Baráttan um gæðin

kýrStundum heyrist því haldið fram að fátt hafi gert kennurum starfið erfiðara en áherslan á skóla án aðgreiningar. Þá held ég að einkum sé  verið að vísa til þess að með stefnunni er gert ráð fyrir að allir nemendur geti fengið nám við hæfi í almennum bekk í stað þess að nemendum með sérþarfir sé komið fyrir í sérstökum deildum eða skólum.  Þegar kennarar benda á mikið álag í starfi vísa þeir einmitt oft til þess hvað það geti verð flókið að mæta ólíkum þörfum nemenda samanborðið við það að kenna einsleitum nemendahópi með svipaðar þarfir og námsgetu. Foreldrar eru heldur ekki allir sáttir við hugmyndafræði skóla án aðgreiningar en eins og kunnugt er hafa foreldrar sumra barna með sérþarfir barist fyrir því að börn þeirra fái að vera í sérdeildum eða sérskólum.

Ég heyrði um daginn af hópi fólks  sem var í samkvæmi að ræða skólamál og þá einkum um áðurnefnda hugmyndafræði og fundu henni flest til foráttu.  Þar kom m.a. fram að börnin þeirra, sem eru að þeirra sögn heilbrigð börn með góða námsgetu, líði fyrir samveruna við börn með sérþarfir. Þau börn trufli ekki aðeins nám annarra nemenda heldur fái þau líka bróðurpartinn af athygli kennaranna á kostnað hinna. Þannig séu „heilbrigðu börnin“ orðin fórnarlömb þessarar hugmyndafræði. Einn úr hópnum kallaði þetta frekju og forréttindi fatlaðs fólks sem krefðist þess að samfélagið lagaði sig að þeirra sérþörfum, sama hvað það kostaði. Máli sínu til stuðnings vísaði hann til notendastýrðrar persónulegrar þjónustu sem sumir fatlaðir einstaklingar njóta.

Er von að einhverjir staldri við og spyrji hvort við séum á réttri leið. Ég held að þeirri spurningu verði ekki svarað til fulls nema að svara fyrst stóru spurningunni: Fyrir hvern er þessi jörð? Eru einhverjir sem eiga hér meiri rétt en aðrir og hverjir eru það þá?  Þeir sem hafa „rétt“  litarfhaft, trúarbrögð, greind, kynferði, persónuleika, aldur, líkamlegt atgervi, skoðanir, fjármagn, ætt eða félagstengsl?

Sagan sýnir að þegar minnihlutahópar hafa barist fyrir réttindum sínum fara ríkjandi valdhafar í vörn og óttast að missa forréttindi sín. Þetta höfum við séð í baráttu kvenna fyrir jafnrétti sem ógnaði sumum karlavígum. Hvítir menn vildu líka sitja einir að sínum réttindum þegar hörundsdökkir menn hófu sína baráttu svo þekkt dæmi séu nefnd. Góðhjartaðir menn héldu því jafnvel fram að það færi betur um blökkumenn og konur ef þau væru höfð sér. Það getur augljóslega verið erfitt að deilda því með öðrum sem maður hefur áður setið að einn eða með „sínum“.

Í 1. grein Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna stendur:

Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum. Allir eru gæddir skynsemi og samvisku, og ber að breyta bróðurlega hverjum við annan.

Eigi skólinn að vera spegilmynd samfélagsins þar sem börn læra að taka þátt í samfélagi án aðgreiningar, sem einstaklingar og félagsverur, þá þarf að horfa á myndina í heild sinni.

Hugmyndafræðin um skóla án aðgreiningar var ekki fundin upp á Íslandi heldur hefur hún verið að ryðja sér til rúms víða um heim til samræmis við breytt viðhorf , lög og yfirlýsingar um réttindi barna með sérþarfir. Vandinn er sá að við sem ólumst upp í skólum þar sem nemendum var raðað í bekki eftir getu (og jafnvel fleiri einkennum) og lærðum síðar að kenna í samskonar fyrirkomulagi erum skiljanlega ekki alltaf nægilega örugg um okkur í þessu nýja umhverfi án aðgreiningar. Það gerir nefnilega kröfur um annarskonar færni, þekkingu og vinnubrögð en áður. Ef okkur fagfólkinu lánast ekki að mæta þessu breytta umhverfi kemur það óhjákvæmilega niður á nemendum okkar, foreldrarnir verða órólegir og þá getur fatlaða barnið í bekknum orðið að blóraböggli.  Slíkt er vel þekkt úr jafnréttisbaráttu minnihlutahópa.

Það er flókið starf að vera kennari og gerir miklar kröfur um aðlögun og símenntun. Góður kennari er líka ómetanlegur ekki aðeins fyrir nemendur sína heldur fyrir samfélagið í heild sinni. Þess vegna ætti líka að launa kennurum vel.

 NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s