Strákar og stelpur

Það hefðu mátt vera fleiri kennarar á ráðstefnu KÍ um jafnréttisfræðslu, sem haldin var miðvikudaginn 16. maí, því þar voru mikilvæg málefni tekin til umfjöllunar en nú verður ekki lengur hlaupist undan merkjum varðandi jafnréttisfræðslu. Ein af grunnstoðum nýrrar aðalnámskrár er nefnilega jafnrétti og í 23. gr. laga nr. 10/2008  um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla segir:

…..Á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. skal lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi.….

Á ráðstefnunni fluttu þrír kennarar áhugaverð erindi um jafnréttisfræðslu og eigin reynslu í þeim efnum. Þetta voru Árný S. Steindórsdóttir frá  leikskóla Hjallastefnunnar, Margrét Helgadóttir frá Langholtsskóla og Hanna Björg Vilhjálmsdóttir frá Borgarholtsskóla. Í erindum þeirra kom fram góð þekking og brennandi áhugi á málefninu og í líflegum umræðum sem fylgdu í kjölfarið birtist einnig mikill áhugi og skilningur á miklvægi jafnréttisfræðslu. En stóra spurningin er; hvað með alla hina kennarana sem ekki voru á staðnum en eiga að sinna þessari kennslu á öllum skólastigum, eru þeir allir undir hana búnir?

Þekking og viðhorf til jafnréttismála eru grunnurinn að kennslu í þessari námsgrein. Staðreyndin er sú að líklega hafa fæstir kennarar hlotið menntun í jafnréttisfræðslu. En geta kennarar skýlt sér á bak við þá staðreynd? Öll störf þróast hratt og það gerir sífellt nýjar kröfur til starfstétta. Maður sem lærði bifvélavirkjun á áttunda áratugnum sérhæfði sig í að gera við bíla sem þá voru á markaðnum.  En eins og allir vita hafa bílar breyst. Með símenntun hafa bifvélavirkjarnir bætt við þekkingu sína og kunna þess vegna líka að gera  við árgerð 2010 . Það sama á við um lang flestar starfsstéttir, þær bæta við þekkingu sína til samræmis við breytt starfsumhverfi. Þeir kennarar sem telja sig ekki hafa næga þekkingu á jafnréttisfræðslu þurfa því að lesa sér til, sækja ráðstefnur og námskeið sem fjalla um jafnréttisfræðsu en ekki síst að læra af þeim kennurum sem þegar hafa náð tökum á greininni. Auk þeirra kennara sem fluttu erindi á ráðstefnunni má t.d. benda á þær Unni Gunnarsdóttur og Sigurbjörgu Hallgrímsdóttur í Vogaskóla sem hafa þróað ákaflega skemmtilegt jafnréttisverkefni sem hægt er að lesa um á www.jafnrettiiskolum.is

Viðhorfin skipta ekki síður máli. Enn heyrast kennarar halda því fram að strákar séu í eðli sínu öðru vísi en stelpur og þurfi þess vegna öðruvísi skóla og atlæti. Að strákar þurfi t.d. meiri hreyfingu og því sé ekki hægt að ætlast til að þeir sitji lengi við borð og læri. Að það sé eðlilegt að þeir séu háværari en stelpur og svolítið árásargjarnari. Ekki ætla ég að halda því fram að þessi einkenni geti ekki verið ríkjandi eðlisþáttur hjá einhverjum strákum, en varla hjá öllum eða hvað? Hvaða áhrif hefur það þá á hina strákana ef kennarinn hefur þessi viðhorf til allra stráka og hvaða áhrif hefur það á stelpurnar sem eru heldur ekki allar eins? Þeir sem aðhyllast eðlishyggju (að strákar og stelpur séu í eðli sínu ólík frá færðingu og allir strákar því meira og minna eins og öðruvísi en allar stelpur) nota gjarnan þau rök að þeir hafi reynt þetta á eigin skinni, þeir hafi t.d. keypt dúkku handa syni sínum sem hann lék sér aldrei með og þar með er málið dautt. Litlir strákar og litlar stelpur eru ekki fædd og alin upp í tómarúmi, frá fyrsta andadrætti er það jafnan kynferði þeirra sem skiptir mestu máli og það fyrsta sem við spyrjum um þegar lítið barn fæðist. Frá fyrstu stundu klæðum við drengi og stúlkur ekki eins, rannsóknir sýna að við tölum ekki eins við drengi og stúlkur, við höldum ekki eins á þeim og við otum ekki sömu leikföngum að þeim. Áður en ókunnugir eiga samskipti við ung börn þurfa þeir að vita hvort kynið er, annars eiga þeir í vandræðum með að bera sig rétt að. Í þessu felast dulin en afar mótandi skilaboð um að drengjum og stúlkum sé ekki ætlað sama hlutverk í þjóðfélaginu. Þegar börnin eldast sjá þau alls staðar í kringum sig að það er munur á því að vera stelpa og strákur. Hefur þú t.d. komið inn í Toysrus leikfangaverslunina? Það fer ekkert á milli mála hvert börnin eiga að fara,  þar er bleikur gangur fyrir stelpudót og svartur fyrir strákadót. Sjónvarpið  sýnir stöðugt staðalmyndir af strákum og aðra af stelpum sem eru ekki alltaf sérstaklega uppbyggilegar.  Þetta nýtir markaðurinn sér og framleiðir m.a. töffaraföt á litla stráka og gelluföt á litlar stelpur sem fullorðna fólkið kaupir svo. Það gerist ekki oft að litlir drengir hafa fyrirmyndir sem segir þeim að alvöru strákar leiki sér með dúkkur. Reyndar sóttist stelpan mín heldur ekki eftir að leika sér með dúkkur, hvað segir það um hana?

Mergurinn málsins er sá að líklega hefur enginn  félagsþáttur jafn mótandi áhrif á einstaklinginn og kynferði hans. Kynferðið er talið hafa veruleg áhrif á það að strákar hafa minni áhuga á að lesa bækur, að þeir fara síður í bóklegt framhaldsnám, að þeir slasast oftar, fara síður til læknis þegar þeir verða fullorðnir, að margar stelpur eru þunglyndar og kvíðnar á unglingsárum, verða oftar fyrir kynferðislegri misnotkun og að laun kvenna eru almennt lægri en laun karla svo fátt eitt sé talið. Stundum er bent á að það sé ekki síður líffræðilegur munur sem skýri þennan mun, að heili karla og kvenna sé ekki eins. Það kom fram hjá Guðnýju Guðbjörnsdóttur prófessor, sem sat í pallborði á ráðstefnunni, að rannsóknir sýni lítinn mun á heilum drengja og stúlkna við fæðingu, en að þessi munur aukist  með árunum í samræmi við það hvernig heilinn er örvaður og mótaður ekki síst af hinu félagslega umhverfi.

Ég spyr; getur fagfólk í uppeldis- og menntamálum komist hjá því að afla sér góðrar þekkingar í jafnréttis- og kynjafræði og er það skrýtið að jafnréttisfræðsla sé lögbundin skylda  á öllum skólastigum?

NKC

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s