Hverju bjarga inntökupróf í framhaldsskólana?

prófAf hverju hef ég á tilfinningunni að við séum að taka skref aftur á bak með fyrirhuguðum inntökuprófum í framhaldsskólana? Eru inntökupróf besta leiðin til að takast á við þá staðreynd að brotthvarf  úr framhaldsskólum hér á landi er með því hæsta sem gerist í Evrópu? Eða höfum við orðið sammála um að eftirsóttustu framhaldsskólarnir eigi aðeins að vera fyrir afmarkaðan hóp nemenda? Teljum við samfélaginu best borgið með því að skipa fólki í einsleita hópa við lok grunnskólans? Við sem höfum státað af því að búa í einsleitu samfélagi, sem hefur að miklu leyti verið laust við stéttaskiptingu.

Eins og fram kemur í viðtali við Sigrúnu Harðardóttur sem nýlega varði doktorsritgerð sína um Líðan framhaldsskólanema. Um námserfiðleika, áhrifaþætti og ábyrgð samfélags þá á einn af hverjum sjö nemendum við námserfiðleika að stríða í framhaldsskóla. Það er því ljóst að framhaldsskólinn hentar ekki öllum. Það er auðvitað engin leið að halda því fram að grunnskólinn geri það heldur, en nemendur eiga ekki kost á að hætta þar og lög skylda grunnskólann til að mæta þörfum þeirra. Grunnskólinn á að vera fyrir alla og þó vissulega megi gera betur er markmiðið að haga starfi skólans á þann veg að allir nemendur fái nám við hæfi. Þegar grunnskólanum líkur er ekki lengur gert ráð fyrir að skólakerfið þurfi að mæta þörfum nemenda, heldur virðast nemendur þurfa að mæta þörfum framhaldsskólans. Þeir eiga að passa inn í fyrirkomulagið sem þar ríkir. Spurningin er hvaða möguleika þeir eiga þar  sem ekki falla í þann flokk? Samkvæmt því sem fram kemur í rannsókn Sigrúnar þá hefur nemendum, sem útskrifast úr framhaldsskólum, ekki fjölgað neitt að ráði síðastliðin 30 ár, enda þótt mun fleiri hefji þar nám. Af því hljótum við að draga þá ályktun að námið henti illa stórum hópi nemenda. Hugsanlega mun inntökuprófið koma í veg fyrir að þessir nemendur eyði tíma sínum til einskis í framhaldsskóla, tíma sem er dýrmætur fyrir þá og fyrir samfélagið, auk þess sem hann skaðar sjálfsmynd nemandanna. En hvað annað stendur þeim til boða?

Eins og oft hefur komið fram virðist iðn- og verknám ekki njóta réttmætrar virðingar hér á landi. Mér verður oft hugsað til menntaskólapilts, sem ég ræddi einu sinni við. Honum leið illa í skólanum og leiddist námið alveg hroðalega. Þessi ungi maður átti sér þann draum einan að verða bifvélavirki en foreldrar hans höfðu sett honum skilyrði um að ljúka stúdentsprófi áður en hann tæki frekari ákvarðanir um starfsval. Skiljanlega vilja foreldar að börn þeirra eigi trygga og góða atvinnumöguleika í framtíðinni, en háskólamenntun er ekki endilega trygging fyrir vel launuðu og öruggu starfi eins og fram kom í erindi Pasi Sahlberg, sem hann flutti á Ulead ráðstefnunni í Alberta fyrr á þessu ári. Hann benti á að stór hluti háskólanema fengi ekki störf eftir útskrift og sá hópur færi stækkandi. Að hans mati ætti það að vera eitt mikilvægasta verkefni skólakerfisins að mennta fólk sem  væri fært um að skapa eigin störf.  Þar fyrir utan má svo velta því fyrir sér hvort það eigi að vera hlutverk háskóla að stuðla að almennri starfsmenntun.

Víða í nágrannalöndunum er námsframboð mun fjölbreyttara en hér. Um nokkurra ára skeið hafði ég sumarvinnu í fataverslun í Danmörku, þar sem ég var eini ófaglærði starfsmaðurinn í hópi „tøjeksperter“. Þetta var fólk sem hafði lokið námi á sínu sviði, kunni sitt fag og var stolt af því, þó það hefði ekki lokið stúdentsprófi. Mér hefur oft verið hugsað til þess að ekki myndi saka að auka þekkingu og færni sumra verslunarmann hér á landi.  Allt bendir til að hér verði aukin eftirspurn eftir sérhæfðu fólki í þjónustugeiranum ekki síst vegna aukinnar ferðamennsku, hvernig ætlum við að mæta þeirri eftirspurn? Svo dæmi sé tekið. Það má heldur ekki gleyma hversu dýrmætt það er, líka fyrir samfélagið, að hver og einn fái tækifæri til að læra og starfa við það sem hann hefur mestan áhuga á.

Líklega munu inntökuprófin leysa ákveðinn vanda fyrir vinsælustu framhaldsskólana, eins og gömlu landsprófin gerðu, en ég fæ ekki séð að þau bæti hag stórs hluta nemenda né samfélagsins, til þess þurfum við að horfa á heildarmyndina, vera framsýn en umfram allt mannleg.

NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s