Hvað læra nemendur?

svanurinnNýlega sýndi ung og stolt vinkona mín mér sögu sem hún hafði skrifað heima. Sagan var um kisuna Klódísi, sem sefur alltaf til fóta í rúminu hennar.  Sögunni fylgdi falleg teikning.  Fyrirmælin sem kennarinn hafði gefið nemendum í 5. bekk voru að skrifa heima sögu um gæludýr og muna að hafa upphaf, miðju og endi.  Næst þegar ég hitti vinkonu mína sýndi hún mér stolt broskarl, sem kennarinn hafði sett neðan við söguna, þar sem hann hafði einnig skrifað; Fín mynd. Flestum kennurum og foreldrum eru svona verkefni kunnugleg og algengt að börn vinni þau heima með aðstoð foreldra. En læra börn eitthvað af svona sögugerð?

Í  aðalnámskránni sem kom út 2011/2013 er lögð áhersla á  að kennarar geri nemendum grein fyrir markmiðum námsins og hvernig þeim miðar í átt að þeim. Þannig á að stuðla að því að nemendur velti reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skuli stefna. Nemendum þarf því að vera ljóst hvaða viðmið eru lögð til grundvallar við mat á þeim verkefnum sem þeir eru að vinna. Í verkefninu sem sagt var frá hér á undan voru markmiðin sem kennarinn setti eftirfarandi; sagan átti að vera um gæludýr og það átti að vera upphaf, miðja og endir á sögunni. Eftir því sem ég komst næst í spjalli mínu við vinkonu mína, þá vissi hún ekki hvaða viðmið voru til grundvallar á árangri. Hún vissi bara að sagan hennar var broskarlsins virði, en gat ekki útskýrt hvers vegna, jú, sagan var um dýr og hún gat bent á byrjunina á sögunni, miðjuna og endinn en hana grunað helst að myndin hefði haft mest áhrif á mat kennarans. Lærdómurinn sem hún dró var að vel teiknaðar myndir geri sögur góðar. En var það markmið kennarans með verkefninu?

Það er ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með nemendum vinna þegar þeir eru meðvitaðir um markmið verkefnisins og vita auk þess hvaða viðmið eru um árangurinn. Ég hef  séð nemendur í 5. bekk sem voru að læra að skrifa fræðitexta, en það var eitt af námsmarkmiðum móðurmáls í bekknum. Verkefnið fólst í því að gera hefti um ímyndað gæludýr sem nemendur höfðu sjáfir skapað. Oft voru dýrin samsett úr nokkrum raunverulegum dýrum t.d. höfuð af hana, búkur af kameldýri og sporður af fiski. Tveir og tveir nemendur unnu saman. Viðmið um góð hefti voru að þau gæfu lesandanum mikilvægar upplýsingar um dýrið. Það þyrfti m.a. að vera teikning af dýrinu, upplýsingar um uppruna þess og skyldleika við önnur dýr, helstu einkenni þ.á.m. stærð, þyngd, heiti á kvendýri, karldýri og afkvæmum, upplýsingar um fæðu dýrsins og lífslíkur. Meðan nemendurnir sátu við vinnu sína fór kennarinn á milli, vakti athygli á því þegar þeir höfðu náð einstökum markmiðum verkefnisins og hvatti þá með því að benda á hvernig þeir gætu komist enn nær markmiðunum. Hann var með öðrum orðum að nota leiðsagnarmat.

Áður en nemendurnir hófust handa höfðu þeir hlotið góðan undirbúning sem m.a. fólst í því að kynnast umfjöllun um algengustu dýrategundir og einkenni þeirra, lesa saman fræðitexta um dýr, bæði á netinu og í bókum, safna orðum sem tengjast efninu og skoða mismunandi framsetningu í fræðibókum. Tilraunir voru gerðar með teikningar og líflegar samræður höfðu átt sér stað. Þegar nemendurnir höfðu lokið við að gera heftin kynntu þeir þau fyrir nemendahópnum. Þar var hvert og eitt hefti metið með hliðsjón af viðmiðunum.  Allir fengu hrós fyrir það sem hafði tekist vel en einnig ábendingar um hvernig mætti  gera enn betur. Loks áttu nemendurnir að fara heim með heftin sín og kynna þau fyrir foreldrum sínum.

Þessir nemendur voru ekki í neinum vafa um hvað þeir höfðu lært af verkefninu og gátu einnig metið eigin árangur og annarra og rökstutt matið.

 NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s