Í dag voru kynntar niðurstöður úr Pisakönnun 2012 og þar kemur m.a. fram að lesskilningi hjá íslenskum nemendum fer aftur frá síðustu mælingu.
Strax rjúka til einstaklingar sem telja, að vegna þessarar niðurstöðu sé ljóst að skóli án aðgreiningar sé að misheppnast og aðrir benda á að nú verði að breyta kennsluaðferðum, þær sem notaðar eru séu ekki nógu skilvirkar og henti ekki drengjum.
Mig langar ekki að fara í vörn fyrir skólana því ég tel eðlilegt að til þeirra séu gerðar miklar kröfur. En vil benda fólki á að það gerir ekki nokkurt gagn að finna sökudólga eða brotalamir án þess að horfa á heildarmyndina.
Eins og hér er bent á þarf samfélagið að gera átak í því að ýta undir lestraráhuga, því skólinn hefur ekki áhrif nema að takmörkuðu leyti. Það er áhyggjuefni að eitthvað er að gerast í samfélaginu sem leiðir til þess að lesskilningur minnkar hjá börnum. Bæði drengir og stúlkur mælast með minni lesskilning nú, en drengir koma verr út en stúlkur. Við því þarf að bregðast.
Ef okkur finnst mikilægt að þessi hæfni verði betri þarf að komast að því hvað bætir hana. Ekki er ólíklegt að þörf sé á samstilltu átaki til að auka áhuga barna á lestri. Skólinn og foreldrar þurfa að vinna saman að því. Ásakanir á skólana munu ekki bæta ástandið hjá nemendum,jafnvel gera illt verra. Illa grundaðar hugmyndir að skyndilausnum skila heldur engu.
Það er reyndar fleira en lesskilningur sem þarf að skoða, hér má lesa um helstu niðurstöður Pisa
EK