Ekki veit ég hversu oft ég hef heyrt fólk fullyrða að það komi nákvæmlega eins fram við syni sína og dætur og líklega trúum við því flest að við gerum engan greinarmun á framkomu okkar gagnvart drengjum og stúlkum. En rannsóknir sýna allt annað. Fyrir nokkrum árum síðan sá ég myndband sem ég hef gert fjölmargar tilraunir til að finna á netinu án árangurs. Nú geri ég enn eina tilraunina og leita í því skyni til lesenda Krítarinnar.
Myndbandið sýnir tilraun þar sem þátttakendur, konur og karlar, eru beðnir um að gefa sig að ómálga barni sem situr á teppi á gólfinu. Umhverfis barnið eru allskonar leikföng bíll, bangsi, dúkka, bolta o.fl. Mig minnir að þátttakendum hafi verið sagt að með rannsókninni ætti að kanna hvað það tæki langan tíma fyrir smábarn að treysta ókunnugum eða eitthvað álíka. Einn og einn þátttakandi í senn fór inn í herbergið til barnsins sem sagt var að héti Marta. Hver af öðrum nálgast þeir Mörtu litlu og reyna að vekja áhuga hennar og þeir fáu sem ekki grípa dúkkuna til að sýna henni nota bangsann. Tilrauninni lýkur með því að þátttakendur eru spurðir hvort það hafi haft áhrif á val þeirra á leikfangi að barnið var stelpa, sem þeir aftaka með öllu en fullyrða að það hafi verið alger tilviljun að dúkkan eða bangsinn varð fyrir valinu frekar en bíllinn eða boltinn. Það var bara dúkkan /bangsinn sem var hendi næst. Aðspurðir telja þátttakendur að það hefði ekki skipt nokkru máli þótt barnið hefði verið drengur, dúkkan/bangsinn hefði ekkert síður orðið fyrir valinu.
Tilraunin er svo endurtekinn með öðrum þátttakendum. Sama barnið situr á teppinu en nú er þeim sagt að þetta sé Marteinn litli. Þegar þátttakendur reyna að vekja áhuga barnsins grípa þeir ýmist boltann eða bílinn (gæti verið að einn hafi tekið bangsann). Enginn tekur dúkkuna sem þó er enn á sama stað og áður. Síðar þegar þeir eru spurðir eru þátttakendurnir harð ákveðnir í því að kyn barnsins hafi ekki haft nokkur einustu áhrif á það hvaða leikfang þeir notuðu til að nálgast barnið, það að þeir tóku aldrei dúkkuna var hrein tilviljun.
Það sem er svo áhugavert við þessa tilraun er að hér er hópur fólks sem telur sig vera upplýst og meðvitað um framkomu sína gagnvart stúlkum og drengjum, en þegar á hólminn er komið eru það hugmyndir um staðalmyndir sem stýra atferli þeirra. Erum við almennt svona, erum við ómeðvitað stöðugt að styrkja staðamyndir kynjanna?
Margt bendir til þess að frá því barn fæðist sé það ekki síst kynferðið sem stýrir viðhorfi og væntingum umhverfisins til einstaklingsins. Við virðumst of oft gefa okkur að eðli allra stráka sé öðruvísi en eðli allra stelpna. Þegar börn byrja í grunnskóla er þegar búið hafa mikil áhrif á hugmyndir barnanna um kynin, allt umhverfið segir þeim hvernig strákar/karlmenn eiga að vera og hvernig stúlkur/konur eiga að vera. Engu að síður getur skólinn haft mikil áhrif og hefur samkvæmt 23. Gr. Laga um jafnan rétt og stöðu kvenna og karla, frá 2008 ákveðnum skyldum að gegna í þessum málum. Einnig má minna á að einn af grunnþáttum menntunar er einmitt jafnrétti. Slakur árangur drengja í læsi sem aftur og aftur kemur fram í könnunum og skimunum sbr. síðasta Pisa könnun og aukin vanlíðan stúlkna á unglingsárum sem birtist m.a. í könnunum Skólapúlsins eru sennilega dæmi um neikvæð áhrif staðalmynda á nemendur okkar. Við getum því ekki látið eins og það komi okkur ekki við. Ekki síst þurfum við að skoða viðhorf og framkomu okkar sjálfra til nemenda okkar en rannsóknir hafa sýnt að kennarar koma alls ekki eins og fram við stúlkur og drengi sbr. umfjöllun Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur .
Jólin nálgast og með þeim jólasöngvarnir okkar kæru; „Nú skal segja hvernig litlir strákar gera, sparka bolta, sparka bolta“ o.s.frv. Og líka „Hann fékk bók en hún fékk nál og tvinna“ En þessir textar eru bara börn síns tíma, er það ekki?
NKC
Hér er texti um rannsókn sem hljómar lík því sem þú ert að lýsa
http://scientopia.org/blogs/scicurious/2011/03/09/baby-boy-baby-girl-baby-x/
Hér er texti sem lýsir tilraun líkri þeirri sem þú talar um:
http://scientopia.org/blogs/scicurious/2011/03/09/baby-boy-baby-girl-baby-x/
Og hér er meiri texti um sama efni:
http://www.newsweek.com/why-parents-may-cause-gender-differences-kids-79501