Árangur nemenda og kennara

Í ljósi þess hve árangur nemenda er álitinn skipta miklu máli í alþjóðlegum samanburði skólakerfa er áhugavert að velta því fyrir sér hvaða augum íslenskir kennarar líta á árangur? Álítum við árangur nemenda og kennara vera jafn eftirsóknarverðan og Bretar, Kanadamenn o.fl. gera eða er hugsanlegt að við höfum annað viðhorf til árangurs?

Í Englandi er lögð rík áhersla á ytra mat í skólastarfi en þar eru gæði skóla fyrst og fremst metin eftir árangri nemendanna. Eftir nýjustu breytingar í heildarmati þar í landi skilst mér að matsmönnum, sem fara í skólana, sé ætlað að meta gæði hverrar kennslustundar út frá því hversu miklar framfarir verða á námi nemendanna í viðkomandi kennslustund. Mér er ekki fyllilega ljóst hvernig þetta er framkvæmt enda ekki komin mikil reynsla á matið eftir þessar áherslubreytingar, en gert er ráð fyrir að ákveðnir nemendur verði valdir í úrtak, þekking þeirra og/eða færni metin fyrir  kennslustund, miðað við markmið hennar, en síðan verður fylgst með framförum nemendanna í kennslustundinni. Frammistaða kennarans verður svo metin út frá því hverjar framfarir nemendanna eru en í Englandi er skipulega fylgst með árangri hvers kennara og brugðist við með viðeigandi aðgerðum þegar við á. Skólastjórinn er ábyrgur fyrir að framfylgja þeim aðgerðum enda ber honum að tryggja að allir nemendur fá eins góða kennslu og mögulegt er.

Eins og fram kom í pistli mínum um skólana í Ontario, sem birtist hér í Krítinni fyrir skömmu, er námsárangur nemenda þar í brennidepli. Skólaþróunin snýst fyrst og fremst um að auka námsárangur nemenda með því að efla færni kennaranna til að bæta kennsluna og með því  auka traust samfélagsins til skólans.

Enda þótt krafan um árangur nemenda sé ekki jafn fyrirferðarmikil hér á landi leggja a.m.k. flestir íslenskir kennarar áherslu á að nemendur þeirra taki framförum enda hefur það sýnt sig í alþjóðlegum könnunum eins og Pisa að Ísland kemur frekar vel út í samanburði þjóðanna. Á árunum 2000-2009 eru 8 lönd hærri en Ísland í læsi, 11 í stærðfræði og 13 í náttúrufræði af 33 löndum.

Öll þekkjum við fyrirmyndar kennara sem leggja sig alla fram um að gera nám nemenda sinna merkingarbært og áhugavert í þeim tilgangi að auka árangur þeirra í náminu. Enn eru þó til kennarar sem álíta áhersluna á námsárangur neikvæða og telja hana jafnvel skaðlega. Ég hef t.d. heyrt umhyggjusama kennara halda því fram að það skipti miklu meira máli að nemendum líði vel í skólanum en að þeir nái árangri í náminu. Í þeirra huga virðist sem árangur og vellíðan geti ekki farið saman og séu jafnvel andstæðir pólar. Væntanlega snýst þetta um skilgreiningu á hugtakinu námsárangur. Felst góður árangur í því að fá góðar einkunnir eða snýst hann um að ná þeim markmiðum sem hverjum og einum er sett miðað við þroska og getu, að taka stöðugum framförum?

Mat á gæðum kennara er okkur framandi, ég kannast a.m.k. ekki við að grunnskólakennarar hafi verið formlega metnir eftir námsárangri nemenda sinna. Flestir eru væntanlega á þeirri skoðun að kennarar hafi mikil áhrif á námsárangur nemenda sinna og ég geri ekki ráð fyrir að nokkur starfandi kennari  líti svo á að námsárangur sé á ábyrgð nemandans sjálfs og því ekki við kennarana að sakast ef nemandinn stendur sig ekki, en Ribbins[1]  nefndi þetta einkenni ósjálfstæða fagmennsku.  Tilhugsunin um að vakta og meta gæði kennara eftir árangri nemenda hans eru okkur enn harla framandi. Ég segi enn,  vegna þess að reynslan segir okkur að ríkjandi straumar í nágrannalöndum berist fyrr eða síðar upp að ströndum okkar litla lands.

NKC


[1]   Ribbins, P. 1990. Teachers as Professionals: towards a redefinition. Morris, R. (ritsstj.). Central and local control of education after the education reform act 1988. Bls. 77–94. Harlow. Longman

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s