Í dag 16. nóvember, á degi íslenskrar tungu, mun sprotafyrirtækið Ís-leikir ehf. gefa út nýtt íslenskt smáforrit fyrir iPad sem kallast Segulljóð og verður það til sölu í App-búðum um allan heim.
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra opnar forritið með því að semja ljóð í gegnum það og senda inn á Segulljod.is.
Segulljóð er skemmtilegt forrit sem virkjar sköpunargáfur notandans og kveikir áhuga á tungumálinu. Segulljóð er hugsað til ljóðasköpunar og leiks með tungumálið. Notandi fær orð sem eru valin eftir slembivali til að raða saman og skapa ljóð. Forritið hentar vel til að útbúa stutt ljóð og örsögur en má einnig nota það til að semja tækifæriskveðjur til ástvina eða sem kveikjur að stærri verkefnum. Forritið er í senn frábært verkfæri við skapandi nám og skrif og frumlegt afþreyingartæki.
Nánar um Segulljóð
Í forritinu eru átta mismunandi orðaþemu með samtals yfir 13 þúsund orðum sem öll orð hafa allar mögulegar birtinga- og beygingamyndir. Nafnorð eru bæði með og án greinis og lýsingarorð og sagnorð geta haft tugi orðmynda. Þegar hafist er handa við nýtt verkefni stillir notandinn úr hvaða orðaþemum hann vill fá orð. Einnig er hægt að stilla fjölda orða úr hverjum orðflokki. Forritið velur með slembivali orð úr viðeigandi pökkum til að nota við ljóðagerðina. Þegar ljóðavinnan er hafin er hægt að bæta við orðum úr öllum orðflokkum. Einnig geta þeir sem vita hvað þeir vilja bætt við eigin orðum til þess að ná að fullkomna ljóðið sitt. Útlit ljóðanna er hægt að breyta að vild, letur, litir og bakgrunnur er meðal þess sem hægt er að stilla nánast að vild og ná þannig fram réttu stemmingunni fyrir ljóðið þitt. Þegar ljóð er tilbúið er hægt að gefa það út á segulljod.is eða deila því með vinum á Facebook, Twitter og með tölvupósti.
Höfundur og hönnuðir forritsins eru Guðný Þorsteinsdóttir og Friðrik Magnússon frá Eskifirði og gerð þess var styrkt af þróunarsjóði námsgagna.
Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Segulljóða og á Facebook
Skjáskot og annað kynningarefni bæði myndir og myndskeið er að finna hér: http://www.segulljod.is/kynningarefni/
Þá er bara að fara að yrkja.