Lærum af Lars Lagerbäck

LandsliðiðÞeir eru vandfundnir sem ekki fyllast stolti yfir árangri  íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Það er ekki einungis árangurinn sem veldur því stolti heldur einnig fáguð framkomu liðsins og  stuðningsmenn sem standa bak sínum mönnum í mótbyr og meðbyr. Maður sem þekkir vel til fullyrti að ótrúlegum árangri landsliðsins væri ekki síst að þakka viðhorf og væntingar þjálfara liðsins Lars Lagerbäck. Liðsmenn hafi aldrei velkst í vafa um að  Lagerbäck geri ráð fyrir að þeir nái markmiðum sínum.  Með væntingum sýnum hefur hann byggt upp sterka og jákvæða sjálfsmynd liðsins sem endurspeglast í allri framkomu þeirra, meira að segja snyrtilegum klæðaburði.  Þeir telja sér t.d. ekki samboðið að sitja með húfu á höfðinu innanhúss, að  koma ókurteislega fram við fólk  eða að tala af vanvirðingu um andstæðinginn eða dómara. Af þessu má ráða að Lagerbäck býr einmitt  yfir þeim kostum sem margir fræðimenn (þ.á.m. Hargreaves, Desforgers, Hattie o.fl.) telja lykilinn að farsælu uppeldi. Í því felst að byggja upp sterka, heilbrigða sjálfsmynd, seiglu til að takast á við áskoranir, kjark til að læra af mistökum og síðast en ekki síst færni til að starfa sem hluti af heild og bera virðingu fyrir öðrum, líka þeim sem eru í öðrum liðum í mannlífinu.

Sumir halda því fram að þeim foreldrum fjölgi sem vilja pakka börnum sínum inn í bómull til að vernda þau frá öllum óþægindum lífsins og að þessir foreldrar geri æ meiri kröfur um að skólinn verndi börnin þeirra. Eins og fram kom í erindi Rosalind Wiseman , sem hún hélt 18. sept. s.l. á vegum verkefnisins  Á allra vörum,  er orðið æ algengara að foreldrar skilgreini öll samskiptavandamál barna sinna sem einelti gagnvart þeim og geri kröfur um að skólinn bregðist við í samræmi við það.  Wiseman, sem er sérfræðingur í eineltismálum í Bandaríkjunum, segir að það sé því orðið vegamikill þáttur í starfinu að greina á milli eineltis og samskiptavanda. Íslenskur sérfræðingur, sem kemur oft að eineltismálum, sagði mér að það yrði sífellt erfiðara að fá foreldra til að horfast í augu við að börn þeirra taki þátt í einelti og þegar skólinn stæði fastur á sínu sneru foreldrar jafnvel vörn í sókn og ásökuðu skólann um að leggja barnið þeirra í einelti.

Það er ekkert eins skiljanlegt og foreldrar sem vilja vernda börnin sín. Það eru til sögur um foreldra sem ganga svo langt að loka börnin sín inni til að forða þeim frá öllum sársauka lífsins, en sjaldnast hefur það farið eins og til stóð, jafnvel þvert á móti. Vissulega eiga börn rétt á því að við fullorðna fólkið veitum þeim öryggi og vernd en það má aldrei verða á kostnað þess að þau læri að taka ábyrgð.  Við gerum engum börnum greiða með því að hafa ekki réttmætar væntingar til þeirra um að leggja sig fram í samskiptum og í námi.

Flestir kennarar kannast við frásagnir af því hvernig væntingar kennara hafa áhrif á árangur nemenda. Þegar kennara hefur verið talið trú um að nemendahópurinn, sem hann er að taka við, sé námslega sterkur og muni ná góðum námsárangri þá gengur það jafnan eftir. Þegar kennarinn álítur hinsvegar að nemendur hans séu almennt slakir námsmenn dregur það jafnan úr væntingum hans og það kemur fram í námi nemendanna. Við sem störfum að uppeldismálum, hvort sem við erum fagfólk eða foreldar,  getum tekið  landsliðsþjálfararann til fyrirmyndar  og lagt okkur fram um að efla með börnum okkar og nemendum heilbrigða og sterka sjálfsmynd í samfélagi jafningja. Í stað þess að ofvernda börn okkar og nemendur þurfa þeir að finna að foreldrar þeirra og skólinn vænta þess að þau leggi sig fram og geri sitt besta. Jafnframt mynda foreldrar og skólinn stuðningslið sem stendur þétt að baki þeim í mótbyr og í meðbyr.

NKC

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s