liðinu. Mér virðist líka sem við eigum auðveldara með það en oft áður að sýna skilning og samstöðu þegar vonir okkar um sigra bregðast.  Þegar liðið tapar eyðir Lagerback ekki orðum í að réttlæta eða ásaka, en horfir þess í stað fram á veginn, að næsta verkefni.

Ef við viljum að nemendur okkar nái betri árangri þurfum við ekki síst að efla sjálfstraust þeirra sem námsmanna og sannfæra þá um mikilvægi góðs námsárangurs. Við skólafólkið þurfum ekki síður að vanda okkur þegar við fjöllum um starf okkar og nemendur, því líkt og við á um landsliðið þá hafa nemendur þörf fyrir öfluga stuðningsmenn sem hafa væntingar til þeirra. Hér ættum við að vera í hlutveki þjálfarans sem með óbilandi trú á liðinu sínu dregur að stuðningsmenn sem hvetja, fagna og styðja.

Eftir að niðurstöður Pisa birtust hafa margir velt vöngum og leitast við að skilja og skýra. Sjálfsagt er ekki til nein ein viðhlítandi skýring á stöðu íslenskra nemenda og kannski er mælitækið sjálft ekki nægilega trúverðugt, en mig langar til að bæta við einu atriði í umræðuna sem er hlutur stuðningsmanna.  Það er óumdeilt að nemendur hafa mikla þörf fyrir aðhald og stuðning ekki síst foreldra sinna sbr. Desforges og Abouchaar. Nemendur sem finna að foreldrar þeirra hafa miklar og réttmætar væntingar til þeirra eru mun líklegri til að ná góðum árangri en hinir. Foreldrar þessara nemenda sýna skólastarfinu einnig mikinn áhuga og hafa jákvætt viðhorf til menntunar almennt. Því miður hef ég allt of oft orðið vitni að því að fullorðið fólk, sem á börn í grunnskóla,  talar af vanvirðingu um kennara og skóla barna  sinna,  jafnvel í áheyrn barnanna.

Nýlega var ég í boði með börnum og fullorðnum og einusinni sem oftar bar grunnskólann á góma. Einn gestanna hafði orð kunningjakonu sinnar, sem er kennari í tilteknum skóla, fyrir því að samkennarar hennar væru ófaglegir og áhugalausir um starf sitt og nefndi nokkur dæmi því til staðfestingar. Við hlið gestsins sat barn sem er nemandi í viðkomandi skóla og fleiri börn sperrtu eyrun. Ég gat ekki á mér setið og benti gestinum á að það væri nú ekki heppilegt að tala svona um skólann í áheyrn barnanna. Gesturinn sá þegar að sér en umræðan um skólann hélt áfram í hópnum bæði meðal fullorðinna og barna og hún var sannarlega ekki öll á jákvæðu nótunum.

Nánast allar fjölskyldur eiga samstarf við grunnskóla í a.m.k. tíu ár og því er ekki óeðlilegt að umræður um skólann séu ofarlega á baugi á mannamótum. Því miður virðast ekki allir gera sér grein fyrir hvaða áhrif það getur haft á börn að hlusta á neikvæða umræðu um skólann og kennarana einmitt þegar þau þurfa helst af öllu á öflugum  stuðningsmönnum að halda. Stuðningsmönnum í stúkunni sem halda með þeim og skólunum þeirra.

Þessir stuðningsmenn verða ekki til að sjálfu sér. Það ætti því að vera mikilvægur hluti af starfi okkar skólafólks að finna leiðir til að flykkja stuðningsmönnum að baki nemendum. Þar gætum við ýmislegt lært af viðhorfi og framgöngu þjálfara íslenska landsliðsins í knattspyrnu.

Áfram grunnskóli!

 NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s